V.I. Lenín (1911) Í minningu Kommúnunnar

Fjörutíu ár eru liðin frá því að lýst var yfir stofnun Parísarkommúnunnar. Að venju hyllir franskur öreigalýður minninguna um framgöngu byltingarsinnaðra verkamanna hinn 18. mars 1871 með fundahöldum og kröfugöngum. Í maílok mun hann enn á ný leggja blómsveig að gröfum hinna föllnu Kommúnarða, fórnarlamba hinnar ægilegu „maíviku“, enn á ný sverja eið sinn við grafirnar, eiðinn um að berjast og unna sér ekki hvíldar fyrr en hugmyndir þeirra hafa sigrað, fyrr en því málefni sem þeir létu eftir sig í arf er hrundið í framkvæmd.

Hvers vegna hyllir öreigalýðurinn, ekki aðeins í Frakklandi heldur um allan heim, þessar hetjur Parísarkommúnunnar sem forgöngumenn öreigalýðsins? Hver er arfurinn eftir Kommúnuna?

Kommúnan hófst af sjálfri sér. Enginn hafði undirbúið hana með markvissum og skipulögðum hætti. Hið misheppnaða stríð við Þýskaland, þjáningarnar í umsátrinu, atvinnuleysið hjá öreigalýðnum, gjaldþrotið hjá smáborgurunum, óanægja fjöldans gegn efri stéttunum og gegn yfirvöldunum sem höfðu afhjúpað algjört getuleysi sitt, ólgandi órói meðal verkalýðsstéttarinnar sem undi ekki hag sínum og leitaði annars samfélagslegs skipulags, afturhaldssamsafnið á þjóðþinginu sem var ógnun við framtíð lýðveldisins, það var allt þetta og margt annað sem í sameiningu neyddi íbúa Parísarborgar til þessarar byltingar hinn 18. mars en hún færði óvænt völdin í hendur þjóðvarðliðsins sem fékk þau í hendur verkalýðsstéttarinnar og þeirra smáborgara sem samfylktu henni.

Þessi atburður átti sér enga hliðstæðu í sögunni. Fram að þessu höfðu völdin nær alltaf verið í höndum jarðeigenda og kapítalista, þ.e.a.s. í höndum hinna tryggu fulltrúa þeirra sem mynduðu hina svokölluðu stjórn. Strax eftir 18. mars þegar stjórn Thiers hafði flúið frá París með hersveitum sínum, lögreglu og skriffinnum réði fólkið ástandinu og völdin færðust í hendur öreigalýðnum. En í þáverandi samfélagi gat öreigalýðurinn sem auðvaldið arðrændi efnahagslega ekki ráðið pólitiskt, ekki brotið þau járn sem hlekkjuðu hann við auðmagnið. En einmitt þess vegna var það óhjákvæmilega nauðsynlegt að hreyfingin sem kom Kommúnunni á hefði á sér sósíalískt snið, þ.e.a.s. hún leitaðist við að afnema yfirráð borgarastéttarinnar, yfirráð auðmagnsins og eyðileggja sjálfan grundvöll þáverandi samfélagsskipunar.

Þessi hreyfing var í fyrstu ákaflega blendin og bág. Í för með henni slógust líka föðurlandsvinir sem vonuðu að Kommúnan tæki að nýju upp stríðið við Þjóðverja og leiddi það til gæfusamlegra lykta. Þeir voru studdir af smásölum sem áttu gjaldþrot yfirhöfði sér ef þeir fengju ekki greiðslufrest lána sinna og leigna (ríkisstjórnin neitaði þeim um þennan frest en Kommúnan gaf þeim hann). Loks átti hún í fyrstu samúð nokkurs hluta borgaralegra lýðveldissinna sem óttuðust að hið afturhaldssama þjóðþing („sveitamennirnir“, hrottafengnir gósseigendur) mundi endurreisa konungsstjórn. En aðalhlutverkið í þessari hreyfingu léku að sjálfsögðu verkamenn (fyrst og fremst handverksmenn Parísar), meðal þeirra hafði á síðustu árum annars keisaradæmisins komið fram virkur sósíalískur áróður og nokkur hluti þeirra var meira að segja meðlimir í Parísardeild Alþjóðasambandsins.

Aðeins verkamennirnir voru Kommúnunni trúir þar til yfir lauk. Hinir borgaralegu lýðveldissinnar og smáborgararnir drógu sig brátt úr hreyfingunni. Sumir urðu hræddir við byltingarsinnað-sósíalískt og öreigasinnað eðli hreyfingarinnar, aðrir yfirgáfu hana þegar þeir fundu að óumflýjanlegur ósigur hennar var í nánd.

