Ernest Mandel (1970) Skipulagskenning lenínismans: erindi hennar í dag

1. Inngangur

Um sögulegt mikilvægi skipulagskenningar lenínismans og gildi hennar í dag verður því aðeins rætt af alvöru að menn tilgreini nákvæmlega stað hennar í sögu marxismans, eða, svo þetta sé orðað af meiri nákvæmni, í sögulegu myndunarferli marxismans og þróunar hans. Rekja verður þetta sögulega ferli, eins og öll ferli önnur, til innri andstæðna sinna, og gæta þá að nánu gagnkvæmu sambandi fræðilegrar þróunar og þróunar hinnar raunverulegu stéttabaráttu.

Þannig birtist skipulagskenning lenínismans sem díalektísk eining þriggja þátta: hún er kenning um að á yfirstandandi tímaskeiði heimsvaldastefnunnar sé bylting á dagskrá í vanþróuðum ríkjum (og um allan heim þegar kreppa auðvaldsskipulagsins er orðin alþjóðleg); hún er kenning um ójafna og mótsagnakennda þróun stéttarvitundar öreiganna og þann greinarmun sem gera verður á helstu þróunarstigum hennar; og hún er kenning um eðli marxískrar fræðikenningar og sérstakt samband hennar við vísindi annars vegar og stéttarbaráttu öreiganna hins vegar.

Ef nánar er að gáð kemur í ljós að þessar þrjár kenningar tiltaka „félagslegan grundvöll“ hinnar lenínísku skipulagshugmyndar, en án hans yrði hugmyndin ómarkviss, óvísindaleg og engin efnishyggjukenning. Flokkshugmynd lenínismans er ekki sú eina mögulega. En hún ein kemur til álita ef gert er ráð fyrir því að framvarðarflokkur hafi það sögulega hlutverk að leiða byltingu sem litið er svo á að verði fyrr eða síðar óhjákvæmileg. Lenínísk flokkshugmynd verður ekki skilin frá sérstakri greiningu á stéttarvitund öreiganna, þ.e. að pólitísk stéttarvitund – gagnstætt einberri „faglegri“ vitund – sprettur ekki sjálfkrafa af hlutlægri þróun stéttabaráttunnar.[1] Hin leníníska flokkshugmynd byggir á þeirri forsendu að vísindalegar greiningar búi yfir ákveðnu sjálfstæði, og einkum á þetta við um fræðikenningu marxismans. Enda þótt þessi kenning hvíli á frumbirtingarmyndum stéttarbaráttu öreiganna og fyrstu vísum öreigabyltingarinnar, ætti ekki að líta á hana sem óhjákvæmilega, vélræna afurð stéttabaráttunnar, heldur sem árangur fræðilegs starfs (eða „fræðilega framleiðslu“), er einungis getur tengst og sameinast stéttabaráttunni fyrir tilstuðlan langvinnrar baráttu. Heimssaga sósíalískrar byltingar á tuttugustu öld er saga þessa langvinna ferlis.

Þessi þrískipting kenningarinnar er í rauninni frekari útfærsla á marxismanum, annað hvort á viðfangsefnum sem Marx og Engels tæptu á en unnu ekki úr, eða á þeim þáttum marxískrar fræðikenningar sem litla athygli hafa vakið vegna þess hve seint og slitrótt ritverk Marx voru gefin út á árunum 1880-1905.[2] Það er þannig um að ræða úrvinnslu á fræðikenningu marxismans eins og hún liggur fyrir, með gloppum (og að nokkru leyti mótsögnum) í greiningum Marx, eða alltént í hefðbundnum túlkunum á þeim á fyrsta aldarfjórðungnum eftir dauða Marx.

Einkennandi fyrir þessa útfærslu á kenningum Marx er að hún nálgast eitt og sama höfuðatriðið úr ólíkum áttum, þ.e. að ákvarða sérstök einkenni sósíalískrar byltingar.

2. Söguleg sérkenni öreigabyltingarinnar

Fjögur atriði greina öreigabyltingar tuttugustu aldar frá byltingum fyrri alda.[3] Þau ljá henni sitt sérstæða svipmót, en skapa einnig vandamál sem gera byltinguna sérlega erfiða í framkvæmd, eins og Marx sá fyrir.[4]

  1. Öreigabyltingin er fyrsta árangursríka byltingin í sögunni sem framkvæmd er af lægstu stétt samfélagsins. Þessi stétt hefur möguleika á að hafa gífurleg efnahagsleg völd, en í raun eru þau afar takmörkuð. Henni er algjörlega meinaður aðgangur að auðæfum samfélagsins, og þótt hún hafi aðgang að neysluvörum er þeirra að jafnaði neytt til þurrðar. Um borgarana og aðalinn gegnir öðru máli, en þeir höfðu þegar náð efnahagslegum völdum í samfélaginu er þeir hrifsuðu til sín hin pólitísku völd. Einnig er staða öreiganna gerólík stöðu þrælanna sem ævinlega var ókleift að framkvæma árangursríka byltingu.
  2. Öreigabyltingin er fyrsta byltingin í sögu mannkynsins sem keppir að því að brjóta niður ríkjandi samfélagshætti á meðvitaðan og skipulegan hátt. Hún leitast sem sé hvorki við að endurreisa eldri samfélagsskipan (eins og þræla- og bændabyltingar fortíðarinnar), né heldur að lögbinda pólitísk völd sem hún hefur þegar öðlast á efnahagssviði samfélagsins. Gagnstætt þessu miðar öreigabyltingin að því að hrinda af stað alveg nýju ferli, ferli sem aldrei hefur átt sér stað og hefur einungis verið greint í mynd „kenningar“ eða „stefnuskrár“.[5]
  3. Á sama hátt og hver önnur samfélagsbylting í sögunni, sprettur öreigabyltingin af innri stéttaandstæðum ríkjandi samfélags og þeirri stéttabaráttu sem þær óhjákvæmilega framkalla. En í byltingum fortíðarinnar nægði yfirleitt að útfæra stéttabaráttuna að tilteknu marki, enda var þá ekki um sköpun alveg nýrra samfélagshátta á grundvelli meðvitaðrar skipulagningar að tefla. Öreigabyltingin verður aftur á móti aðeins að veruleika ef stéttarbarátta öreiganna rís loks á hátind og upp hefst tröllaukið ferli sem tekur ár og áratugi. Í slíku ferli felst kerfisbundin og meðvituð umbylting allra mannlegra samskipta og útbreiðsla sjálfstæðrar virkni öreiganna, en síðar (á mörkum stéttlauss samfélags) allra einstaklinga samfélagsins.

Sigur borgarabyltingarinnar gerði borgarana að íhaldssamri stétt,[6] en valdataka öreiganna er hins vegar ekki endirinn, heldur upphafið að samfélagsbyltingu verkalýðsstéttarinnar. Sú þróun getur aðeins tekið enda ef verkalýðsstéttin og sömuleiðis allar aðrar stéttir leysast upp og stéttlaust samfélag tekur við.[7]

  1. Andstætt öllum fyrri samfélagsbyltingum sem gerðar hafa verið innan ramma þjóðríkis eða á enn afmarkaðra svæði, er öreigabyltingin í eðli sínu alþjóðleg og verður aðeins framkvæmd til fullnustu með uppbyggingu stéttlauss samfélags um allan heim. Vissulega getur hún í fyrstu sigrað innan marka eins þjóðríkis, en sá sigur getur aðeins orðið til bráðabirgða og honum er stöðug hætta búin meðan auðvaldið hefur ekki beðið úrslitaósigra í alþjóðlegri stéttabaráttu. Öreigabyltingin er því byltingarferli sem teygir sig um heim allan; en framkvæmd hennar er mismunandi og leiðin krókótt. Fyrst bresta veikustu hlekkirnir í keðju heimsvaldastefnunnar og þær gífurlegu sveiflur er verða í þróun byltingarinnar gerast í samræmi við lögmálið um ójafna og tengda þróun. (Þetta á ekki aðeins við um efnahagssviðið heldur einnig styrkleikahlutföllin milli stéttanna, en það tvennt fylgist ekki sjálfkrafa að).

Í skipulagskenningu lenínismans er tekið tillit allra þessara sérkenna öreigabyltingarinnar. Hún skoðar sérkenni þessarar byltingar m.a. í ljósi sérkenna og andstæðna í stéttarvitund öreiganna. Umfram allt fjallar hún ljóslega um það sem Marx aðeins tæpti á og „marxískir“ bókstafstrúarmenn varla skildu, þ.e.a.s. að það getur hvorki átt sér stað „sjálfkrafa“ umbylting á samfélagskerfi auðvaldsins, né heldur „sjálfsprottin“ eða „lífræn“ upplausn samfélagsins með uppbyggingu sósíalisma. Einmitt vegna þess sérkennis öreigabyltingarinnar að hún er meðvituð bylting, skilyrðist sigur hennar ekki einungis af ákveðnu þróunarstigi hinna „hlutlægu“ þátta (djúptækri samfélagskreppu sem gefur til kynna að kapítalíski framleiðsluhátturinn hafi lokið sögulegu hlutverki sínu), heldur einnig af þróunarstigi ákveðinna „huglægra“ þátta, þróun stéttarvitundar öreiganna og hæfni forystu þeirra. Ef þessir „huglægu“ þættir eru annað hvort ekki fyrir hendi eða aðeins að litlu leyti, mun öreigabyltingin ekki sigra og sjálfur ósigur hennar mun gefa auðvaldinu tækifæri til að styrkja sig í sessi um skeið, bæði efnahagslega og félagslega.[8]

Skipulagskenning lenínismans er einnig dýpkun á marxismanum hvað varðar þau grundvallarvandamál er snerta yfirbyggingu samfélagsins (ríki, stéttarvitund, hugmyndafræði, flokk). Hún myndar, ásamt svipuðum verkum Rósu Lúxembúrg og Trotskís (og að nokkru leyti verkum Lukács og Gramscis), hin marxísku vísindi um huglæga sviðið.

3. Borgaraleg hugmyndafræði og stéttarvitund öreiganna

Í fljótu bragði virðist staðhæfing Marx: „ríkjandi hugmyndafræði í sérhverju samfélagi er hugmyndafræði ríkjandi stéttar“ stangast á við eðli öreigabyltingarinnar, að því leyti sem hún er meðvituð umbylting öreiganna á samfélaginu, afurð meðvitaðrar og sjálfstæðrar virkni hins vinnandi fjölda. Yfirborðsleg túlkun staðhæfingarinnar gæti jafnvel leitt til þeirrar niðurstöðu að það séu draumórar að vænta þess af fjöldanum, sem stöðugt situr undir blekkingarvaðli auðvaldsins og þrýstingi borgaralegrar og smáborgaralegrar hugmyndafræði, að hann geti háð byltingarsinnaða stéttabaráttu gegn þessu samfélagi, hvað þá framkvæmt sósíalíska byltingu. Herbert Marcuse dregur þá ályktun og er í svipinn síðastur í langri runu fræðimanna sem byggja efasemdir um byltingargetu verkalýðsstéttarinnar á skilgreiningu marxismans á ríkjandi stétt.

Vandamálið leysist ef beitt er díalektískri aðferð í stað hinnar formlegu sem skoðar hlutina í kyrrstöðu. Það þarf aðeins að líta á þessa staðhæfingu marxismans af sjónarhóli framvindu. Ríkjandi hugmyndafræði er í sérhverju samfélagi hugmyndafræði ríkjandi stéttar í þeim skilningi að ríkjandi stétt ræður yfir þeim tækjum sem samfélagið hefur til að framleiða hugmyndafræði (kirkjan, skólar, fjölmiðlar, o.s.frv.) og þessum tækjum beitir hún í samræmi við stéttarhagsmuni sína. Á meðan veldi stéttarinnar er vaxandi og stöðugt er það vart dregið í efa. Hugmyndafræði hennar drottnar því einnig yfir meðvitund hinnar undirokuðu stéttar. Á upphafsskeiði stéttabaráttunnar tjá hinir kúguðu sig meira að segja oft með hugmyndum og hugmyndafræði arðræningjanna.[9]

En þegar efasemdir taka að vakna um stöðugleika ríkjandi samfélags, stéttabaráttan harðnar og brestir koma í stéttarveldi arðræningjanna, þá losar a.m.k. hluti hinnar kúguðu stéttar sig undan valdi ríkjandi hugmyndafræði. Bæði fyrir og samhliða baráttunni fyrir félagslegri byltingu á sér stað barátta milli hugmyndafræði valdhafanna og nýyra hugmynda hinnar byltingarsinnuðu stéttar. Þessi barátta ýtir undir og flýtir þróun hinnar raunverulegu stéttabaráttu sem sprettur af. Hún hjálpar hinni byltingarsinnuðu stétt að öðlast vitund um sögulegt hlutverk sitt og markmið baráttu sinnar. Stéttarvitund hinnar byltingarsinnuðu stéttar getur því vaxið út úr stéttabaráttunni þrátt fyrir og í andstöðu við hugmyndafræði ríkjandi stéttar.[10]

En það er fyrst í byltingunni sjálfri sem meirihluti hinna kúguðu getur losað sig undan hugmyndafræði ríkjandi stéttar.[11] Yfirstéttin viðheldur ekki aðeins völdum sínum með hreinum hugmyndafræðilegum blekkingum og með því að mata fjöldann á hugmyndafræðilegri framleiðslu sinni, heldur fyrst og fremst með hinni daglegu starfsemi ríkjandi hagskipunar og samfélagsgerðar og þeim áhrifum sem hún hefur á meðvitund hinna kúguðu. (Þetta á einkum við um borgaralegt samfélag, þótt samsvarandi fyrirbæri megi finna í öllum stéttasamfélögum).

Í auðvaldssamfélaginu fer þessi stjórnun fram í gegnum alþjóðlega vörudreifingu, en hún er nátengd firringunni í mannlegum samskiptum og á rætur sínar að rekja til almennrar útbreiðslu vöruframleiðslunnar og umbreytingar vinnuaflsins í vöru og til almennrar útbreiðslu félagslegrar verkaskiptingar þar sem vöruframleiðsla ríkir. Þessi stjórnun fer einnig þannig fram að þeir sem framleiða eru úttaugaðir og útslitnir vegna arðránsins og hins firrta eðlis vinnunnar og vegna skorts á tómstundum (ekki aðeins að magni til, heldur einnig hvað varðar innihald) o.s.frv. Þá fyrst er byltingin hefst verður, vegna hinnar skyndilegu aukningar á virkni fjöldans utan ramma hinnar firrtu vinnu, hægt að losa um þessi heljartök og vinna bug á þeirri blekkingu sem þau eru undirrót að.

Skipulagskenning lenínismans leitast því við að skilja innri díalektík þessarar pólitísku stéttarvitundar, sem getur aðeins þroskast fyllilega í byltingunni sjálfri, og því aðeins að hún hafi byrjað að mótast fyrir byltinguna.[12] Í þessu skyni styðst kenningin við þrjú meginhugtök: Verkalýðsstéttina í heild (verkalýðsfjöldann); þann hluta verkalýðsstéttarinnar sem þegar tekur meira eða minna samfelldan þátt í baráttu og er skipulagður í samtökum verkafólks (framvörður öreiganna í víðustu merkingu);[13] og hin byltingarsinnuðu samtök, verkamenn og menntamenn, sem taka þátt í byltingarstarfi og eru a.m.k. að einhverju leyti menntaðir í marxismanum.

Hugtakið „stéttin sem slík“ er tengt hinu hlutlæga stéttarhugtaki í félagsfræði Marx, en hún skilgreinir samfélagshóp út frá hlutlægri stöðu hans í framleiðsluferlinu, óháð vitundarstigi hans. (Það er vel þekkt að Marx setti á yngri árum , t.d. í Kommúnistaávarpinu og í pólitískum ritum á tímabilinu 1850-52, fram huglægt stéttarhugtak, en samkvæmt því verður verkalýðsstéttin fyrst stétt í rás baráttu sinnar, þ.e. með því að öðlast ákveðið lágmark stéttarvitundar. Í sambandi við skilgreiningu sem fram kemur í Eymd heimspekinnar kallar Búkarín þetta „stéttina gagnvart sjálfri sér“, andstætt hugtakinu „stéttin sem slík“.[14] Í skipulagshugmyndum Leníns varð hlutlæga stéttarhugtakið grundvallandi og sama má segja um Engels og þýsku sósíaldemókratana, þá Bebel og Kautsky, vegna áhrifa Engels.[15]

Einungis vegna þess að til er hlutlæg byltingarstétt sem getur og stundum neyðist til að heyja byltingarsinnaða baráttu, fær hugtak eins og byltingarsinnaður framvarðarflokkur (sem nær yfir atvinnubyltingarmenn) vísindalega merkingu, eins og Lenín lagði ríka áherslu á.[16] Allt byltingarstarf sem ekki er í sambandi við þessa stéttabaráttu getur í besta falli leitt til flokkskjarna en ekki til flokks. Slíkur kjarni á það á hættu að falla í gryfju einangraðrar og huglægrar yfirborðsmennsku. Samkvæmt skipulagskenningu Leníns er sjálfkjörinn framvörður ekki til. Framvörðurinn verður að fá viðurkenningu sem framvörður (þ.e. sögulegan rétt til að starfa sem framvörður) í þeirri viðleitni sinni að tengjast byltingarböndum hinum meðvitaða hluta stéttarinnar og baráttu hennar.

Hugtakið „meðvitaðir verkamenn“ á rætur að rekja til, hlutlægt séð, óhjákvæmilegrar lagskiptingar innan verkalýðsstéttarinnar. Hún stafar af sérstökum sögulegum uppruna stéttarinnar, sérstakri stöðu hennar í framleiðsluferli samfélagsins og af sérstakri stéttarvitund hennar.

Myndun verkalýðsstéttarinnar sem hlutlægs fyrirbæris er sögulegt ferli. Hlutar verkalýðsstéttarinnar eiga rætur að rekja til daglaunamanna í borgum, en aðrir eru afkomendur landbúnaðarverkamma og eignalausra bænda. Enn aðrir eru börn eða barnabörn smáborgara sem áttu einhver framleiðslutæki (bænda, iðnaðarmanna, o.fl.). Hluti verkalýðsstéttarinnar vinnur í stórum verksmiðjum þar sem bæði efnahagslegar og félagslegar aðstæður stuðla að frummyndun stéttarvitundar (vitundar um að „félagsleg málefni“ verði aðeins leyst með samvinnu og skipulagningu). Annar hluti vinnur í litlum eða meðalstórum iðnfyrirtækjum eða í svonefndum þjónustugreinum, þar sem efnahagslegt sjálfsöryggi og skilningur á nauðsyn víðtækra fjöldaaðgerða skapast mun síður en í stórum iðnfyrirtækjum. Hluti verkalýðsstéttarinnar hefur búið í borgum um langt skeið. Hann hefur lengi kunnað að lesa og skrifa og byggir á faglegri skipulagningu og pólitísku og menningarlegu fræðslustarfi margra kynslóða (í gegnum ungmennasamtök, verkalýðsblöð, fræðslustarf verkalýðs, o.s.frv.). Aðrir búa hins vegar í smábæjum eða jafnvel í sveitum. (Það átti t.d. við um stóran hluta evrópskra námuverkamanna fram undir 1940). Þessir verkamenn búa við slæma félagslega stöðu og hafa lítil eða engin félagsleg samskipti, varla nokkra reynslu af stéttarfélögum og hafa ekki fengið neina pólitíska eða menningarlega fræðslu innan hinnar skipulögðu verkalýðshreyfingar. Hluti verkalýðsstéttarinnar er fæddur í löndum sem hafa verið sjálfstæð öldum saman og þar sem ríkjandi stétt hefur undirokað önnur lönd um langa skeið. Aðrir verkamenn eru fæddir í löndum sem hafa áratugum eða öldum saman barist fyrir þjóðfrelsi – eða bjuggu við bændaánauð og þrælahald langt fram á síðustu öld. Verkalýðsstéttin einkennist enn þá verulega af hinni hefðbundnu verkaskiptingu milli kynjanna og eru verkakonur yfirleitt kúgaðasti hluti verkalýðsstéttarinnar.

Ef ólík einstaklingseinkenni og hæfileikar hvers verkamanns – ekki aðeins mismunandi greind og hæfni til að draga ályktanir af beinni reynslu, heldur einnig mismunandi þolgæði, skapgerðarstyrkur, baráttuvilji og sjálfstraust – eru tekin með í reikninginn um leið og ólík saga og samfélagsgerð, er auðvelt að skilja að lagskipting eftir stéttarvitund er óhjákvæmilegt fyrirbæri í sögu verkalýðsstéttarinnar. Þetta sögulega myndunarferli stéttarinnarendurspeglast á hverjum tíma í mismunandi vitundarstigi verkalýðsins.

Hugtakið „hinn byltingarsinnaði flokkur“ á rætur sínar að rekja til þess að marxískur sósíalismi er vísindi, sem þegar öllu er á botninn hvolft er aðeins hægt að tileinka sér einstaklingsbundið. Marxisminn markar hápunkt (og að vissu leyti einnig endalok) a.m.k. þriggja sígildra samfélagsfræða: klassískrar þýskrar heimspeki; klassísku þjóðhagfræðinnar; og klassískra franskra fræða um stjórnmál (franska sósíalismans og söguritunar). Að tileinka sér marxismann útheimtir í það minnsta skilning á efnislegri díalektík, sögulegri efnishyggju, marxískri hagfræði og hinni gagnrýnu sögu byltinga og verkalýðshreyfingar okkar tíma. Slíkur skilningur er nauðsynlegur ef hægt á að vera að beita marxismanum í heild sem tæki til að greina samfélagsveruleikann og samantekinni reynslu stéttabaráttu öreiganna í heila öld. Það er fjarstæða að hugsa sér að svo geysilegt magn þekkingar og skilnings geti sprottið af sjálfu sér í vinnu við rennibekkinn eða reiknivélina.[17]

Sú staðreynd að í marxismanum sem vísindum birtist hæsta stig stéttarvitundar öreiganna, merkir einfaldlega að einungis í gegnum einstaklingsbundið ferli eru reyndustu, greindustu og djörfustu öreigarnir færir um að tileinka sér þessa stéttarvitund í þróuðustu mynd sinni á sjálfstæðan og milliliðalausan hátt. En þar eð menn tileinka sér þessa stéttarvitund einstaklingsbundið verður hún einnig aðgengileg fólki úr öðrum stéttum samfélagsins (umfram allt byltingarsinnuðum menntamönnum og námsmönnum).[18] Sérhver annar skilningur getur leitt til fagurgala um verkalýðsstéttina – og þá einnig, þegar allt kemur til alls, um auðvaldsskipulagið sjálft.

Vitaskuld verður að hafa í huga að marxisminn  gæti ekki hafa orðið til óháð þróun borgaralegs samfélags og þeirrar stéttabaráttu sem óhjákvæmilega fer fram innan ramma þess. Það eru órjúfanleg bönd milli sögulegrar baráttureynslu verkalýðsstéttarinnar og þróunar hins vísindalega marxisma sem sameiginlegrar, sögulegrar stéttarvitundar í öflugustu mynd sinni. En að halda því fram að vísindalegur sósíalismi sé söguleg afurð stéttabaráttu öreiganna, er ekki það sama og að segja að flestir, hvað þá allir, einstaklingar stéttarinnar geti auðveldlega endurskapað þessa þekkingu. Marxisminn sprettur ekki sjálfkrafa af stéttabaráttunni og reynslu stéttarinnar, heldur er hann árangur vísindalegrar, fræðilegrar vinnu. Að tileinka sér marxismann er einungis mögulegt í gegnum þátttöku í slíku fræðilegu starfi, en það er samkvæmt skilgreiningu einstaklingsbundið, jafnvel þótt þróun framleiðsluaflanna og stéttaandstæðnanna í auðvaldsskipulaginu  sé vitaskuld forsenda hans.

4. Stéttarbarátta öreiganna og stéttarvitund öreiganna

Það ferli sem sameinar öreigafjöldann, öreigaframvörðinn og byltingarflokkinn skilyrðist af þróun frumbaráttu öreigastéttarinnar yfir í byltingarbaráttu –öreigabyltinguna – og þeim áhrifum sem þessi þróun hefur á hinn vinnandi fjölda. Stéttabarátta hefur verið háð í þúsundir ára án þess þó að þeir sem áttust þar við hafi verið sér meðvitaðir um hvað þeir voru að gera. Öreigarnir höfðu lengi háð sína stéttarbaráttu áður en til var nokkur sósíalísk hreyfing, hvað þá vísindalegur sósíalismi. Frumbarátta öreigastéttarinnar (vinnustöðvanir vegna launakrafna eða styttri vinnutíma og annarra umbóta á vinnuaðstöðu) leiðir til frumskipulagningar stéttarinnar (gagnkvæmra styrktarsjóða, fyrstu tilrauna til að mynda stéttarfélög), jafnvel þótt þessi skipulagsform verði ekki langlíf. (Hún leiðir líka til þess að margir verkamenn taka að aðhyllast sósíalískar hugsjónir). Frumbarátta, frumskipulagning og frumvitund öreigastéttarinnar sprettur þannig beinlínis af aðgerðunum og það er einungis reynslan af þeirri baráttu sem getur þróað stéttarvitundina. Það er almennt sögulegt lögmál að vitundarstig fjöldans hækkar einungis í baráttu.

En jafnvel í frumstæðustu mynd sinni skilur sjálfsprottin stéttarbarátta verkalýðsins gegn auðvaldinu eitthvað eftir: vitund sem kristallast í stöðugri viðleitni til að skipuleggja stéttina. Meirihluti fjöldans er aðeins virkur í sjálfum átökunum; eftir átökin snýr hann fyrr eða síðar aftur til einkalífsins (þ.e. til „lífsbaráttunnar“). Það sem greinir framvörðinn frá meirihluta fjöldans er sú staðreynd að hann yfirgefur ekki vígvöllinn á milli þess sem átök ná hámarki, heldur berst áfram „á öðrum vígstöðvum“. Hann reynir að standa vörð um baráttusjóðina og breyta þeim í varanlega baráttusjóði, þ.e. stéttarfélög.[19] Með því að gefa út verkalýðsblöð og skipuleggja námsstarf fyrir verkalýðinn reynir hann að staðfesta og efla þá frumvitund stéttarinnar sem sprettur úr baráttunni. Hann leitast því við að brúa óreglulega og slitrótta virkni fjöldans með samfelldu starfi sínu,[20] og að skapa meðvitað afl sem mótvægi við hina sjálfsprottnu virkni fjöldahreyfingarinnar.

Það sem aftur á móti rekur meðvitaða verkamenn til samfelldrar skipulagningar og aukinnar stéttarvitundar er fremur raunhæf reynsla sem þeir öðlast í baráttu en kenningar, vísindi eða fræðilegar hugmyndir um samfélagsheildina. Þar eð baráttan sýnir[21] að upplausn verkfallssjóðanna eftir verkföll veikir áhrif verkfalla og gagnsemi sjóðanna, þá er reynt að koma á varanlegum verkfallssjóðum. Og þar eð reynslan sýndi að óregluleg dreifibréfaútgáfa hafði minni áhrif en blað sem kom reglulega út, var lagður grunnur að útgáfustarfi verkalýðsins. Meðvitund sem sprettur beint úr baráttureynslu er vitund reynslu og nytsemissjónarmiða. Hún hefur vissulega nokkur jákvæð áhrif á baráttustarfið en stendur langt að baki vísindalegri heildarsýn, þ.e. fræðilegum skilningi.

Byltingarsinnuð framvarðarsveit getur á grundvelli almenns fræðilegs skilnings auðgað þessa vitund, svo fremi henni takist að halda tengslum við stéttarbaráttuna, þ.e. að því tilskildu að hún hiki ekki andspænis því erfiða verkefni að sýna fram á gildi kenningarinnar í raunveruleikanum, sameina fræðikenningu og starf. Út frá þróuðum marxisma – eins og hjá Marx og Lenín – er „sönn“ kenning sem er úr öllum tengslum við starf jafn fráleitt fyrirbæri og „byltingarstarf“ sem ekki grundvallast á vísindalegri fræðikenningu. Þetta rýrir á engan hátt þýðingu og algjöra nauðsyn fræðilegrar starfsemi. Það undirstrikar aðeins þá staðreynd að hinn vinnandi fjöldi og einstakir byltingarmenn geta sameinað kenningu og starf á ólíkum forsendum og á ólíkan hátt. Þetta ferli má draga saman á eftirfarandi hátt:

Ef við breytum myndinni þannig að dragi megi af henni nokkrar ályktanir, verður hún svona:

Þessi mynd gefur tilefni til fjölda ályktana um hreyfimögn stéttarvitundar sem þegar hefur verið tæpt á í greiningunni, en öðlast nú loks sína fullu merkingu. Mjög erfitt er að sameina baráttu hinna meðvituðu verkamanna (hinna „eðlilegu leiðtoga“ verkalýðsstéttarinnar á vinnustöðunum), vegna þess að hún getur hvorki sprottið af sannfæringu einni saman (eins og hjá byltingarkjarnanum), né heldur af sjálfsprottinni heift (eins og meðal fjöldans). Það er einmitt baráttureynslan sem mestu ræður um athafnir hinna meðvituðu verkamanna og gerir þá varfærna við að hefja umfangsmiklar aðgerðir. Þeir hafa þegar dregið lærdóma af fyrri aðgerðum og vita að sjálfsprottnar aðgerðir duga ekki til sigurs. Þeir gera sér engar grillur um mátt andstæðingsins (hvað þá um „öðlingsskap“ hans), eða stöðugleika fjöldahreyfingarinnar. Helstu „freistingu“ ökónómismans má einmitt rekja til þessa atriðis.

Við getum dregið þetta saman á eftirfarandi hátt: Uppbygging byltingarflokks felst í samruna vitundar byltingarkjarnans og vitundar hins meðvitaða verkalýðs. Forbyltingarástand (þegar samfélagið rambar á barmi byltingarsprenginga) birtist í sameiginlegri baráttu fjöldans og hins meðvitaða verkalýðs. Byltingarástand, þ.e. möguleikar á valdatöku með byltingu, skapast þegar starfsemi framvarðarins og fjöldans sameinast að fullu meðvitund framvarðarins og byltingarkjarnans.[22] Sú stéttabarátta sem sprettur af innri andstæðum framleiðsluhátta auðvaldsins snýst í augum fjöldans alltaf um nærtækustu hagsmunamál hans eingöngu. Það sama á við um allar fjöldaaðgerðir, einnig þær pólitísku. Vandkvæðin við að breyta baráttu fjöldans í byltingarsinnaða stéttarbaráttu snúast því ekki aðeins um stigsmun, heldur eðlismun. Lausn vandans krefst nægilega meðvitaðra verkamanna meðal fjöldans eða í fjöldahreyfingunni, sem út frá eigin vitundarstigi geta virkjað fjöldann til baráttu fyrir markmiðum sem ógna áframhaldandi tilveru borgaralegs samfélags og framleiðsluháttar auðvaldsins.

Þetta undirstrikar meginþýðingu umskiptakrafna,[23] svo og stjórnlistarlega stöðu hins meðvitaða verkalýðs sem þegar er þjálfaður í að reka áróður fyrir þessum kröfum og sögulega þýðingu byltingarsamtakanna; en þau ein eru fær um að setja fram víðtæka umskiptastefnuskrá sem binst í senn hlutlægum, sögulegum aðstæðum og huglægum þörfum fjöldans. Sigursæl öreigabylting er því aðeins möguleg að allir þessir þættir séu samtengdir á árangursríkan hátt.

5. Stjórnlistaráætlun Leníns

Við höfum þegar slegið því föstu að skipulagskenning Leníns er fyrst og fremst kenning um byltinguna. Þetta skildi Rósa Lúxembúrg ekki og það er helsti veikleikinn í ritdeilum hennar við Lenín á árunum 1903 og 1904. Það er einkennandi að það miðstjórnarhugtak sem hún ræðst á í greininni Skipulagsmál rússneskra sósíaldemókrata er alfarið af skipulagslegum toga, og það er augljóst ef hún er lesin með athygli. (Um leið og hún ræðst á það staðfestir hún það og ættu „lúxembúrgistar“ nútímans að gefa nánari gaum að þessu). Lenín er sakaður um „ofurmiðstýringu“, að fyrirskipa samsetningu staðbundinna flokksstjórna ofan frá og um að vilja hindra allt frumkvæði frá neðri lögum flokksins.[24]

Ef við snúum okkur aftur að skipulagskenningunni eins og Lenín mótaði hana sjálfur kemur í ljós að áherslan er á engan hátt lögð á formlega, skipulagslega hlið miðstýringar, heldur á pólitískt og félagslegt hlutverk hennar. Kjarninn í Hvað ber að gera? er hugmyndin um þróun öreigavitundar yfir í pólitíska stéttarvitund í gegnum víðtæka pólitíska virkni, sem frá marxísku sjónarmiði séð leysir öll vandamál um ytri og innri stéttaafstæður:

Í rauninni er aðeins unnt að „auka starfsþátttöku hins vinnandi fjölda“ þegar sú starfsemi er ekki einskorðuð við „pólitískan áróður á hagsmunagrundvelli“. Grundvallarskilyrði fyrir nauðsynlegri eflingu pólitísks áróðurs er að skipuleggja víðtækar pólitískar afhjúpanir. Með engu öðru móti en slíkum afhjúpunum er unnt að þjálfa fjöldann til pólitísks skilnings og byltingarstarfs.

Og ennfremur:

Stéttarvitund verkalýðsins getur ekki verið raunveruleg pólitísk vitund nema verkamennirnir hafi skólað sig til að bregðast við öllum tilvikum harðstjórnar, kúgunar, ofbeldis og áþjánar, án tillits til hvaða stétt fyrir þeim verður, – nema þeir hafi skólað sig til að bregðast við frá sósíaldemókratísku en ekki neinu öðru sjónarmiði. Stéttarvitund verkalýðsins getur ekki verið raunveruleg pólitísk vitund nema verkamennirnir hafi lært af ákveðnum og umfram allt tímabærum pólitískum staðreyndum og atvikum að skoða sérhverja aðra samfélagsstétt á sérhvern hátt sem hún tjáir sig í andlegu, siðferðilegu og pólitísku lífi sínu, – nema þeir læri að hagnýta sér í starfi aðferðir efnishyggjunnar við greiningu og mat á öllum hliðum lífs og starfs allra stétta, stéttkvísla og hópa meðal þjóðarinnar. Þeir sem einbeita athygli, grandskoðun og vitund verkalýðsstéttarinnar eingöngu eða aðallega að henni sjálfri eru ekki sósíaldemókratar, því sjálfsþekking verkalýðsstéttarinnar er órjúfanlega bundin ekki einungis glöggum fræðilegum skilningi – réttara mundi jafnvel að segja, ekki svo mjög fræðilegum – heldur hagnýtum skilmningi á innbyrðis afstæðum allra stétta nútímasamfélags, skilningi sem áunninn er með reynslu í pólitísku lífi.[25]

Af sömu ástæðu leggur Lenín áherslu á nauðsyn þess að byltingarflokkurinn geri allar kröfur og hræringar sem til framfara horfa, meðal allra undirokaðra samfélagshópa og stétta, að sínum – einnig þær sem eru „einungis lýðræðislegar“. Kjarni þeirrar stjórnlistaráætlunar sem Lenín setur fram í Hvað ber að gera?[26] felst í því að reka flokksáróður sem er þess megnugur að sameina frumstæðar, sjálfsprottnar, sundraðar og jafnvel staðbundnar eða einangraðar mótmælaaðgerðir, uppreisnir og andófshreyfingar. Áherslan er greinilega lögð á pólitíska hlið miðstýringar en ekki skipulagslega. Hin formlega skipulagslega miðstýring er til þess eins að gera framkvæmd þessarar áætlunar mögulega.