Aðeins öreigarnir frönsku studdu óskelfdir og ótrauðir stjórn sína, aðeins þeir börðust og dóu fyrir hana, dóu fyrir frelsun verkalýðsstéttarinnar, dóu fyrir bjartari framtíð handa öllum vinnandi mönnum.

Yfirgefin af gömlum bandamönnum sínum og án nokkurs stuðnings að utan var Kommúnan dæmd til ósigurs. Öll borgarastétt Frakklands, allir jarðeigendur landsins, kauphallarbraskarar, verksmiðjueigendur, þjófarnir allir, stórir og smáir, arðræningjarnir allir, sameinuðust gegn Kommúnunni. Þessari borgaralegu samsteypustjórn, studdri af Bismarck (sem leysti 100000 franska hermenn úr þýsku haldi til að kúga hina byltingarsinnuðu Parísarborg), tókst að espa hina fákænu bændur og smáborgarana í kaupstöðunum gegn öreigalýð Parísarborgar og mynda járnhring um hálfa París (eða öllu heldur hálfhring, því að um hinn helminginn sat þýski herinn). Í nokkrum stærri kaupstöðum Frakklands (Marseille, Lyon, Saint-Étienne, Dijon o.fl.) reyndu verkamenn einnig að taka völdin, lýsa yfir kommúnum og koma Parísarbúum til hjálpar, en þær tilraunir voru fljótlega bældar niður. Og Parísarborg sem fyrst dró að húni byltingarfána öreiganna varð að bjargast við þann eigin herstyrk sem var trúr þar til yfir lauk.

Til þess að félagsleg bylting sigri er uppfylling a.m.k. tveggja skilyrða nauðsynleg, skilyrðis um hátt þróunarstig framleiðsluaflanna og skilyrðis um viðbúnað öreigalýðsins. En árið 1871 skorti á bæði þessi skilyrði. Franski kapítalisminn var enn lítt þróaður og Frakkland var á þessum tíma einkum land smáborgara (handverksmanna, bænda, verslunarmanna, o.s.frv.). Hins vegar var enginn verkalýðsflokkur til, verkalýðurinn var enn ekki viðbúinn og hafði enga virka reynslu, allur þorri hans hafði ekki einu sinn ímyndað sér hugmynd um verkefnin og aðferðirnar til að framkvæma þau. Það var ekki til nein pólitísk skipulagning öreigalýðsins, engin sterk verkalýðsfélög eða samvinnufélög.

En það sem Kommúnuna vantaði allra mest var einfaldlega tími og ráðrúm til að hugsa upp og hefja framkvæmd stefnuskrár sinnar. Hún hafði varla tekið til starfa fyrr en ríkisstjórnin sem sat í Versölum og var studd af allri borgarastéttinni hóf hernaðaraðgerðir gegn París. Um leið varð Kommúnan fyrst og fremst að beina kröftunum að vörn sinni. Allt til endalokanna, 21.-28. maí, fékk hún engan tíma til að gaumgæfa neitt annað.

En þrátt fyrir svo óhagkvæmar aðstæður, þrátt fyrir hinn stutta tíma sem hún var til, tókst Kommúnanni að koma fram nokkrum aðgerðum sem nógsamlega láta í ljós þýðingu hennar og markmið. Kommúnan lét vopnaða alþýðu koma í stað fastahers, þessa blinda verkfæris ríkjandi stétta. Hún skildi kirkju frá ríki, hún skar niður trúarbragðafjárlögin (s.s. ríkislaun til presta) léði alþýðukennslunni einungis fræðslueðli og veitti með því hermönnum í prestshempum tilfinnanlegar búsifjar. Á sviði hreinræktaðra samfélagsmála náði hún ekki að gera mikið en það sem hún gerði var alla vega nóg til að sýna eðli Kommúnunnar, hún var stjórn alþýðu og verkamanna, næturvinna í bakaríum var bönnuð, refsingakerfi verksmiðjueigenda gegn verkamönnum, þessi lögleiddi ránskapur á verkamönnum var afnumið.

Loks gaf hún út hina frægu tilskipun sem fól í sér að allar verksmiðjur, iðnver og verksmiðjur sem yfirgefin höfðu verið af eigendum sínum eða eigendur þeirra stöðvuðu reksturinn skyldu afhentar verkamönnum sem áttu að sjá um framleiðsluna.