Þótt Rósa Lúxembúrg viðurkenni ekki kjarnann í „miðstýringarstefnu“ Leníns, neyðist hún í ritdeilu þeirra til að setja fram óbeint aðra hugmynd um þróun pólitískrar stéttarvitundar og um það hvernig hvernig byltingarsinnar eigi að búa sig undir byltingarástand. Þar kemur enn berlegar í ljós hve rangt hún hafði fyrir sér í deilunni. Sagan hefur algjörlega dæmt úr leik þá hugmynd að Lúxembúrg að „öreigaherinn verði til og öðlist vitund um hlutverk sitt í baráttunni sjálfri“.[27] Jafnvel ekki í lengstu og hörðustu stéttaátökum hefur verkalýðurinn gert sér skýra grein fyrir þeim verkefnum sem baráttan setur á dagskrá (það nægir að minna á frönsku allsherjarverkföllin 1936 og 1968, baráttu þýsks verkalýðs frá 1918 til 1923, baráttu ítalskra verkamanna 1920, 1948 og 1969 og hina heiftarlegu stéttabaráttu á Spáni 1931-1937).

Baráttureynsla er alls ekki nægileg til að gera sér grein fyrir verkefnum víðtækrar stéttabaráttu , hvorki í forbyltingarástandi né á tímum byltingarsinnaðrar fjöldabaráttu. Þessi verkefni eru auðvitað ekki einungis tengd atvikum sem beinlínis urðu til að hrinda baráttunni af stað. Skilningur á þeim krefst víðtækrar greiningar á heildarþróun samfélagsins, hins sögulega þróunarstigs framleiðsluháttar auðvaldsins á hverjum tíma og innri andstæðum þeirra, og út frá þjóðlegum og alþjóðlegum styrkleikahlutföllum stéttanna. Það eru einskærir draumórar að halda að vitund sem samsvarar kröfum hinna sögulegu aðstæðna sé hægt að öðlast með fjöldaaðgerðum einum saman, án lagvarandi og stöðugs undirbúnings, án menntunar hundruða og þúsunda meðvitaðra verkamanna í anda byltingarsinnaðrar stefnuskrár, og án reynslunnar sem hinir meðvituðu verkamenn hafa öðlast í þeirri viðleitni sinni að miðla þessari stefnuskrá til fjöldans.

Í rauninni er hægt að snúa fullyrðingu Lúxembúrg við og segja að öreigarnir muni aldrei ná takmarki sínu ef nauðsynleg menntun og þjálfun framvarðar öreiganna í framþróun byltingarsinnaðrar stefnuskrár og áróðri fyrir henni hefur ekki átt sér stað áður en fjöldabaráttan nær hámarki. Fjöldabaráttan ein og sér skapar aðeins möguleika á byltingarsinnaðri vitund meðal fjöldans. Þetta er sá bitri lærdómur sem draga má af þýsku byltingunni eftir fyrri heimsstyrjöldina, en hún var einmitt brotin á bak aftur vegna skorts á þjálfaðri framvarðarsveit.

Takmark stjórnlistaráætlunar Leníns er að mynda slíka framvarðarsveit með sameiningu hins byltingarsinnaða kjarna og meðvitaðs verkalýðs. Þetta er ekki unnt án víðtækra pólitískra aðgerða sem leiða meðvitaða verkamenn út fyrir ramma faglegrar baráttu. Við höfum í dag upplýsingar sem staðfesta að flokkur Leníns var raunverulega slíkur flokkur fyrir og í byltingunni 1905 og eftir að fjöldabaráttan tók að magnast á ný 1912.[28]

Til að geta skilið til fulls byltingarsinnað eðli stjórnlistaráætlunar Leníns verður að skoða hana af enn öðrum sjónarhóli. Hver sú skoðun sem byggir á möguleikum eða vissu um byltingu í náinni framtíð hlýtur óhjákvæmilega að fjalla um beina árekstra við ríkisvaldið, þ.e. vandamál valdatökunnar. Um leið og gert er ráð fyrir þessu vandamáli í skipulagskenningunni skapast ný röksemd fyrir miðstjórnarvaldi. Lenín og Rósa Lúxembúrg voru sammála um að auðvaldsskipulagið og hið borgaralega ríki sköpuðu sterka miðstýringu í samfélagi nútímans[29] og að það væru draumórar að vænta þess að hægt væri að breyta þessu miðstýrða ríkisvaldi smátt og smátt á sama hátt og hægt er að taka niður múrvegg stein fyrir stein.

Á þessum draumórum byggist hugmyndafræðilegt eðli umbóta- og endurskoðunarstefnunnar sem þau Rósa Lúxembúrg og Lenín bæði fordæmdu jafn ákaft.[30] Nú þegar valdataka öreiganna er ekki lengur fjarlægt markmið heldur verkefni í náinni framtíð vaknar spurning um hvaða aðferðum beita skuli við valdatökuna. Hér hefur Rósa Lúxembúrg aftur misskilið inntak þess sem Lenín er að segja er hann beitir í ritdeilum orðalaginu „jakobínar sem eru órjúfanlega tengdir skipulagningu stéttvísra öreiga“. Með þessu átti Lenín alls ekki við einhvers konar blanquíska samsærisklíku, heldur meðvitaðan hóp sem eins og jakobínarnir miðar látlaust að því að framkvæma hina byltingarsinnuðu stefnu og freistast ekki til að láta óhjákvæmilegar sveiflur fjöldabaráttunnar leiða sig frá þessu verkefni.

Til þess að sýna Rósu Lúxembúrg sanngirni verður þó að bæta því við að í fyrsta lagi fjallaði hún um þetta vandamál út frá öðru sögulegu sjónarhorni, eins og við var að búast þar sem hún var 1904 undir meiri áhrifum frá þýskum veruleika en rússneskum eða pólskum. Í öðru lagi dró hún (í lenínískri merkingu) nauðsynlegar ályktanir er ljóst varð að bylting var einnig komin á dagskrá í Þýskalandi.[31]

Í fyrstu gerði Trotskí sig einnig sekan um alvarleg mistök þegar hann í deilum sínum við Lenín sakaði hann um að vilja láta frumkvæði flokksins koma algjörlega í stað frumkvæðis verkalýðsstéttarinnar.[32] Ef horft er fram hjá því hvernig Trotskí útfærir þetta í deilunum en litið á kjarna málsins, kemur í ljós að skilningur hans á þróun stéttarvitundar meðal öreiganna hefur verið brotakenndur og haft á sér hughyggjublæ: „Samkvæmt marxismanum ákvarðast hagsmunir öreiganna af hlutlægum lífsskilyrðum þeirra. Þessir hagsmunir eru svo miklir og óumflýjanlegir eð þeir neyða öreigana að lokum (!) til að færa þá inn á svið vitundar sinnar, þ.e. að gera hlutlæga hagsmuni sína að huglægum“.[33] Nú á dögum má glöggt sjá hversu barnaleg og hættuleg bjartsýni liggur til grundvallar þessari brotakenndu skilgreiningu. Stundarhagsmunir eru lagðir að jöfnu við sögulega hagsmuni, þ.e. við flóknustu vandamál pólitískrar baráttutækni og stjórnlistar. Sú óskhyggja að öreigarnir muni „að lokum“ koma auga á sögulega hagsmuni sína virðist harla léttvæg í ljósi þeirra hörmunga sem sagan kann frá að greina er öreigarnir, vegna skorts á hæfri byltingarforystu, voru jafnvel ekki færir um að leysa þau verkefni sem beinast lágu við.

Sama barnalega bjartsýni er enn augljósari annars staðar í sömu ritdeilu:

Hinn byltingarsinnaði sósíaldemókrati er ekki aðeins sannfærður um óhjákvæmilegan (!) vöxt flokksins, heldur einnig um að hugmyndir byltingarsinnaðs sósíalisma muni óhjákvæmilega (!) sigra innan flokksins. Fyrsta sönnunin fyrir því felst í þeirri staðreynd að þróun borgaralegs samfélags leiðir sjálfkrafa til þess að öreigarnir afmarka sig pólitískt; önnur sönnun felst í því að hlutlægar tilhneigingar og baráttutæknileg vandamál sem tengjast þessari afmörkun koma best og fullkomnast fram í byltingarsinnuðum sósíalisma, þ.e. í marxismanum.[34]

Þessi tilvitnun sýnir berlega að það sem Trotskí varði um þessar mundir í deilum sínum við Lenín var „hin þrautreynda gamla baráttutækni“ og hin barnalega „trú á óhjákvæmilegar framfarir“ samkvæmt Bebel og Kautsky, en sú trú var ríkjandi í Öðru alþjóðasambandinu frá dauða Marx allt til fyrri heimsstyrjaldar. Stéttarvitundarhugtak Leníns var mun auðugra, mótsagnakenndara og díalektískara einmitt vegna þess að hann byggði á glöggum skilningi á nálægð byltingarinnar (ekki „einhvern tímann í framtíðinni“ heldur á næstu árum).

Til að fá heildarsýn yfir söguþróunina verður að bæta því við að eftir að rússneska byltingin 1917 braust út tók Trotskí algjörlega upp skilgreiningu Leníns á þróun stéttarvitundar öreiganna og þar með einnig skipulagskenningu Leníns. Allt til dauðadags varði Trotskí þessar kenningar gegn öllum svartsýnis- og efasemdamönnum sem töldu sig hafa fundið í þeim undirrót stalínismans. Þannig ritaði hann í síðasta handriti sínu sem hann aldrei lauk:

Lenín átti geysilegan þátt í að skapa þann þroska sem rússneska öreigastéttin sýndi í febrúar eða mars 1917. Hann féll ekki af himnum ofan. Hann persónugerði byltingarhefðir verkalýðsstéttarinnar. Til þess að vígorð Leníns gætu náð til fjöldans urðu að vera til framvarðarsveitir, jafnvel þótt þær væru fáliðaðar í upphafi. Þessar framvarðarsveitir urðu að njóta trausts forystunnar er byggði á fenginni reynslu. Að horfa fram hjá þessum þáttum þýðir einfaldlega að hinni lifandi byltingu er hafnað, en í staðinn kemur hið sértæka hugtak „styrkleikahlutföll“. Í þróun byltingarinnar felst einmitt að styrkleikahlutföllin breytast hratt og án afláts vegna breytinga á vitund öreiganna; meðvitaðir hópar draga til sína hina hægfara og lítt meðvituðu og trú stéttarinnar á eigin styrkleika vex. Helsta driffjöðurin í þessu ferli er flokkurinn, líkt og helsta driffjöður flokksins er forystan.[35]

6. Hinn byltingarsinnaði framvörður og sjálfsprottnar fjöldaaðgerðir

Það væri mikil ósanngirni gagnvart Lenín að segja lífsverk hans einkennast af kerfisbundnu „vanmati“ á sjálfsprottinna fjöldaaðgerða (gagnstætt „virðingu“ Rósu Lúxembúrg og Trotskís fyrir þeim). Að frátöldum nokkrum atriðum í ritdeilum, sem ekki er hægt að skilja nema út frá samhengi, fagnaði Lenín sjálfsprottnum verkföllum og mótmælum fjöldans af sömu hrifningu og Trotskí og Rósa Lúxembúrg.[36] Hins vegar falsaði stalíníska skrifræðið lenínismann samfar aukinni tortryggni sinni gagnvart sjálfsprottnum fjöldahreyfingum, en það er einmitt einkennandi fyrir hvaða skrifræði sem er.

Rósa Lúxembúrg hefur á réttu að standa þegar hún segir að upphaf öreigabyltingar verði ekki „ákveðið fyrir fram“ með hliðsjón af dagatali, og hjá Lenín er ekkert að finna sem andmælir þessu. Eins og Lúxembúrg var Lenín sannfærður um að hópur agaðra og þjálfaðra foringja gæti hvorki „skipulagt“ né „fyrirskipað“ byltingarsinnaðar fjöldaaðgerðir, en án slíkra aðgerða er bylting óhugsandi. Lenín var jafn sannfærður og Lúxembúrg um þann sköpunarkraft og frumkvæði sem ævinlega sprettur af verulega víðtækum fjöldaaðgerðum.

Munurinn á skipulagskenningu Leníns og svokallaðri kenningu um sjálfsprottna virkni sem aðeins með verulegum fyrirvara verður eignuð Rósu Lúxembúrg felst þannig ekki í vanmati á frumkvæði fjöldans, heldur í skilningi á takmörkum þess. Frumkvæði fjöldans getur áorkað miklu. En það getur ekki eitt sér og í sjálfri baráttunni lagt grunn að víðtækri stefnuskrá fyrir sósíalíska byltingu og enn síður fyrir uppbyggingu sósíalismans. Það er heldur ekki fært um að þjappa saman þeim öflum sem nauðsynleg eru til að steypa ríkisvaldinu og kúgunartækjum þess, jafnvel þótt það færi sér í nyt „innra“ samskiptakerfi sitt í ystu æsar. Takmörk sjálfsprottinna fjöldaaðgerða liggja með öðrum orðum í því að sigursæl sósíalísk bylting verður ekki „leikin af fingrum fram“. Og þegar öllu er á botninn hvolft eru „hreinar“ sjálfsprottnar fjöldaaðgerðir alltaf „leiknar af fingrum fram“.

Annars eru „hreinar“ sjálfsprottnar aðgerðir einungis til í ævintýrabókum um verkalýðshreyfinguna, en ekki í raunverulegri sögu hennar. Það sem felst í orðunum „sjálfsprottnar fjöldaaðgerðir“ er hræringar sem eigi sér stað „án utanaðkomandi pólitískra áhrifa“. Sé bláa himnan skafin af að því er virðist „sjálfsprottinni hreyfingu“ mun hinn eldrauði grunnur ekki leyna sér: félagi í einhverjum framvarðarhóp hefur komið af stað „sjálfsprottnu“ verkfalli; fyrrum félagi einhverra „vinstrivillusamtaka“ hefur, þótt hann sé löngu hættur að starfa tileinkað sér nægilega þekkingu til að geta brugðist eldskjótt við í viðkvæmri stöðu, þótt hinn nafnlausi fjöldi sé hikandi.

Í einu tilviki þá í „sjálfsprottnum“ aðgerðum líta árangur áralangs erfiðis stéttarfélagsandstöðu eða annarra hópa. Í öðru tilviki kemur í ljós árangur samskipta sem hafa, án sýnilegs árangurs, þróast um langt skeið við félaga í nágrannabæ eða nálægri verksmiðju, þar sem vinstriöflin eru sterkari. Í stéttabaráttunni vex ekki fremur en annars staðar hveiti úr ósánum akri.

Munurinn á „sjálfsprottnum aðgerðum“ og „afskiptum framvarðarins“ felst sem sagt alls ekki í því að í fyrra tilvikinu hafi allir þáttakendur baráttunnar sama vitundarstig, en í því síðara hefji „framvörðurinn“ sig yfir „fjöldann“. Það sem skilur á milli þessara tvenns konar aðgerða er heldur ekki það að í „sjálfsprottnum“ aðgerðum sé verkalýðsstéttinni ekki leiðbeint „utan frá“, á meðan hinn skipulagði framvörður hefji sig hins vegar upp yfir grundvallarkröfur fjöldans og „neyði upp á hann“ stefnuskrá. Það hafa aldrei átt sér stað „sjálfsprottnar aðgerðir“ án áhrifa einhvers hluta framvarðarins. Munurinn á „sjálfsprottnum aðgerðum“ og þeim sem „byltingarsinnaður framvörður á hlut að“ er aðallega sá að í „sjálfsprottnum aðgerðum“ er þátttaka framvarðarins óskipulögð, slitrótt og „af fingrum fram“ (kemur upp eins og fyrir tilviljun í einhverri verksmiðju, svæði eða borg), en hins vegar gerir tilvera byltingarsamtaka það kleift að samhæfa og skipuleggja á samfelldan hátt inngrip framvarðarins í „sjálfsprottna“ fjöldabaráttu. Hér um bil allar þarfir lenínískrar „ofurmiðstýringar“ spretta af nauðsyn þess síðarnefnda.

Einungis óforbetranlegri örlagatrúarmenn (þ.e. vélrænir nauðhyggjumenn) geta sannfærst um að allar stórfelldar fjöldaaðgerðir hljóti að eiga sér stað einhvern tiltekinn dag, aðeins vegna þess að þær brutust út einhvern slíkan dag, og öfugt: alls staðar þar sem þær brutust ekki út voru ekki forsendur fyrir þeim. Slík örlagatrú (en málsvarar hennar eru af Kautsky-Bauer skólanum) er í rauninni skrípamynd af skipulagskenningu lenínismans. Það einkennir alltént marga andstæðinga lenínismans sem fjölyrða um „sjálfsprottnar aðgerðir fjöldans“ í andmælum sínu við kenningu Leníns, að þeir falla einmitt í dólgagryfju þessarar vélrænu nauðhyggju og taka ekki eftir því hún gengur í berhögg við „háleitar hugmyndir þeirra“ um „sjálfsprottnar aðgerðir fjöldans“.

Sé því á hinn bóginn slegið föstu að stórfelldar sjálfsprottnar fjöldaaðgerðir eigi sér óhjáhvæmilega stað með vissu millibili (en þær eiga sér stað er efnahagslegar og félagslegar andstæður hafa þróast svo mjög að framleiðsluháttur auðvaldssamfélagsins kemst ekki lengur hjá slíkum tímabundnum forbyltingarkreppum), þá verður einnig að vera ljóst að ókleift er að fastákveða fyrir fram það andartak þegar slíkt muni gerast, því þúsundir smærri atburða, minni háttar átaka og hendinga geta skipt þar verulegu máli. Af þessum ástæðum er byltingarsinnaður framvörður sem á úrslitastundu getur einbeitt kröftum sínum að „veikasta hlekknum“ miklum mun líklegri til árangurs en ómarkviss framganga mikils fjölda meðvitaðra verkamanna sem skortir getu til að samhæfa styrk sinn.[37]

Tvö dæmi um öflugustu verkalýðsbaráttu sem átt hefur sér stað á Vesturlöndum – í maí 1968 í Frakklandi og haustið 1969 á Ítalíu – staðfesta þessa skoðun fullkomlega. Í báðum tilvikum hófst baráttan með „sjálfsprottnum“ aðgerðum sem hvorki voru undirbúnar af verkalýðsfélögunum né stóru sósíaldemókratísku eða „kommúnísku“ flokkunum. Í báðum tilvikum gegndu einstakir róttækir verkamenn og námsmenn eða byltingarsinnaðir smáhópar afgerandi hlutverki með því að koma átökum víða af stað og gáfu verkalýðsfjöldanum fordæmi sem læra mátti af. Í bæði skiptin drógust milljónir manna inn í baráttuna, í Frakklandi allt að tíu milljónir launþega, á Ítalíu nálægt fimmtán milljónum. Þetta var meiri fjöldi en nokkru sinni fyrr, að meðtöldum stéttastríðunum eftir fyrri heimsstyrjöldina.

Í báðum tilvikum náði hin sjálfsprottna barátta verkalýðsins út fyrir „ökónómisma“ kjarabaráttu og faglegra verkfalla. Í Frakklandi kom þetta í ljós í verksmiðjutökum og ótal dæmum um einstakt frumkvæði. Á Ítalíu voru ekki aðeins gífurlegar mótmælaaðgerðir og pólitískar kröfugerðit til vitnis um þetta, heldur einnig ótvíræð tilhneiging til sjálfsskipulagningar á vinnustöðum, þ.e. fyrstu skrefin til að koma á tvíveldi: kosning delegati di reparto. (Framvörður ítölsku verkalýðsstéttarinnar var að þessu leyti þroskaðri en sá franski og hann dró fyrstu mikilvægu ályktanirnar af maí-atburðunum í Frakklandi[38]). En í hvorugu tilvikinu tókst með þessum öflugu, sjálfsprottnu aðgerðum að steypa hinu borgaralega ríkisvaldi og framleiðlsuhætti auðvaldsins. Það tókst ekki einu sinni að skapa skilning meðal fjöldans á þeim forsendum sem nauðsynlegar hefðu verið til að gera slíkt mögulegt í náinni framtíð.

Við minnumst samlíkingar Trotskís úr Sögu rússnesku byltingarinnar: gufuþrýstingurinn fór til spillis vegna þess að það vantaði bulluna til að þjappa gufunni saman á réttu augnabliki.[39] Þegar öllu er á botninn hvolft er það þó ekki bullan heldur gufan sem er drifkrafturinn, þ.e. afl fjöldakvaðningar og fjöldabaráttu. Án gufu er bullan aðeins hlutur úr málmi. En án bullunnar sóast jafnvel öflugasti gufuþrýstingur og hann leiðir ekki til neins. Þetta er kjarninn í skipulagskenningu lenínismans.

7. Skipulag, skrifræði og byltingaraðgerðir

Í þessu sambandi er þó við vandamál að glíma sem Lenín í hatrömmum deilum við Mensévíka annað hvort skildi ekki (1903-1905) eða ekki nægjanlega vel (1908-1914). Og hér kemur skýrt í ljós gildi hinna sögulegu greininga Trotskís og Rósu Lúxembúrg við að auðvelda skilning á hinu díalektíska sambandi: „verkalýðsstétt – meðvitaðir verkamenn – verkalýðsflokkur“.

Hin óhjákvæmilega en ónóga stéttarvitund fjöldans staðfestir nauðsyn framvarðarflokksins og ákveðins skilsmunar flokks og fjölda. Eins og Lenín benti margsinnis á er hér um flókið díalektískt samband að ræða – þar sem saman fer aðgreining og samþætting – er svarar algjörlega til sögulegra sérkenna baráttunnar fyrir sósíalískri byltingu. Þessi flokkur verður hins vegar til innan borgaralegs samfélags sem lútir lögmálum almennrar verkaskiptingar og vöruframleiðslu og hefur því tilhneigingu til hlutgervingar á öllum mannlegum samskiptum.[40] Þetta þýðir að uppbygging flokks sem er úr tengslum við hinn vinnandi fjölda ber í sér hættuna á að flokksbáknið verði sjálfstætt.

Ef þessi tilhneiging þróast umfram visst frumstig er hætt við að flokkurinn fari að verða markmið í sjálfum sér, í stað þess að vera tæki til að ná markmiðinu (sigursæl öreigabarátta).

Hér liggja orsakirnar til úrkynjunar Annars og Þriðja alþjóðasambandsins: drottnun íhaldssamra og umbótasinnaðra skrifræðisbákna yfir sósíaldemókratískum og kommúnískum fjöldaflokkum, skrifræðis sem í daglegu starfi hefur orðið hluti af status quo (óbreyttu ástandi).[41]

Skrifræði í verkalýðshreyfingunni sprettur af félagslegri verkaskiptingu. Verkalýðurinn er að mestu útilokaður frá framleiðslu menningarlegra og fræðilegra afurða í auðvaldssamfélaginu og getur ekki sjálfur ráðið fram úr öllum þeim verkefnum sem leysa þarf innan þess ramma sem hreyfingunni er settur. Tilraunir í slíka veru áttu sér stað, sérstaklega á bernskuskeiði verkalýðshreyfingarinnar, en þær bjóða enga lausn því verkaskiptingin er í samræmi við efnislegar aðstæður, ekki sprottin af illviljuðum framagosum. Ef horft væri fram hjá þessum aðstæðum leiddi það til frumstæðra vinnubragða, vanrækslu og illdeilna, og reisti viðgangi hreyfingarinnar skorður á sama hátt og skrifræðið hefði gert. Ef litið er á þessa hluti undir öðru sjónarhorni – m.t.t. skipulagstækni í stað vitundarstigs – kemur fram sami vandi og við ræddum áður, þ.e. að kapítalismanum væri gert allt of hátt undir höfði ef litið væri á hann sem fullkomna uppeldisstöð fyrir sjálfstæða virkni öreiganna eða að hann kenndi fjöldanum sjálfkrafa að skilja og tileinka sér nauðsynleg skilyrði og skipulagsform eigin frelsunar.

Í fyrstu deilum sínum við Mensévíkana vanmat Lenín mjög hættuna á sjálfræði flokksstofnana og skrifræðisþróun verkalýðsflokkanna. Honum virtist sem hættunnar á hentistefnu í verkalýðshreyfingu nútímans væri helst að vænta frá smáborgaralegum menntamönnum og „hreinum fagfélagshyggjumönnum“. Hann gerði gys að baráttu margra félaga sinna gegn skrifræðishættunni. Sagan hefur raunar sýnt að helsta uppspretta hentistefnu innan sósíaldemókrataflokkanna fyrir fyrri heimsstyrjöldina voru hvorki menntamenn né fagfélagshyggjumenn, heldur sjálft sósíaldemókratíska flokksskrifræðið. Með „löghlýðinni“ starfsemi sinni takmarkaði það sig við kosningar og þingræðisbaráttu annars vegar, en hins vegar við baráttuna fyrir brýnum efnahagslegum og faglegum umbótum. (Það nægir að lýsa þessu starfi til að sjá hve mjög það líkist starfi vestur-evrópskra kommúnistaflokka nú á dögum).

Trotskí og Rósa Lúxembúrg gerðu sér betur og fyrr grein fyrir þessari hættu en Lenín. Strax 1904 ræðir Lúxembúrg möguleikann á „að hikandi sósíaldemókrataflokkurinn slitni úr tengslum við framrás fjöldans“.[42] En hún hefur vart sleppt orðinu þegar hún dregur í land og segir að þetta eigi aðeins við ef um „ofurmiðstýringu“ flokksins eftir lenínísku mynstri sé að ræða. Tveimur árum síðar setti einnig Trotskí vandamálið fram, en á nákvæmari hátt:

Sósíalistaflokkar Evrópu, einkum sá stærsti, þ.e. þýski sósíaldemókrataflokkurinn, hafa að sama skapi og fjöldinn hefur tileinkað sér sósíalismann, orðið æ íhaldssamari, og það því meir sem skipulagning og sjálfsstjórn fjöldans hefur aukist. Af þessu leiðir að sósíaldemókrataflokkarnir, sem eru samtök sem raungera pólitíska reynslu öreigastéttarinnar, geta við ákveðnar aðstæður beinlínis hindað bein átök verkamanna og borgaralegs afturhalds. Með öðrum orðum getur íhaldssemin í hinum áróðurskennda sósíalisma öreigaflokkanna við ákveðnar aðstæður hindrað baráttu öreiganna um völdin.[43]

Sagan hefur með sorglegum hætti staðfest þennan spádóm. Lenín gerði sér ekki grein fyrir þessu fyrr en við upphaf fyrri heimsstyrjaldarinnar, en þýskir vinstrimenn höfðu þá fyrir löngu losnað við fyrri tálsýnir sínar um stjórn þýska sósíaldemókrataflokksins.[44]

8. Skipulagskenning, byltingarstefnuskrá og byltingarstarf

Eftir áfallið 4. ágúst 1914 tók Lenín hins vegar stórt skref fram á við hvað varðar ofangreint vandamál. Þaðan í frá lítur hann ekki bara á hvernig skipulagið verkar, heldur einnig á innihald þess. Nú er „skipulagi“ og „sjálfsprottnum aðgerðum“ ekki lengur stillt upp sem andstæðum almennum hugtökum, eins og Lenín gerir oft í Hvað ber að gera? og Eitt skref áfram, tvö skref aftur á bak. Nú er um það að ræða að greina nákvæmlega á milli samtaka sem hlutlægt eru íhaldssöm og samtaka sem hlutlægt eru byltingarsinnuð. Slíkur greinarmunur byggir á hlutlægum mælikvörðum (byltingarstefnuskrá, hvernig henni er miðlað til fjöldans, byltingarstarfi, o.s.frv.) og sjálfsprottinn baráttuvilji fjöldans er tekinn fram yfir íhaldssamar og umbótasinnaðar fjöldaaðgerðir flokkanna. Einfeldningar sem haldnir eru skipulagsblæti kynnu að halda því fram að Lenín hafi eftir 1914 ánetjast viðhorfum Rósu Lúxembúrg til „sjálfsprottinna aðgerða“, því meðan á átökum „hins óskipulagða fjölda“ og samtaka sósíaldemókrata stóð, tók hann heils hugar afstöðu með hinum fyrrnefndu.[45] Nú leit Lenín jafnvel svo á að eyðilegging íhaldssamra samtaka væri óhjákvæmilegt skilyrði fyrir frelsun öreiganna.[46]

En þessi leiðrétting, eða öllu heldur fullkomnun, á skipulagskenningunni sem Lenín gerði eftir 1914, var þó ekki skref aftur á bak til aðdáunar á „hreinum“ sjálfsprottnum aðgerðum, heldur skref fram á við í þá átt að marka sérstöðu byltingarflokks gagnvart samtökum yfirleitt. Í stað þess að segja aðeins að markmið flokksins væri að útfæra pólitíska stéttarvitund verkalýðsins var nú kveðið mun skýrar að orði: Verkefni byltingarframvarðarins er að stuðla að byltingarsinnaðri vitund meðal framsæknustu verkamannanna. Uppbygging byltingarflokks felst í samruna stefnuskrár sósíalísku byltingarinnar og þeirrar reynslu sem meiripartur meðvitaðs verkafólks hefur öðlast í baráttu.[47]

Þessi fullvinnsla á skipulagskenningu Leníns við upphaf fyrri heimsstyrjaldar var samfara útvíkkun á hugmynd hans um það hvar byltingin væri komin á dagskrá. Hugmyndir Leníns í þeim efnum voru fyrir 1914 að mestu bundnar við Rússland, en tóku nú til allrar Evrópu. (Lenín hafði starx eftir rússnesku byltinguna 1905 gert sér grein fyrir byltingarmöguleikunum í nýlendum og hálfnýlendum).

Gildi stjórnlistaráætlunar Leníns fyrir heimsvaldaríki Vestur-Evrópu nútímans er þannig nátengt eðli þess söguskeiðs sem við lifum. Frá sjónarmiði sögulegrar efnishyggju getur aðeins staðist að leiða flokkshugmynd af „fyrirliggjandi byltingarmöguleikum“ ef gengið er út frá þeirri forsendu – sem okkur virðist rétt og teljum unnt að færa sönnur á – að heimskerfi auðvaldsins hafi allt frá fyrri heimsstyrjöld, eða alltént frá októberbyltingunni, átt við sögulega formgerðarkreppu[48] að etja sem hlýtur að leiða til byltingarástands á einhverju skeiði. Ef við gerum hins vegar ráð fyrir því að heimsauðvaldskerfið sé enn í uppgangi, verður að hafna þessum flokkshugmyndum sem algjörri „vildarhyggju“. Úrslitaatriðið í stjórnlistaráætlun Leníns er vissulega ekki byltingaráróður – sem byltingarmenn verða þó vitaskuld að reka, einnig á tímum þegar ekki ríkir byltingarástand – heldur áhersla hennar á byltingaraðgerðir sem upp munu koma í náinni framtíð eða alltént áður en langt um líður. Slíkar aðgerðir voru jafnvel mögulegar á uppgangsskeiði auðvaldsins (sbr. Parísarkommúnuna), en voru þá einber undantekning og gátu ekki náð árangri. Þegar aðstæðum er þannig háttað væri naumast skynsamlegt að byggja upp flokk sem einbeitir sér að undirbúningi virkrar þátttöku í slíkum aðgerðum.

Munurinn á „verkalýðsflokki“ almennt (með tilvísun til félagslegrar samsetningar eða jafnvel kjósenda) og byltingarsinnuðum verkalýðsflokki (eða vísi slíks flokks) birtist ekki aðeins í stefnuskrá eða hlutlægu hlutverki í samfélaginu (stuðningur en ekki andstaða við allar byltingarsinnaðar fjöldaaðgerðir, eða allar ögranir og öll baráttuform sem vega að grundvelli framleiðsluháttar auðvaldsins og borgaralegs ríkisvalds). Þessi munur kemur einnig fram í hæfni hans til að finna rétta aðferð sem gerir kleift að miðla stefnunni til sífellt vaxandi fjölda verkamanna.

En vandann má setja enn skýrar fram: Er sú hætta að flokksbáknið verði sjálfstætt einvörðungu bundin við tækifæris- og umbótasinnuð „verkalýðssamtök“ eða ógnar hún öllum samtökum, einnig þeim sem starfa á byltingarsinnaðan hátt á grundvelli byltingarstefnu? Er þróun skrifræðisins ekki óhjákvæmileg afleiðing hvers konar verkaskiptingar, einnig þeirrar sem skapast milli „forystu“ og „almennra félagsmanna“ í byltingarsamtökum? Og eru því ekki öll byltingarsamtök, jafnskjótt og þau hafa komist til nokkurs þroska og í þróun fjöldabaráttunnar, dæmd til að verða hemill á baráttu öreiganna fyrir frelsi sínu?

Ef fallist væri á þessa röksemd gæti það einungis leitt til einnar niðurstöðu: að sósíalísk frelsun verkalýðsstéttarinnar og alls mannkyns sé ekki möguleg – því hina meintu óhjákvæmilegu þróun hvers konar samtaka til sjálfstæðis og úrkynjunar verður að skoða sem annan hluta tvíþættrar klemmu. Hinn hluti hennar birtist í tilhneigingu allra óskipulagðra verkamanna, allra menntamanna sem lítinn þátt taka í aðgerðum og allra þeirra sem bundnir eru á klafa almennrar vöruframleiðslu að falla í fen „falskrar vitundar“ smáborgaranna. Aðeins víðtækt byltingarstarf sem miðar að heildarvitund og auðgar kenninguna getur hindrað að „hugmyndafræði ríkjandi stéttar“ þröngvi sér einnig inn í raðir byltingarmanna. Slíkt starf hlýtur að byggjast á samvinnu og skipulagi. Ef framangreind röksemd væri rétt yrði að draga þá ályktun að meðvitaðir verkamenn, hvort sem þeir eru skipulagðir eða óskipulagðir, geti ekki öðlast pólitíska stéttarvitund eða hljóti fljótlega að glata þeirri vitund sem þeir hafa öðlast.