Og eins til að árétta eðli sitt sem sannrar lýðræðis- og öreigasinnaðrar stjórnar ákvað Kommúnan að engin laun til embættismanna í ráðuneytum eða ríkisstjórn mættu vera hærri en venjuleg verkamannalaun og á hverju ári sem ylti þá mættu þau aldrei vera hærri en 6000 frankar á ári.

Allar þessar aðgerðir vitna nógu greinilega um það að Kommúnan var dauðaógnun við hinn gamla heim sem grundvallast á þrældómi og arðráni. Þess vegna gat hið borgaralega samfélag ekki sofið rótt meðan hinn rauði fáni blakti yfir ráðhúsi Parísarborgar. Þegar hinum skipulögðu stjórnarherjum tókst loksins að ná yfirhöndinni yfir illa skipulögðum herstyrk byltingarinnar þá hófu hinir bónapartísku hershöfðingjar, sem áður höfðu verið gjörsigraðir af Þjóðverjum en hrokafullir gagnvart búandfólki eigin lands sem þeir kúguðu, þessir frönsku Rennenkampfar og Möller Sakkomelskijar, hina ferlegustu mannaslátrun í sögu Parísarborgar. Villidýrslegur málaliðaskríll myrti um það bil 30.000 Parísarbúa, u.þ.b. 45.000 voru handteknir og voru síðan teknir af lífi, þúsundir manna voru fluttir til refsivistar í nýlendufangabúðum eða gerð alútlægar frá París.

Samtals missti Parísarborg u.þ.b. 100.000 sona sinna og dætra, þar á meðal einhverja bestu verkamanna sinna í öllum starfsgreinum. Borgarastéttin var loksins ánægð. „Um langa framtíð er sósíalisminn brotinn á bak aftur“ lýsti forystumaður hennar yfir, hinn blóðþyrsti dvergur Thiers, eftir blóðbað það sem hann og hershöfðingjar hans höfðu framið á öreigalýðnum í París. En þessar borgaralegu óheillakrákur krúnkuðu til einskis. Aðeins sex árum eftir ósigur Kommúnunnar, meðan margar af hetjum hennar voru enn þjáðar með nýlendufangabúðum og útlegð, óx fram ný verkalýðshreyfing í Frakklandi. Ný sósíalísk kynslóð, sem hafði lært af reynslu fyrirrennara sinna og ekki látið hugfallast við ósigur þeirra, hóf nú þann fána sem fallið hafði úr höndum hetja Kommúnunnar og bar hann fram örugg og djörf undir kallinu: „Lifi samfélagsbyltingin! Lifi Kommúnan!“ Og eftir aðeins nokkur ár í viðbót hafði þessi nýi verkalýðsflokkur og áróðurinn sem hann flutti neytt hinar ríkjandi stéttir til að láta lausa hina fangelsuðu Kommúnarða sem enn voru í klóm ríkisstjórnarinnar.

Minningunum hetjur Kommúnunnar hylla ekki aðeins franskir verkamenn heldur öreigalýðurinn í öllum heiminum. Því að Kommúnan barðist ekki fyrir neinum þröngsýnum, staðbundnum eða þjóðernissinnuðum markmiðum heldur fyrir frelsun alls vinnandi mannkyns, fyrir frelsi allra undirtroðinna og kúgaðra. Mynd lífs og dauða Kommúnunnar, sýn verkalýðsstjórnar sem tók og hélt völdunum í meira en tvo mánuði, ásýnd hetjulegrar baráttu og þjáninga hans eftir ósigurinn – allt þetta hefur hert hug milljóna verkamanna, örvað vonir þeirra og bundið samúð þeirra hugmyndum sósíalismans. Drunurnar frá fallbyssunum í París vakti einnig þá hluta öreigalýðsins sem skemmst voru komnir af djúpum svefni og alls staðar hafa þær haft áhrif til styrktar hinum byltingarsinnaða sósíalíska áróðri. Einmitt þess vegna er hugsýn Kommúnunnar ekki dáin. Hún lifir enn í dag í sérhverjum okkar. Hugsýn Kommúnunnar er hugsýn samfélagsbyltingarinnar, hugsýn algers pólitísks og efnahagslegs frelsis vinnandi manna, hugsýn hins alþjóðlega öreigalýðs. Og í þessari merkingu er hún ódauðleg.

Færðu inn athugasemd