Þessi rökfærsluleið fær raunar ekki staðist, því hún slær saman upphafi ferlisins og niðurstöðu þess. Með öðrum orðum, vegna hættunnar á að byltingarsamtök geti einnig orðið sjálfstæð dregur hún þá fáránlegu ályktun að þetta sjálfstæði sé óhjákvæmilegt. Á það hafa engar sönnur verið færðar, hvorki fræðilega né út frá reynslu. Hættan á skrifræðislegri úrkynjun byltingarsamtaka framvarðarins, og þá enn frekar byltingarflokks, er ekki komin undir sjálfstæðistilhneigingunum einum – þær loða raunar við allar stofnanir í borgaralegu samfélagi – heldur einnig þeim gagntilhneigingum sem fyrir hendi eru. Meðal þeirra er þátttaka byltingarsamtakanna í alþjóðlegri hreyfingu, sem er óháð „þjóðlegum“ samtökum og hefur stöðugar gætur á fræðilegri þróun þeirra (ekki fyrir tilverknað skrifræðisbákns, heldur með pólitískri gagnrýni); þátttakan í stéttabaráttunni og í byltingarátökum sem sífellt eykur við framvarðarsveitirnar; kerfisbundnar tilraunir til að draga úr verkaskiptingu með því að tryggja að stöðugt streymi fólks sé á milli háskóla, verksmiðju og flokksstarfs; setning ákvæða er varða flokkinn sem stofnun (tekjumörk fyrir þá sem eru í fullu starfi, að staðinn sé vörður um innra lýðræði samtakanna og frelsi til að mynda skoðanahópa og flokksbrot, o.s.frv.).

Tveir félagslegir þættir ráða þegar öllu er á botninn hvolft úrslitum í togstreitu þessara gagnstæðu tilhneiginga:[49] Annars vegar umfang þeirra félagslegu sérhagsmuna sem „sjálfstæði samtakanna“ getur af sér, og hins vegar afl pólitískrar starfsemi framvarðar verkalýðsstéttarinnar. Aðeins þegar verulega dregur úr síðari þættinum getur hinn fyrri orðið áhrifamikill. Úr allri rökfærslunni verður þannig ekki annað en leiðinleg tugga: Á tímum aukinnar deyfðar getur verkalýðsstéttin ekki háð virka baráttu fyrir frelsun sinni. Það sannar alls ekki að byltingarsamtök séu ekki öflugt tæki til að framkvæma frelsunina á tímum aukinnar virkni meðvitaðs verkafólks, þótt sjálfstæð virkni stéttarinnar (eða hins meðvitaða hluta hennar) verði að reisa skorður við „geðþótta“ samtakanna. Byltingarsamtök eru tæki til að framkvæma byltingar. Og án vaxandi pólitískrar starfsemi verkalýðsfjöldans eru öreigabyltingar einfaldlega ekki mögulegar.

9. Skipulagskenning, lýðræðislegt miðstjórnarvald og ráðalýðræði

Þeirri mótbáru var hreyft við skipulagskenningu Leníns að miðstýringaröfgar hennar hlytu að hamla lýðræði innan flokksins. Þessi mótbára er ruglingur. Fyrir tilstuðlan lenínískra skipulagsreglna er aðild að samtökunum bundin við virka félaga sem starfa undir sameiginlegu eftirliti hvers annars, og að sama skapi og tekst að koma því á hlýtur umfang lýðræðis innan þeirra að vaxa, ekki minnka.

Þegar verkalýðssamtök hafa náð ákveðinni stærð eru í raun aðeins tvær skipulagsleiðir færar: Annars vegar kosningaklúbbur (eða landshlutasamtök) sem grundvallar þátttöku á félagsgjöldum, en þetta er í dag skipulag þýska sósíaldemókrataflokksins og franska kommúnistaflokksins. Hins vegar eru baráttusamtökin sem byggja á úrvali virkra og meðvitaðra félaga. Fræðilega séð veitir fyrra fyrirkomulagið andófs- og óánægjuöflum visst svigrúm, en aðeins þegar um er að ræða málefni sem hafa minni háttar þýðingu. Að öðru leyti er hinn mikli fjöldi ópólitískra og óvirkra félaga tryggur kjósendahópur sem flokksvélin getur hvenær sem er kallað út, þótt stéttarvitund þeirra skipti þar engu máli. (Verulegur fjöldi þessara félaga er auk þess efnislega háður flokksvélinni: meirihluti starfsmanna hjá bæjarfélögum og í stjórnsýslu, starfsmenn verkalýðssamtakanna sjálfra, o.s.frv.).

Gagnstætt þessu bjóða baráttusamtökin upp á margfalt betri aðstöðu til sjálfstæðrar hugsunar, því að félagarnir verða að sýna af sér lágmarksvitund til þess að geta orðið félagar. „Hreinræktuð flokksvélmenni“ og aðrir framagosar eiga mun erfiðara með að ná þar áhrifum en í venjulegum atkvæðaklúbbi. Úr ágreiningi er fremur leyst málefnalega en á grundvelli fjárhagslegra tengsla eða „tryggðar“ við flokkinn. Þessi uppbygging samtakanna veitir vitaskuld enga tryggingu gegn skrifræðislegri þróun þeirra, en hún er alltént mikilvæg hindrun í vegi slíkrar þróunar.[50]

Samband byltingarsamtakanna (flokkskjarna eða flokks) og verkalýðsfjöldans gjörbreytist um leið og byltingarástand skapast. Áralangt starf byltingarhópanna fer þá að bera ávöxt, og mikill manngrúi öðlast byltingarsinnaða stéttarvitund á skömmum tíma. Byltingarsinnað frumkvæði þeirra getur þá farið langt fram úr frumkvæði hinna ýmsu byltingarhópa.

Í bók sinni Saga rússnesku byltingarinnar leggur Trotskí hvað eftir annað áherslu á það að á vissum skeiðum byltingarinnar hafi rússneskur verkalýður verið feti framar en Bolsévíkaflokkurinn.[51] Það er þó ekki rétt að draga of víðtækar ályktanir af því og umfram allt verður að tengja það þeirri staðreynd að áður en Lenín setti fram Aprílgreinar sínar var stjórnlistarlegur skilningur Bolsévíkaflokksins á eðli og markmiðum rússnesku byltingarinnar enn afar takmarkaður.[52] Hann hefði líklega fengið að súpa seyðið af því ef Lenín hefði ekki gripið í taumana. Það auðveldaði honum verkið að flestir menntaðir Bolsévíkar meðal verkafólks ýttu á eftir honum og þeir endurspegluðu hina ört vaxandi róttækni rússnesku verkalýðsstéttarinnar.

Hlutlægt, þ.e. margþætt mat á hlutverki Bolsévíkaflokksins í rússnesku byltingunni yrði vafalaust að setja fram á nokkuð annan hátt. Það kom hvað eftir annað í ljós að forystusveit flokksins var íhaldssöm klíka sem kom í veg fyrir að flokkurinn tæki upp sjónarmið Trotskís um baráttu fyrir alræði öreiganna (ráðstjórn). En samtímis kom í ljós að tilvist forystusveita verkalýðsins, með tuttugu ára reynslu af skipulögðu byltingarstarfi, átti sinn þátt í því að þessi stjórnlistarlega stefnubreyting tókst. Ef menn vilja finna tengsl milli stalíníska skrifræðisins og „flokkskenningar“ Leníns verða þeir alltént að skoða þetta mikilvæga atriði. Sigur Stalíns var ekki afleiðing af skipulagskenningu lenínismans, heldur stafaði hann af því að mikilvægur þáttur þess skipulags sem hún gerir ráð fyrir var horfinn: fjölmennar framvarðarsveitir verkalýðsins, er bjuggu yfir byltingarreynslu og héldu uppi miklu pólitísku starfi í nánum tengslum við fjöldann. Sjálfur hefur Lenín ekki neitað því, að vanti þennan þátt snúist flokkskenning hans upp í andstæðu sína.[53]

Ráðaskipulagið er eina algilda svarið sem verkalýðsstéttin hefur hingað til gefið við spurningunni um hvernig hægt sé að skipuleggja sjálfstæða virkni í byltingunni sjálfri og að henni lokinni.[54] Það veitir sífellt hinum ólíku öflum innan stéttarinnar – og öllum öðrum vinnandi og framsæknum hópum í samfélaginu – færi á að deila opinskátt um þær ýmsu stefnur sem fyrirfinnast innan stéttarinnar. Sérhvert raunverulegt ráðaskipulag, þ.e. sem valið hefur verið að verkalýðnum sjálfum en ekki verið þröngvað upp á hann af einhverjum valdhöfum, hlýtur þar af leiðandi að endurspegla félagslegan og hugmyndafræðilegan breytileika meðal hinna ýmsu hópa öreigastéttarinnar. Verkalýðsráð er í raun og veru samfylking ólíkra pólitískra hópa sem sameinast um eitt meginatriði: að verja byltinguna fyrir óvinum stéttarinnar. (Á sama hátt endurspegla verkfallsnefndir hinar ýmsu skoðanir meðal verkafólksins sem tekur þátt í verkfallinu. Þar er ekkert rúm fyrir verkfallsbrjóta).

Það eru engar andstæður á milli byltingarsamtaka af lenínískri gerð og ráðalýðræðis eða ráðavalds. Þvert á móti hlýtur ráðstjórn annað hvort að kafna fljótlega í umbótasinnuðu skrifræði (eins og þýska ráðstjórnin 1918-19), eða glata pólitísku afli sínu vegna getuleysis við að leysa mikilvæg pólitísk vandamál (eins og spænsku byltingarnefndirnar frá júlí 1936 til vors 1937), ef kerfisbundið skipulagsstarf byltingarframvarðarins er ekki fyrir hendi.

Sú tilgáta að ráðaskipulagið geri flokkana óþarfa gengur annað hvort út frá þeirri forsendu að ráðin muni á svipstundu eyða öllum mismun meðal verkalýðsstéttarinnar hvað varðar ólíka hugmyndafræði og hagsmunamál, og að þau bjóði stéttinni sjálfkrafa upp á „hina byltingarsinnuðu lausn“ á öllum vandamálum stjórnlistar og baráttutækni í byltingunni. Hins vegar er þessi hugmynd aðeins átylla til að gefa litlum hópi sjálfskripaðra „leiðtoga“ tækifæri til að stýra fjöldanum og ræna hann þar með möguleikanum á að átta sig sjálfur á grundvallarvandamálum byltingarinnar, þ.e. að fá að ræða vandamálin opinskátt og mynda ólíka pólitíska skoðanahópa. (Svona er þessu t.d. augljóslega farið í hinu svokallaða sjálfstjórnarkerfi í Júgóslavíu).

Þannig geta byltingarsamtökin betur tryggt verkalýðnum í ráðaskipulaginu möguleika á sjálfstæðri virkni og sjálfsvitund, og þar með byltingarsinnaða stéttarvitund, heldur en óbreytanlegt fulltrúakerfi. En til að þetta sé mögulegt verður auðvitað að örva sjálfstæða virkni fjöldans en ekki halda aftur af henni. Það er einmitt þetta sjálfstæða frumkvæði fjöldans sem rís hæst í ráðaskipulaginu. Enn þá einu sinni komumst við að svipaðri viðurstöðu: Hin leníníska skipulagshugmynd, byggð á réttri byltingarsinnaðri stjórnlist (þ.e. á réttu mati á hinu hlutlæga, sögulega ferli), felur einfaldlega það í sér að samtökin samræmi virkni fjöldans og geymi og vinni úr reynslu liðins tíma, til að koma í veg fyrir eilífar endurtekningar og til að skapa samfellda þróun í tíma, rúmi og vitund.

Sagan hefur í þessu samhengi einnig sýnt að það getur verið mikill munur á flokki sem kallar sig byltingarsinnaðan og sem raunverulega er byltingarsinnaður. Þegar hópur flokksskriffinna tekur ekki aðeins afstöðu gegn frumkvæði fjöldans og starfi, heldur reynir að brjóta það á bak aftur með öllum tiltækum ráðum, jafnvel með hernaðarofbeldi (það nægir að minna á Ungverjaland 1956 eða Tékkóslóvakíu síðan 1968), og þegar þessi hópur nær engum tengslum við ráðaskipulag sem sprettur sjálfkrafa upp úr fjöldabaráttunni, heldur kæfir þetta skipulag í fæðingu í nafni „forystuhlutverks flokksins“,[55] þá er ekki lengur um að ræða byltingarflokk öreiganna, heldur tæki sem þjónar sérhagsmunum forréttindahóps er hefur djúpa andúð á sjálfstæðri virkni fjöldans. Í einu orði sagt: skrifræðið. Möguleikinn á úrkynjun byltingarflokks í skrifræðislegan flokk er þó engin röksemd gegn skipulagskenningu Leníns, fremur en að læknar hafa drepið sjúklinga sína í stað þess að lækna þá er röksemd gegn læknavísindunum. Sérhvert skref sem stigið er frá þessari kenningu í átt til „hreinnar“ sjálfsprottinnar fjöldabaráttu má leggja að jöfnu við það að hverfa frá læknavísindunum til skottulækninga.

10. Félagsfræði ökónómisma, skrifræðis og sjálfsprottinnar baráttuhyggju

Samtímis því að við sýndum fram á að skipulagskenning Leníns er í rauninni kenning um nálægð öreigabyltingarinnar, drápum við á meginatriði kenningar Leníns um stéttarvitund öreiganna: vandann að ákvarða byltingaraflið í auðvaldsskipulaginu.

Samkvæmt Marx og Lenín (og einnig Rósu Lúxembúrg og Trotskí, þótt þau drægju ekki af því nauðsynlegar ályktanir fyrr en skömmu fyrir 1914) er verkalýðsstéttin byltingaraflið (raunar hefur hún aðeins getuna, en þarf ekki að vera byltingarsinnuð nema á vissum tímaskeiðum), vegna þess hvernig hún vinnur, hugsar og lifir undir oki auðvaldsskipulagsins, þ.e. vegna stöðu sinnar í samfélaginu í heild.[56] Skipulagskenning Leníns gengur beint út frá þessu mati á stöðu byltingaraflsins. Því það er augljóst að afl eða gerandi sem skilgreint er á þennan hátt hlýtur að bera í sér mótsagnir. Annars vegar býr það við launaþrælkun, firringu vinnunnar, firringu allra mannlegra samskipta og áhrif borgaralegrar og smáborgaralegrar hugmyndafræði. Hins vegar steypir það sér af og til út í stéttabaráttu sem veldur aukinni róttækni og stundum kemur jafnvel til hreinnar byltingarbaráttu gegn framleiðsluháttum auðvaldsins og ríkisvaldi borgaranna. Í þessum endurteknu bylgjuhreyfingum hefur raunveruleg stéttabarátta síðustu 150 ára birst. Það er algjörlega útilokað að draga saman þróun t.d. frönsku eða þýsku verkalýðshreyfingarinnar undanfarin 100 ár með formúlum eins og „vaxandi deyfð“ eða „samfellt byltingarstarf“. Þróunin mótast augljóslega af þróun beggja þátta, og áhersluþunginn færist á milli þeirra.

Hentistefna og einangrunarstefna eiga sem hugmyndafræðilegar stefnur rætur að rekja til ódíalektískrar skilgreiningar á byltingaraflinu. Samkvæmt hentistefnunni er byltingaraflið hinn venjulegi verkamaður. Hentistefnumenn hafa tilhneigingu til að gera skoðanir hans á öllum hlutum að sínum og „dýrka vanþróun hans“ eins og Plekhanov orðaði það. Ef verkafólkið fæst aðeins við vandamál sem varða vinnustaðinn verður hentistefnumaðurinn eins og hver annar fagfélagshyggjumaður. Ef verkafólkið ánetjast þjóðrembu verður hann þjóðrembu- og heimsvaldasósíalisti. Og ef verkafólkið fellur fyrir kaldastríðsáróðri verður hann þátttakandi í kalda stríðinu. „Fjöldinn hefur ávallt rétt fyrir sér“. Síðasta og ömurlegasta dæmið um slíka hentistefnu er þegar stefnuskrá flokksins – t.d. kosningastefnuskrá – er ekki lengur mótuð af hlutlægri, vísindalegri samfélagsgreiningu, heldur af … skoðanakönnunum.

En þessi hentistefna leiðir til óleysanlegrar mótsagnar. Til allrar hamingju er skapferli fjöldans ekki óbreytanlegt, heldur getið snöggum stakkaskiptum. Einn daginn láta verkamenn sig aðeins varða málefni vinnustaðarins, en þann næsta þyrpast þeir út á göturnar í pólitískar mótmælaaðgerðir. Einn daginn vilja þeir verja heimsvaldasinnað föðurland sitt gegn „utanaðkomandi fjandmönnum“, en næsta dag er stríðið orðið hvilíkur baggi á þeim að þeir sjá að ríkjandi stétt landsins er höfuðfjandi þeirra. Einn daginn veita þeir stéttasamvinnu þegjandi samþykki sitt, en daginn eftir rísa þeir upp gegn henni í ólöglegu verkfalli. Þar sem hentistefnan réttlætir aðlögun sína að borgaralegu samfélagi með vísan til afstöðu „fjöldans“ lendir hún óhjákvæmilega í andstöðu við þennan sama fjölda um leið og hann snýr við blaðinu og hefur aðgerðir gegn borgaralegu samfélagi.

Einangrunarsinnar einfalda fyrir sér byltingaraflið í sama mæli og hentistefnumenn, en á þveröfugan hátt. Hentistefnan tekur jafnan mið af hinum venjulega verkamanni, þ.e. verkamanni sem hefur vanist og aðlagast borgaralegum aðstæðum, einangrunarstefnan tekur jafnan mið af „fyrirmyndaröreiganum“ sem hagar sér eins og byltingarmanni sæmir. Ef verkamaðurinn bregst í þessu er hann ekki lengur byltingarafl; hann er orðinn „borgaralegur“. Þeir einangrunarsinnar sem lengst vilja ganga, t.d. sumir „spontanistar“ haldnir vinstrivillu og sumir stalínistar og maóistar, ganga jafnvel svo langt að leggja að jöfnu verkalýðsstéttina og borgarastéttina, ef hin fyrrnefnda hikar við að játast undir hugmyndafræði viðkomandi hóps.[57]

Öfgakennd hlutlægnisdýrkun („allt sem verkalýðurinn gerir er byltingarsinnað“) og öfgakennd huglægnisdýrkun („aðeins þeir sem fylgja kennisetningu okkar eru byltingarsinnar og öreigar“) geta auðveldlega fallist í faðma, því þegar allt kemur til alls afneita báðar hlutlægu byltingareðli mikilla fjöldaátaka sem stjórnað er af fólki með mismunandi og mótsagnakennda vitund. Frá sjónarhóli „hlutlægu“ hentistefnumannanna eru þessi átök ekki byltingarsinnuð vegna þess að „eftir mánuð mun meirihlutinn hvort sem er kjósa kratana eða Alþýðubandalagið“. Að mati „huglægra“ einangrunarsinna koma átökin byltingu ekkert við „því að byltingarhópurinn (þ.e. okkar hópur) er enn of veikburða“.

Það er vandalaust að finna félagslegt eðli þessara tveggja stefna – í hópi smáborgaralegra menntamanna: Hentistefnumenn tilheyra flestir þeim hluta menntamanna sem tengjast skrifræðinu í fjöldasamtökum verkalýðshreyfingarinnar eða borgaralegu ríkisvaldi, en einangrunarsinnarnir tilheyra menntamönnum sem ýmist hafa lækkað í félagslegri stöðu eða standa utan hinnar raunverulegu hreyfingar og skoða mál úr fjarlægð. Í báðum tilvikum eru hlutlægir og huglægir þættir byltingaraflsins – sem er þrungið mótsögnum en eitt og óskipt – þvingaðir í sundur hvor frá öðrum með hætti sem svarar til þess að gjá skilji á milli fræða og starfs, og af henni getur ekki annað en sprottið tækifærissinnað starf og „fræðileg“ hugsýn sem líkamnar „falska vitund“.

Mörgum hentistefnumönnum (m.a. skriffinnum verkalýðshreyfingarinnar) og einangrunarsinnuðum bókstafsmönnum er þó tamt að hafa í ásökunum við byltingarsinnaða marxista um að þeir séu smáborgaralegir menntamenn og ætli sér að undiroka verkalýðsstéttina.[58] Þetta deiluefni hefur einnig komið upp á sína vísu í byltingarsinnuðum námsmannahreyfingum. Það verður þannig ekki hjá því komist að taka félagsfræði skrifræðisins, ökónómismans og sjálfsprottinnar baráttu (eða „verklag handverksmannsins“ í skipulagsefnum) til nánari greiningar.

Snertifleti andlegrar og líkamlegrar vinnu, framleiðslu og upphleðslu, er víða að finna í borgaralegu samfélagi, á ólíkum sviðum þess, og t.d. í verksmiðjum. Með almennum hugtökum á borð við „menntamenn“, „smáborgaralega menntamenn“ eða „tæknimenntaða menn“ er vísað til margs konar starfsemi þar sem slík snerting kemur fram í veruleikanum, og hverju starfi fylgir svo aftur tiltekin staða gagnvart stéttabaráttunni. Í megindráttum má greina á milli eftirfarandi hópa (við fullyrðum engan veginn að þetta sé tæmandi greining):

  1. Þeir sem upphaflega tengdu saman auðmagn og vinnu í framleiðsluferlinu, þ.e. verkstjórar, eftirlitsmenn og annað sérþjálfað starfsfólk á vinnustaðnum, sem m.a. er ætlað að sjá um að halda uppi vinnuaga í þágu auðmagnsins.
  2. Þeir sem tengja vísindi og tækni eða tækni og framleiðslu: Vísindamenn og aðstoðarfólk þeirra, uppfinningamenn, tæknifræðingar, skipuleggjendur, þeir sem vinna við áætlunargerð, teikningar, o.s.frv. Gagnstætt flokki 1, eru þessir hópar ekki samábyrgir um að kreista gildisauka út úr framleiðandanum. Þeir taka sjálfir þátt í hinu efnislega framleiðsluferli og eru því ekki arðræningjar, heldur skapa gildisauka.
  3. Þeir sem tengja saman framleiðslu og sölu: Auglýsingastofur, markaðskönnuðir, vísindamenn og annað sérþjálfað fólk sem starfar í vörudreifingarkerfinu, o.s.frv.
  4. Þeir sem tengja kaupendur og seljendur vörunnar vinnuafls. Umfram allt eru þetta starfsmenn verkalýðsfélaganna og í víðari merkingu allir starfsmenn skrifræðislegra fjöldasamtaka í verkalýðshreyfingunni.
  5. Þeir sem tengja launavinnu og auðmagn í yfirbyggingu samfélagsins, þ.e. hugmyndafræðingarnir (þeir sem starfa við að framleiða hugmyndafræði): hluti borgaralegra stjórnmálamanna, borgaralegir prófessorar í svonefndum hugvísindum, blaðamenn, hluti listamanna, o.s.frv.
  6. Þeir sem tengja vísindi og verkalýðsstétt, þ.e. fræðimenn sem ekki hafa að atvinnu að framleiða hugmyndafræði ríkjandi stéttar og eru nógu efnaðir til þess að þurfa ekki að leita á náðir borgaranna, en geta tekið þátt í að gagnrýna borgaralega samfélagshætti.

Við þetta mætti bæta sjöunda hópnum, en hluta hans er að finna í þeim fimmta og í þeim sjötta. Í hefðbundnu borgaralegu samfélagi fellur kennsla sem atvinnugrein undir fimmta liðinn, bæði sökum ótakmarkaðs forræðis borgaralegrar hugmyndafræði og sökum hins almennt sértæka og hugmyndafræðilega eðlis allra kennslustarfa. En með vaxandi skipulagskreppu í háskólum síðkapítalismans hafa hlutlæg skilyrði breyst. Annars vegar stuðlar almenn kreppa auðvaldsins að almennri kreppu hinnar síðkapítalísku hugmyndafræði, sem nú er í sívaxandi mæli dregin í efa. Á hinn bóginn gegnir kennslan nú í minni mæli því hlutverki að vera tæki til sértækrar hugmyndafræðilegrar innrætingar, heldur er hæun í vaxandi mæli beinn tæknilegur undirbúningur fyrir inngöngu hins menntaða vinnuafls framtíðarinnar í framleiðsluferlið (flokkar 2 og 3). Þetta gerir það að verkum að innihald slíkrar kennslu tengist í vaxandi mæli nýrri vitund um firringu einstaklingsins og gagnrýni á viðkomandi samfélagssvið, eða jafnvel almennri samfélagsgagnrýni.

Það er nú augljóst hvaða hópar hins menntaða vinnuafls munu hafa neikvæð áhrif á vaxandi stéttarvitund öreiganna: Umfram allt eru það hópar 3, 4 og 5. (Þarflaust er að ræða hér hóp 1, enda heldur hann sig að jafnaði fjarri samtökum verkalýðsins). Það sem er hættulegast frumkvæði og sjálfstrausti verkalýðsstéttarinnar er samruni eða sambræðsla hópa 4 og 5, en allt frá fyrri heimsstyrjöldinni hefur það einmitt gerst í ríkum mæli í sósíaldemókratískum og á síðustu tímum einnig í Moskvusinnuðum, kommúnískum fjöldasamtökum á Vesturlöndum.

Hópar 2 og 6 hljóta hins vegar að stuðla að eflingu verkalýðsstéttarinnar og byltingarsamtaka vegna þess að þeir veita þeim þá þekkingu sem nauðsynleg er til óvæginnar gagnrýni á borgaralegt samfélag og til að hægt sé að ná árangri við að kollvarpa þessu samfélagi og enn frekar til að framleiðendurnir geti í sameiningu yfirtekið framleiðslutækin.

Þeir sem berjast gegn vaxandi samvinnu verkalýðssamtaka og annars og sjötta hóps hins menntaða vinnuafls styðja þar með í raun hópa 3, 4 og 5 og hin neikvæðu áhrif þeirra á verkalýðsstéttina, enda hlýtur stéttabaráttunni alltaf að fylgja hugmyndafræðileg barátta.[59] Spurningin snýst því um það hvaða hugmyndafræði geti fest rætur meðal verkalýðsstéttarinnar, með öðrum orðum um það hvort borgaraleg eða smáborgaraleg hugmyndafræði eða vísindi marxismans muni dafna meðal verkalýðsins. Hver sá sem er andvígur „sérhverjum utanaðkomandi menningaráhrifum“ á verkalýðsstéttina gleymir eða horfir fram hjá þeim áhrifum sem hópar 1, 3, 4 og 5 hafa í sífellu á verkalýðsstéttina í gegnum gangverk borgaralegs samfélags og hins kapítalíska hagkerfis. Vinstrivilltir „spontanistar“ hafa ekkert töfralyf við höndina sem getur stöðvað þetta ferli. Að vinna gegn áhrifum marxískra menntamanna á verkalýðsstéttina jafngildir einfaldlega því að borgaraleg menningaráhrif fái að breiðast út hindrunarlaust.[60]

En það sem verra er: Um leið og Mensévíkar og „spontanistar“ snúast gegn uppbyggingu byltingarsamtaka og þjálfun atvinnubyltingarmanna úr öreigastétt, stuðla þeir hlutlægt að eilífum aðskilnaði andlegrar og líkamlegrar vinnu, sem þýðir andlega undirgefni verkalýðsins gagnvart menntamönnum og hraðfara skrifræðisþróun verkalýðssamtaka. Þetta stafar af því að verkamaður sem sífellt lifir og hrærist í framleiðsluferli auðmagnsins hefur sjaldnast tækifæri til að tileinka sér fræðikenningar á viðhlítandi hátt og verður því alltaf háður „smáborgaralegu sérfræðingunum“. Innan byltingarsamtakanna er því hægt að stíga mikilvæg skref í átt til andlegrar frelsunar alltént meðvitaðasta hluta verkalýðsins og þar verða einnig stigin fyrstu skrefin til sigurs gegn verkaskiptingu innan verkalýðshreyfingarinnar með því að verkafólkið er flutt um hríð frá vinnustöðunum og því fengin önnur verkefni.

Við höfum enn ekki sagt lokaorðin um félagsfræði sjálfsprottinnar baráttuhyggju. Við hljótum að spyrja með sjálfum okkur í hvaða hópum verkalýðsstéttarinnar „fjandskapur“ og „tortryggni“ í garð menntamanna hafi mest ítök. Það er bersýnilega meðal þeirra hópa sem vegna félagslegrar og efnalegrar stöðu sinnar lenda í hörðustum árekstrum við andlega vinnu. Það eru í stórum dráttum verkamenn í smáum og meðalstórum fyrirtækjum sem stafar ógn af tæknilegum framförum; sjálfmenntað verkafólk sem með eigin átaki hefur aðgreint sig frá fjöldanum; verkafólk sem hefur prílað upp metorðastiga skrifræðisstofnana; verkafólk sem vegna fátæklegrar menntunar og lágs menningarstigs er útilokað frá andlegum störfum og lítur því á þau fullt tortryggni og fjandskapar. Með öðrum orðum: Félagslegan grundvöll ökónómisma, sjálfsprottinnar baráttuhyggju, „afstöðu handverksmannsins“ til skipulagsmála og og fjandskap við vísindin innan verkalýðsstéttarinnar má rekja til handverksmannahóps stéttarinnar.

Hins vegar gerir þekkingarþorstinn, vitneskjan um tæknilegar og vísindalegar framfarir og meira áræði við undirbúning valdatökunnar á vinnustöðum og í samfélaginu öllu, verkalýðnum á stærri vinnustöðum og borgum og innan tæknilega háþróuðustu iðngreinanna, mun auðveldara að skilja hlutlæga nauðsyn byltingarsamtaka og byltingarsinnaðra fræðimanna.

Strauma sjálfsprottinnar baráttuhyggju innan verkalýðshreyfingarinnar má oft, ef ekki alltaf, rekja til þess félagslega grundvallar sem að ofan greinir. Þetta átti sérstaklega við um anarkósyndikalismann í rómönsku löndunum fyrir heimsstyrjöldina fyrri. Þetta átti einnig við um Mensévíka sem urðu að lúta í lægra haldi fyrir Bolsévíkum í stærri verksmiðjum stórborganna, en áttu mestu fylgi að fagna í námu- og olíuþorpum í Rússlandi sunnanverðu.[61] Nú, á dögum þriðju iðnbyltingarinnar, hljóta allar tilraunir til að lífga upp á þessi sjónarmið handverksmanna í nafni „sjálfsstjórnar verkalýðsins“ að leiða til sömu niðurstöðu og áður, sem sé að sundra hinum meðvituðu og hlutlægt byltingarsinnuðu öflum verkalýðsstéttarinnar og styðja við bakið á skrifræðisöflum hreyfingarinnar, sem að nokkru hafa þessa afstöðu handverksmannanna og eru undir sífelldum áhrifum borgaralegrar hugmyndafræði.

11. Vísindamenn, félagsvísindi og stéttarvitund öreiganna

Eins og Marx sá fyrir hefur orðið gífurleg aukning á menntuðu vinnuafli í framleiðsluferlinu samfara þriðju iðnbyltingunni, en þegar í annarri iðnbyltingunni sköpuðust forsendur þeirrar þróunar.[62] Þetta hefur skapað mun stærri hluta menntamanna skilyrði til að endurheimta þá vitund um firringuna sem þeir höfðu glatað við að hverfa frá beinni framleiðslu á gildisauka og verða beint eða óbeint neytendur gildisaukans. Því að einnig þeir hafa orðið firringu borgaralegs samfélags að bráð. Þetta er hinn efnalegi grundvöllur stúdentauppreisnanna í heimsvaldaríkjunum, sem og möguleikanna á því að sífellt fleiri vísinda- og tæknimenn dragist inn í byltingarhreyfinguna.

Þátttaka menntamanna í hinni hefðbundnu sósíalísku hreyfingu fór yfirleitt minnkandi á árunum fyrir fyrri heimsstyrjöld. Þótt þátttaka þeirra hafi verið töluverð í upphafi, minnkaði hún smám saman þegar hinni skipulögðu fjöldahreyfingu óx ásmegin. Árið 1910 sýndi Trotskí fram á, í lítt kunnum deilum við Max Adler, að orsakir þessarar þróunar væru fyrst og fremst efnislegar: menntamenn verða félagslega háðir stórborgurunum og ríkisvaldi þeirra; hugmyndafræðileg samsömun við stéttarhagsmuni þá sem þeir þjóna með þessum hætti; og vangetu verkalýðshreyfingarinnar sem „and-samfélags“ til að keppa við mótleikara sinn. Trotskí spáði því að þetta myndi sennilega breytast afar hratt á byltingarskeiði, þegar öreigabyltingin nálgast.[63]

Af þessum réttu forsendum dró hann síðan ályktanir sem þá þegar höfðu reynst rangar. Hann skildi t.d. ekki, eins og Lenín hafði gert 1908-1909, hina miklu þýðingu námsmannahreyfingarinnar, sem reis upp aftur á tímum sigursællar gagnbyltingar. Lenín leit á hana sem undanfara væntanlegrar endurreisnar hinnar byltingarsinnuðu fjöldahreyfingar, sem síðan hófst 1912.

Trotskí gekk jafnvel svo langt að halda því fram að það væri „sök“ forystu byltingarsinnaðra menntamanna í rússneska sósíaldemókrataflokknum „ef hin almennu félagslegu einkenni menntamanna – einangrunarhyggja, dæmigerð einstaklingshyggja menntamannsins og hugmyndafræðidýrkun“ – næðu fótfestu í flokknum.[64] Eins og Trotskí viðurkenndi síðar vanmat hann á þessum tíma pólitíska og félagslega þýðingu baráttunnar milli flokksbrota Bolsévíka og niðurrifsmanna (liquidationisminn). Hún var aðeins framhald af fyrri baráttu Bolsévíka og Mensévíka. Sagan átti eftir að sýna að þessi barátta snerist engan veginn um „einangrunarhyggju menntamanna“ heldur það að greina sósíalíska og byltingarsinnaða vitund frá smáborgaralegri og umbótasinnaðri vitund.[65]

En það er þó rétt að þátttaka rússneskra byltingarsinnaðra menntamanna í uppbyggingu byltingarflokks rússnesku öreiganna byggðist enn sem komið var á einstaklingsbundnu úrvali og átti sér engar sérstakar félagslegar rætur. Allt frá októberbyltingunni hefur þetta óhjákvæmilega hamlað byltingu öreiganna, því þorra tæknimenntaðra manna var ókleift að snúast á sveif með byltingunni. Fyrst unnu þeir margvísleg skemmdarverk á hinni efnislegu framleiðslu og á uppbyggingu hins nýja skipulags; síðan varð að „kaupa“ samvinnu þeirra með háum launum og loks urðu þeir helsti aflvaki skrifræðisþróunar og úrkynjunar byltingarinnar.

Þar sem staða tæknimenntaðra manna (umfram allt hóps 2 hér að framan) í hinu efnislega framleiðsluferli hefur nú breyst á afgerandi hátt og þeir hafa smám saman orðið hluti af launavinnustéttinni, er veruleg þátttaka þeirra í byltingarferlinu oh endurskipulagningu samfélagsins mun líklegri en áður. Friedrich Engels benti á hið mikilvæga sögulega hlutverk sem þessir menntamenn geta gegnt við uppbyggingu sósíalísks samfélags.

Til að geta náð völdum yfir framleiðslutækjunum og nýtt þau þurfum við okkur til fulltingis fjölda fólks sem er tæknilega menntað. Við höfum ekki slíkt fólk … Mér virðist ljóst að á næstu átta til tíu árum muni bætast í okkar hóp nægilega margir ungir tæknimenn, læknar, lögfræðingar og kennarar til að hægt verði að láta flokksfélagana reka verksmiðjur og aðra mikilvægi þætti samfélagsins. Þá mun valdataka okkar verða fullkomlega eðlileg og mun ganga tiltölulega árekstralaust. Ef við hins vegar komumst til valda áður en aðstæður leyfa vegna styrjaldar, munu tæknimennirnir verða höfuðandstæðingar okkar og munu blekkja okkur og svíkja hvenær sem færi gefst. Við munum neyðast til að beita þá ofbeldi, en samt munu þeir verða okkur til mikillar bölvunar.[66]

Því verður auðvitað að bæta við að verkalýðsstéttin sem í þriðju iðnbyltinguni er mun hæfari en 1890, hlýtur að hafa mun meiri getu til að reka verksmiðjurnar en á dögum Engels. En þegar allt kemur til alls er það tæknileg þekking sem fjöldinn þarf á að halda til að geta framkvæmt pólitískt eftirlit með „sérfræðingunum“ (atriði sem Lenín gerði sér svo falskar vonir um árið 1918). Aðeins vaxandi sameining tæknimenntaðra manna og iðnverkamanna og vaxandi þátttaka byltingarsinnaðra menntamanna í byltingarflokknum getur auðveldað þetta eftirlit.

Eftir því sem andstæður aukast milli félagslegs eðlis framleiðslunnar og vinnunnar annars vegar og einkaeignarréttarins hins vegar (þ.e. með vaxandi kreppu kapítalískra framleiðsluafstæðna) – en þessi andstæða birtist okkur í nýju og skarpara formi nú á dögum, eins og atburðir í Frakklandi 1968 og á Ítalíu 1969 vitna um – og meðan síðkapítalisminn reynir enn að tefja fyrir endalokum sínum með því að auka neyslu verkalýðsins, munu vísindin í síauknum mæli verða að byltingarafli fjöldans í tvennum skilningi: Með sjálfvirkni og vaxandi offramleiðslu skapa þau ekki aðeins aukna kreppu í framleiðslu- og dreifingarferlum auðvaldsins, sem byggir á almennri vöruframleiðslu, heldur leiða þau einnig af sér byltingarsinnaða vitund meðal sívaxandi fjölda fólks, enda svipta þau grímunni af auðvaldinu og gera goðsagnir þess að engu. Þar með gera vísindin verkafólki kleift að öðlast á ný vitund um firringu sína og binda endi á hana. Í dag virðist meginhindrun í vegi þess að verkalýðurinn öðlist pólitíska stéttarvitund ekki vera eymd hans eða bælandi áhrif umhverfisins, heldur smáborgaraleg og borgaraleg hugmyndafræði sem sífellt dynur á honum og hylur raunverulegar afstæður samfélagsins. Einmitt þess vegna geta afhjúpanir gagnrýninna samfélagsfræða beinlínis gegnt byltingarsinnuðu hlutverki við að vekja stéttarvitund meðal fjöldans.

Þetta krefst auðvitað beinna tengsla við verkalýðsstéttina, en það eru einungis meðvitaðir verkamenn og byltingarsamtökin sem geta skapað slík tengsl. Og þetta krefst þess einnig að byltingarsinnaðir vísindamenn fari ekki „út til fjöldans“ svo auðmjúkir að að þeir nái aldrei lengra en að styðja baráttu fyrir hærri launum, heldur verða þeir að miðla honum vakandi og gagnrýnu hópum verkalýðsstéttarinnar því sem þeir eru ófærir um að afla sér sjálfir vegna brotakenndrar vitundar: vísindalegri þekkingu og vitund sem mun gera þeim kleift að sjá í gegnum hið grímuklædda arðrán og kúgun.

12. Sögulegt uppeldisstarf og myndun stéttarvitundar

Þegar maður hefur áttað sig á því að skipulagskenning lenínismans leitast við að leysa vandamál varðandi nálægð byltingarinnar og varðandi hinn byltingarsinnaða geranda, þá hlýtur kenningin að leiða beint að verkefnum sögulegs uppeldisstarfs, sem eru að gera mögulega stéttarvitund að raunverulegri stéttarvitund og faglega vitund að pólitískri, byltingarsinnaðri vitund. Þetta vandamál verður aðeins leyst í ljósi ofangreindrar flokkunar verkalýðsstéttarinnar í fjölda, meðvitað verkafólk og skipulagða, byltingarsinnaða forystusveit. Til þess að tileinka sér aukna stéttarvitund þarf hver hópur sína sérstöku leiðsögn, hann þarf að ganga í gegnum sitt eigið námsferli og hann þarfnast sérstakra tengsla við stéttina í heild og við hina fræðilegu framleiðslu. Sögulegt hlutverk þess framvarðarflokks sem Lenín hafði í huga má draga saman í einingu þessara þriggja mynda uppeldisstarfsins.

Fjöldinn lærir aðeins í sjálfri baráttunni. Það er vonlaust að ætla sér að færa honum byltingarsinnaða stéttarvitund með áróðri. En þótt fjöldinn læri einungis í baráttunni elur ekki öll fjöldabarátta af sér byltingarsinnaða fjöldavitund. Aðgerðir sem snúast um efnahagsleg og pólitísk skammtímamarkmið sem unnt er að koma til fullrar framkvæmdar innan ramma auðvaldsskipulagsins framkalla ekki byltingarsinnaða stéttarvitund. Þetta var ein af helstu tálvonum „bjartsýnna“ sósíaldemókrata um síðustu aldamót (t.d. Engels). Þeir héldu að það lægi bein leið frá áfangasigrum í kosningabaráttu og verkföllum til byltingarvitundar og aukinnar baráttugleði byltingarsinnaðra öreiga.[67]

Í ljós hefur komið að þetta er rangt. Þessir áfangasigrar hafa að vísu aukið sjálfstraust og baráttugleði öreiganna (anarkistarnir afneituðu ranglega þýðingu þessarar áfangabaráttu), en samt hafa þeir ekki búið þá undir byltingarbaráttu. Helsti munurinn á þýsku og rússnesku verkalýðsstéttinni við upphaf fyrri heimsstyrjaldarinnar var annars vegar reynsluleysi þýskra verkamanna af byltingarbaráttu og töluverð reynsla rússneskra verkamanna hins vegar. Í byltingunum í Rússlandi og Þýskalandi 1917-1919 var það einmitt þessi munur sem réði úrslitum.

Þar eð markmið fjöldaaðgerða er yfirleitt að fullnægja stundarþörfum er mikilvægur þáttur í byltingarstjórnlistar að tengja þessar þarfir kröfum sem ekki rúmast innan ramma auðvaldsskipulagsins og geta framkallað byltingarþróun þar sem hlýtur að koma til átaka milli höfuðstétta samfélagsins. Þetta er sú umskiptastjórnlist sem að tilhlutan Leníns var sett í stefnuskrá Alþjóðasambands kommúnista á fjórða þingi þess og varð síðar, að tilhlutan Trotskís, hluti af stefnuskrá Fjórða alþjóðasambandsins.[68]

Þróun byltingarvitundar meðal fjöldans er því aðeins möguleg að hann safni saman reynslu úr baráttu sem ekki takmarkast við áfangasigra innan ramma auðvaldsskipulagsins. Þessar umskiptakröfur geta því aðeins orðið baráttukröfur fjöldans að breiðar fylkingar meðvitaðs verkafólks, sem er nátengt fjöldanum, dreifi og reki áróður fyrir þessum kröfum (sem yfirleitt spretta ekki sjálfkrafa úr daglegri reynslu verkalýðsins) í verksmiðjum og á öðrum vinnustöðum og reyni gildi þeirra við ýmiss konar aðstæður, uns svo er komið að hlutlæg og huglæg skilyrði falla saman og gera framkvæmd þessara krafna að megintakmarki verkfalla, mótmælaaðgerða, áróðursherferða, o.s.frv.

Þótt byltingarvitund skapist aðeins í röðum fjöldans fyrir tilstuðlan hlutlægrar byltingarbaráttu, sprettur hún í röðum meðvitaðs verkafólks af reynslunni af lífi, starfi og baráttu almennt. Sú reynsla þarf alls ekki að vera byltingarreynsla. Úr dagslegri reynslu af árekstrum stéttanna dregur meðvitað verkafólk ályktanir um þörfina á samstöðu stéttarinnar, sameiginlegri baráttu hennar og skipulagningu. Það er síðan komið undir hlutlægum kringumstæðum og beinni reynslu hvernig þessi barátta og skipulagning mótast. En lífs-, starfs-, og baráttureynsla hins meðvitaða verkafólks sýnir því fram á þá mikilvægu staðreynd að barátta sem einungis miðar að endurbótum ríkjandi samfélagshátta, í stað þess að kollvarpa þeim, er gjörsamlega ófullnægjandi.

Starfsemi byltingarframvarðarins getur gert meðvituðu verkafólki kleift að skilja þetta til fulls. Framvörðurinn getur ekki skilað þessu hlutverki sjálfkrafa eða án tillits til hlutlægra aðstæðna. Hann getur aðeins skilað því þegar hann er sjálfur vandanum vaxinn, þ.e. ef fræðileg, áróðursleg og menningarleg starfsemi hans samsvarar þörfum meðvitaðs verkafólks og brýtur ekki í bága við grundvöll uppeldisstarfsins (forðast ber „fullyrðingakenndan“ framsetningarhátt). Jafnframt verður svona starfsemi að tengjast hversdagslegu starfi og pólitískri framtíðarsýn og gera þannig byltingarsamtökin og stjórnlist þeirra meira traustvekjandi og öflugri.

Á tímum hnignandi stéttabaráttu, þegar sjálfstraust verkalýðsstéttarinnar fer minnkandi og stéttaróvinurinn getur um tíma styrkt sig í sessi, mun byltingarframvörðurinn ekki geta náð takmarki sínu, jafnvel þótt starfsemi hans sé alveg nægileg til að framkalla byltingarvitund hjá stórum hluta meðvitaðra verkamanna. Sú blekking að einungis sé nóg að verja „réttu baráttuaðgerðina“ eða „réttu línuna“ til að byltingaröflin styrkist á einhvern yfirnáttúrulegan hátt, jafnvel á tímum hnignandi stéttabaráttu, á rætur að rekja til borgaralegrar rökhyggju, en ekki díalektískrar efnishyggju. Þessi blekking er einmitt ein helsta orsök klofnings innan byltingarhreyfingarinnar, því skipulagsleg einangrunarhyggja þeirra sem kljúfa byggir á þeirri barnalegu skoðun að „beiting hinnar réttu baráttuaðferðar“ geti náð til fleira fólks utan byltingarsamtakanna, en meðal byltingarsinna sem þegar eru skipulagðir. Svo lengi sem hlutlæg skilyrði eru óhagstæð mun slíkur klofningur að jafnaði leiða til myndunar smáhópa, sem eru enn veikari en þeir sem áður voru fordæmdir fyrir „rangar baráttuaðferðir“ sínar.

Þetta merkir þó ekki að starf byltingarframvarðarins meðal meðvitaðs verkafólks hafi ekkert gildi eða beri engan árangur þegar skilyrði eru óhagstæð. Það ber að vísu ekki mikinn beinan árangur, en er þó óhemju mikilvægt því það er undirbúningsstarfið sem skiptir sköpum þegar stéttabaráttan fer að eflast á nýjan leik.

Á sama hátt og fjöldinn getur ekki þróað með sér byltiongarvitund án byltingarbaráttu, geta meðvitaðir verkamenn sem aldrei hafa heyrt minnst á umskiptakröfur ekki miðlað þeim í næstu öldu stéttabaráttunnar. Hið þrautseiga og langvarandi undirbúningsstarf sem byltingarframvörðurinn hefur unnið í áraraðir ber ríkulegan ávöxt þegar „hinir eðlilegu leiðtogar stéttarinnar“, hikandi og jafnvel enn undir áhrifum óvinarins, setja skyndilega fram í verkfalli eða mótmælaaðgerðum kröfuna um verkalýðseftirlit og gera hana að takmarki baráttunnar.[69]

En til að geta sannfært meðvitað verkafólk og róttæka menntamenn um þörfina á að víkka fjöldabaráttuna út fyrir ramma skammtímaþarfa og hefja hana á stig umskiptakrafna er þó ekki nóg að byltingarsamtökin læri utanbókar lista með slíkum kröfum, fengnum úr vopnabúri Leníns og Trotskís.

Þau verða að tileinka sér tvíþætta þekkingu og námshætti. Annars vegar verða þau að tileinka sér reynslu alþjóðlegrar byltingarbaráttu öreiganna í meira en heila öld. Hins vegar verða þau sífellt að greina nákvæmlega hinn félagslega veruleika samtíðarinnar, þjóðbundinn og alþjóðlegan. Aðeins það gerir mögulegt að beita söguþekkingunni á ríkjandi ástand. Það leikur enginn vafi á því að samkvæmt marxískri þekkingarfræði getur aðeins starfið verið mælikvarði á gildi hinnar fræðilegu þekkingar um raunveruleika samtíðarinnar. Af þeirri ástæðu er alþjóðleg starfsemi algjört skilyrði alþjóðlegrar marxískrar greiningar. Grunnforsenda slíkrar starfsemi er tilvera alþjóðlegra samtaka.

Án nákvæmrar þekkingar á sögulegri reynslu hinnar alþjóðlegu verkalýðshreyfingar, allt frá byltingunni 1848 til okkar daga, er með fræðilegri nákvæmni hvorki hægt að ákvarða mótsagnir hins síðkapítalíska samfélags nútímans – um heim allan jafnt sem í einstökum ríkjum – né þær hluttæku mótsagnir sem skapast við þróun stéttarvitundar meðal öreiganna, né heldur eðli þeirrar baráttu sem leitt gæti til forbyltingarástands. Sagan er eina tilraunastofa samfélagsvísindanna. Þeir marxísku gervibyltingarmenn sem í dag neita að tileinka sér lærdóma sögunnar eru engu betri en læknanemar sem neita að stíga fæti inn á krufningsstofuna.

Það verður að leggja áherslu á það að allar tilraunir til að halda hinni nýendurreistu byltingarhreyfingu „utan við klofninga fortíðarinnar“ stafa af hreinum skilningsskorti á félagslegu og pólitísku eðli þessara klofninga innan hinnar alþjóðlegu verkalýðshreyfingar. Ef horft er fram hjá óhjákvæmilegum, persónulegum og tilviljanakenndum þáttum sem tengjast þessum klofningum, hlýtur niðurstaðan að verða sú að öll meiri háttar í hinni alþjóðlegu verkalýðshreyfingu frá stofnun Fyrsta alþjóðasambandsins (deilur milli marxisma og anarkisma, marxisma og endurskoðunarstefnu, bolsévisma og mensévisma, alþjóðahyggju og þjóðrembu, deilur talsmanna alræðis öreiganna og borgaralegs lýðræðis, trotskisma og stalínisma og milli maóisma og krústsjovisma) varða grundvallarvandamál öreigabyltingarinnar og stjórnlistar og taktíkur byltingarsinnaðrar stéttabaráttu. Þessi grundvallarvandamál spretta af sjálfu eðli auðvaldsskipulagsins, verkalýðsstéttarinnar og byltingarbaráttu. Þau munu því verða lifandi vandamál svo lengi sem stéttlausu samfélagi hefur ekki verið komið á um heim allan. Hvorki „tillitssemi“ né stórhuga „sáttfýsi“ getur, þegar til lengdar lætur, komið í veg fyrir að þessi vandamál leiði af starfinu og neyði hverja kynslóð byltingarmanna til að takast á við þau. Reyni menn að hliðra sér hjá því að ræða þessi vandamál verður niðurstaðan sú að þau verða greind ókerfisbundið, tilviljunarkennt og án nauðsynlegrar þekkingar og þjálfunar, ekki skipulega og vísindalega.

Enda þótt nauðsynlegt sé að tileinka sér sögulegt innihald marxískrar fræðikenningar er það aðeins fyrsta skref meðvitaðs verkafólks og róttækra menntamanna í þá átt að öðlast byltingarsinnaða stéttarvitund. Jafnframt því er kerfisbundin greining á nútímanum nauðsynleg, en án hennar er fræðikenningin hvorki fær um að sýna fram á baráttustyrk verkalýðsstéttarinnar á hverjum tíma, né að afhjúpa hina „veiku hlekki“ framleiðsluháttar síðkapítalismans og borgaralegs samfélags. Án slíkrar greiningar getur fræðikenningin heldur ekki mótað viðeigandi umskiptakröfur né heppilegan framsetningarmáta þeirra. Aðeins fullkomin og gagnrýnin greining á samfélagi nútímans í samverkan við sögulega lærdóma verkalýðshreyfingarinnar, getur veitt árangur við lausn á fræðilegum vandamálum byltingarframvarðarins.[70]

Án reynslu af byltingarbaráttu getur fjöldinn ekki haft byltingarsinnaða stéttarvitund. Án markvissra afskipta meðvitaðs verkafólks sem flytur umskiptakröfur inn í baráttu verkafólks, getur fjöldinn vart öðlast reynslu af byltingarbaráttu. Ef byltingarframvörðurinn útbreiðir ekki umskiptakröfur eru engar líkur á því að meðvitað verkafólk geti haft áhrif fjöldabaráttuna í þá átt að beina henni markvisst gegn auðvaldinu. Án byltingarstefnuskrár, án nákvæmra rannsókna á sögu byltingarsinnaðrar verkalýðshreyfingar, án beitingar þessara rannsókna á nútímann og án raunhæfra sannana á getu byltingarframvarðarins til að gegna forystuhlutverki, a.m.k. á vissum sviðum og undir vissum kringumstæðum, er engin leið að sannfæra meðvitað verkafólk um nauðsyn byltingarsamtaka. Þess vegna er nær útilokað að meðvitað verkafólk geti mótað þær umskiptakröfur sem best hæfa hlutlægum aðstæðum. Á þennan hátt fléttast saman ólíkir þættir í sköpun stéttarvitundar, er rennir stoðum undir varanlegt gildi skipulagskenningar lenínismans.

Uppbygging byltingarflokks nær hámarki við það að þrír þættir koma saman: Baráttureynsla fjöldans, dagleg reynsla meðvitaðs verkafólks og þekkingin sem byltingarframvörðurinn öðlast í gegnum byltingarsinnaða fræðikenningu og starf. Það á sér stað sífelld víxlverkun þekkingaröflunar og miðlunar, einnig í röðum byltingarframvarðarins. Hann verður að losa sig við allan hroka sem leitt getur af fræðilegri þekkingu hans. Slík afstaða byggir á skilningi á því að fræðikenningin geti aðeins sannað tilverurétt sinn í tengslum við hina raunverulegu stéttabaráttu og með getu sinni til að breyta hlutlægum möguleika byltingarvitundar í raunverulega byltingarvitund mikils fjölda verkafólks. Merking hinna frægu ummæla Marx, að uppalandinn hljóti sjálfur sitt uppeldi,[71] er nákvæmlega samkvæmt orðanna hljóðan. Þetta þýðir ekki að markviss byltingarsinnuð umsköpun samfélagsins sé möguleg án byltingarsinnaðs uppeldisstarfs. Það skýrist enn frekar í þeirri fullyrðingu Marx að „þegar breyting á aðstæðum og mannleg starfsemi rennur saman í eitt, ber að líta á það sem umbyltandi starf og verður ekki skilið í anda rökhugsunar á annan veg“.[72] 

Athugasemd OM: Þýðingin, sem að mestu var unnin af Steingrími Steinþórssyni, er tekin upp úr samnefndum bæklingi sem Fylkingin gaf út 1980. Ég hef lítillega föndrað við textann á stöku stað, og fylgt þar sama leiðarljósi og með aðrar þýðingar sem hér birtast: að færa stafsetningu og greinarmerkjasetningu til nútímalegra horfs, samræma hugtakanotkun og auka á nákvæmni í einhverjum tilvikum. 

[1] Þessi hugmynd er alls ekki frá Lenín komin, heldur svarar til hefðar sem rekja má frá Engels til Kautskys og þaðan til hefðbundinna kenninga sósíaldemókrata á árunum 1880-1905. Hún kemur skýrt fram í

Hainfeldstefnuskrá austurrískra sósíaldemókrata sem var samin á árunum 1888-89: „Sósíalísk vitund er nokkuð sem kemur utan að inn í stéttarbaráttu öreiganna en vex ekki sjálfkrafa upp úr þessari baráttu“. Árið 1901 birti Kautsky í Neue Zeit (19. árg., 2. hefti, 17. apríl 1901) greinina „Akademiker und Proletarier“ þar sem sama hugsun kemur fram með hætti sem hafði bein áhrif á Lenín í Hvað ber að gera?

Alkunna er að Marx setti ekki fram neina heilsteypta flokkshugmynd. Þótt hann hafi stundum alveg hafnað hugmyndinni um skipulagða framvarðarsveit, koma einnig fram hjá honum hugmyndir sem fara æði nærri hugmyndinni um að verkalýðsstéttin „öðlist byltingarsinnaða sósíalíska vitund utan frá“. Athugum t.d. eftirfarandi klausu úr bréfi sem hann skrifaði 1. janúar 1870, fyrir hönd miðstjórnar Fyrsta alþjóðasambandsins til sambandsnefndarinnar í rómanska hluta Sviss: „Englendingar búa yfir öllum efnislegum skilyrðum félagslegrar byltingar. En þá skortir hæfni til að alhæfa og byltingarsinnaðan eldmóð. Aðeins Framkvæmdanefndin getur ráðið bót á þessum skorti og þar með ýtt undir þróun raunverulegrar byltingarhreyfingar í Englandi og jafnframt í öllum heiminum. Þann mikla árangur sem þegar hefur náðst í þessu tilliti hafa skynsömustu og áhrifamestu dagblöð ríkjandi stéttar staðfest … svo ekki sé minnst á hina svokölluðu róttæku þingmenn efri og neðri deildar enska þingsins, sem fyrir skömmu höfðu töluverð áhrif á leiðtoga enskra verkamanna. Þeir saka okkur opinberlega um að hafa spillt og nærri drepið hinn enska anda verkalýðsstéttarinnar og hrakið hana á vit byltingarsinnaðs sósíalisma.“ (Marx-Engels, Werke, Berlín 1964, 16. bindi, bls. 386-387).

Hugmyndina um „samtímagildi byltingarinnar“ hjá Lenín setti Lukács fyrstur fram, í Sögu og stéttarvitund og þó einkum í riti sínu Lenín.

[2] Þetta á sérstaklega við um mikilvæga hugmynd marxismans um byltingarsinnað starf, sem var sett fram og skilgreint í Þýsku hugmyndafræðinni, en það rit var óþekkt um þessar mundir.

[3] Hér er ekki aðeins átt við borgarabyltingar, en hreyfilögmál þeirra hafa mikið verið rannsökuð (sérstaklega af Marx og Engels), heldur einnig byltingar sem hafa fram til þessa sætt miklu minni kerfisbundum rannsóknum. Má hér nefna bændabyltingar og byltingar smáborgara í bæjum gegn aðalsveldinu; þrælauppreisnir og uppreisnir ættasamfélaga gegn þrælasamfélögum; bændabyltingar sem urðu við upplausn hins gamla asíska framleiðsluháttar, o.s.frv.

[4] Það er í þessari merkingu sem skilja verður t.d. hina frægu athugasemd Marx í upphafi 18. Brumaire Loðvíks Bonaparte þar sem hann áréttar sjálfsgagnrýnið eðli öreigabyltingarinnar og þá tilhneigingu hennar að koma aftur að atriðum sem virst höfðu úr sögunni. Í þessu sambandi talar Marx einnig um að öreigarnir verði sem dáleiddir af „hinu gífurlega verkefni sínu“.

[5] Í Kommúnistaávarpinu segja Marx og Engels að kommúnistar „setji ekki fram neinar sérstakar frumreglur sem þeir vilji móta öreigahreyfinguna eftir“. Í ensku útgáfunni frá 1888 skiptir Engels á orðunum „sérstakur“ og „einangrunarsinnaður“. Með því tjáir hann að vísindalegur sósíalismi skuli leitast við að flytja inn í verkalýðshreyfinguna „sérstakar“ frumreglur en þó aðeins reglur sem vaxa upp úr almennri þróun stéttarbaráttu öreiganna, þ.e.a.s. úr samtímasögunni, en ekki reglur sem aðeins einkenna ákveðinn smáhóp, og eru algerlega tilviljunarkenndur þáttur í stéttarbaráttu öreiganna.

[6] Borgarastéttin er enn fær um að koma á byltingarkenndum breytingum á sviði tækni og iðnaðar og hlutlægt séð mun hún um langt skeið gegna framfarasinnuðu hlutverki í sögunni. Hún hættir hins vegar að taka nokkurn virkan þátt í breytingum á hinum félagslegu líffsskilyrðum, vegna þess að æ tíðari árekstrar hennar við öreigana sem hún arðrænir, gera hana sífellt afturhaldssamari á því sviði.

[7] Þessa hugmynd setur Trotskí ótvírætt fram í fyrstu rússnesku útgáfu bókar sinnar The Permanent Revolution ([Samfelld bylting], New York, 1969). Maó Tse-túng hefur einnig oftar en einu sinni vakið athygli á þessari hugmynd. Í skarpri andstöðu við hana er hugmyndin um „háþróað sósíalískt samfélagskerfi“, þar sem litið er á fyrsta stig kommúnismans sem fast mót, en ekki umskiptaskeið samfelldrar byltingarþróunar frá kapítalisma til kommúnisma.

[8] Sbr. hina vel þekktu staðhæfingu Leníns að í augum hinnar heimsvaldasinnuðu borgarastéttar sé enginn „óleysanlegur efnahagsvandi“ til.

[9] Þannig birtist hin vaxandi stéttarvitund borgarastéttarinnar, og jafnvel einnig vaxandi stéttarvitund fátæklinga og hálf-öreiga á 16. og 17. öld algjörlega innan trúarlegs ramma. Stéttarvitund borgarastéttarinnar fann leiðina til efnishyggju fyrst í hrunadansi hins lénska einveldis á síðari hluta 18. aldar.

[10] Hugmynd Gramscis um „pólitískt og siðferðilegt forræði“ sem hin undirokaða stétt verður að ná í samfélaginu áður en hún getur tekið pólitísk völd í sínar hendur tjáir sérstaklega vel þennan möguleika (sbr. Il materialismo storico e la filosofia di Benedotte Croce, Einaudi, Milano, 1964, bls. 236; og Note sul Machiavelli, Einaudi, Milano 1964, bls. 29-37 og 41-50.  Þetta hugtak hefur fjöldi marxískra fræðimanna gagnrýnt og lagfært. Sjá t.d. Nicos Poulantzas, Pouvoir politique et classes sociales, París 1968. Varðandi þýðingu almennrar viðurkenningar á efnislegum og siðferðislegum grundvelli borgaralegs alræðis, sjá José Ramón Recalde, Integración y lucha de clases en el neo-capitalismo, Madrid 1968, bls. 152-157.

[11] Í Þýsku hugmyndafræðinni lýsa Marx og Engels þessu svo að „bylting sé ekki nauðsynleg einungis vegna þess að ríkjandi stétt verður ekki steypt öðruvísi, heldur einnig vegna þess að einungis í byltingu getur byltingarstéttin losað sig við allt þetta rusl fortíðarinnar og orðið fær um að byggja upp nýtt samfélag“, Marx og Engels, The German Ideology, Moskva 1968, bls. 87. Athugið einnig eftirfarandi athugasemdir sem Marx skrifaði árið 1850 í deilum við Schapper-minnihlutann í Kommúnistabandalaginu: „Minnihlutinn setur kreddutrú í stað gagnrýninnar afstöðu. Hann heldur fram hughyggju í stað efnishyggju. Í augum minnihlutans eru hinar raunverulegu aðstæður ekki drifkraftur byltingarinnar. Hjá þeim snýst allt um viljastyrk. Við segjum aftur á móti við verkafólkið: „Þið munið neyðast til að heyja innanlandsstyrjöld og alþýðustyrjöld í 15, 20 eða 50 ár. Þetta verður nauðsynlegt, bæði til að breyta aðstæðunum og einnig til að breyta ykkur sjálfum, þannig að þið verðið fær um fara með hið pólitíska vald“. Þið segið aftur á móti: „Ef við getum ekki tekið völdin strax, er jafn gott að fara heim og leggja sig“. Karl Marx, Enthüllungen über den Kommunistenprozess zu Köln, Berlín 1914, bls. 52-53.

[12] Sbr. Lenín: „Og þessir fáráðu spekingar koma ekki auga á að það er einmitt á meðan bylting stendur yfir sem úrslit fræðilegrar baráttu okkar við gagnrýnendurna skipta mestu máli fyrir okkur svo að við getum af fullri einbeitni barist gegn afstöðu þeirra til framkvæmdamála“. What is to be Done?, Progress Publishers, Moskvu 1964, bls. 163 [Hvað ber að gera?, Reykjavík 1970, bls. 229.] Hve átakanlega þetta kom á daginn sautján árum síðar, í þýsku byltingunni.

[13] Í Hvað ber að gera? talar Lenín í tengslum við þetta um „sósíaldemókratíska“ og „byltingarsinnaða“ verkamenn, andstætt þeim sem eru „skemmra á veg komnir“.

[14] N. Bukharin, Theorie des historischen Materialismus, útg. Alþjóðasamband kommúnista, 1922, bls. 343-345.

„Efnahagslegar aðstæður breyttu í fyrstu alþýðufjölda þessa lands í verkafólk. Ofurvald auðmagnsins hefur skapað þessum fjölda sameiginlegar aðstæður, sameiginlega hagsmuni. Þessi fjöldi er því nú þegar stétt gagnvart auðmagninu, en ekki gagnvart sjálfum sér. Í baráttunni sem við höfum aðeins lítllegafjallað um, sameinast fjöldinn og birtist sjálfum sér sem stétt“. Karl Marx, The Poverty of Philosophy, New York 1963, bls. 173.

[15] Sbr. þann hluta Erfurtstefnuskrár þýska sósíaldemókrataflokksins sem Engels gagnrýndi ekki, en þar er öreigastéttin skilgreind sem stétt launavinnufólks, aðskilin frá framleiðslutækjunum og dæmd til að selja vinnuafl sitt. Stéttabaráttunni er lýst sem hlutlægri baráttu arðræningja og arðrændra í samfélagi nútímans (óháð skipulags- eða vitundarstigi launavinnufólksins). Á eftir lýsingunni á þessum hlutlægu aðstæðum í fyrstu fjórum köflum stefnuskrárinnar, kemur þessi viðbót við niðurstöður hins almenna hluta stefnuskrárinnar: „Hlutverk sósíaldemókrataflokksins er að gefa baráttu verkalýðsins meðvitaða og heilsteypta mynd og benda á nauðsynleg grundvallarmarkmið hennar“. Þetta staðfestir enn einu sinni að tilvera stétta og stéttabaráttu í auðvaldssamfélagi er óháð vitund eða vitundarskorti verkalýðsstéttarinnar um stéttarhagsmuni sína. Í áttunda hluta stefnuskrárinnar er talað um „stéttvísa verkamenn allra landa“, og Engels gerir tillögu um breytingu sem undirstrikar enn og aftur að hann gerir skarpan greinarmun á „hlutlægu“ og „huglægu“ stéttarhugtaki. „Í stað „stéttvís“ … vil ég með tilliti til almenns skilnings og þýðinga á erlend tungumál segja: „verkamenn sem öðlast hafa skilning á eigin stéttarstöðu“ eða eitthvað því um líkt.“ Engels, Zur Kritik der sozialdemokratischen Programmentwurfs 1891, í Marx/Engels, Werke, 22. bindi, Berlín 1963, bls. 232.

[16] Lenín: „Frumforsenda þessa árangurs (að tryggja stöðu flokksins – E.M.) var auðvitað sú staðreynd að verkalýðsstéttin, en kjarni hennar hefur skapað sósíaldemókratísku hreyfinguna, er af hlutlægum, efnahagslegum ástæðum ólík öllum öðrum stéttum auðmagnssamfélagsins vegna skipulagsmöguleika sinna. Ef þessi forsenda væri ekki fyrir hendi, væri skipulagning atvinnubyltingarmanna einber leikur, ævintýri …“ Lenín, Œuvres complètes, 12. bindi, París 1969, bls. 74.

[17] Margir gagnrýnendur skipulagskenningar Leníns, allt frá Plekhanov („Miðstýring eða bónapartismi“ í Iskra nr. 70, 1904) svara þessari skoðun með tilvitnun í klausu í Heilögu fjölskyldunni. Þar segir: „Þegar sósíalískir rithöfundar tileinka öreigunum þetta sögulega hlutverk er það ekki vegna þess að þeir líti á öreigana sem guði, eins og hin gagnrýna gagnrýni þykist álíta. Þessu er frekar öfugt farið. Ástæðurnar eru þær að hjá öreigastéttinni hafa allir mannlegir drættir horfið, að lífsskilyrði öreiganna fela í sér öll ómannlegustu lífsskilyrði nútíma samfélags, að maðurinn hefur glatað sjálfum sér í öreigastéttinni. En samtímis hefur hann ekki aðeins öðlast fræðilega vitund um þennan missi sinn, heldur er hann knúinn af þörf sem ekki verður dulin til lengdar, til að rísa upp gegn honum ómennska veruleika. Þess vegna geta og verða öreigarnir að frelsa sig sjálfir. En þeir geta ekki frelsað sig án þess að afnema lífsskilyrði sín, án þess að afnema öll ómennsk lífsskilyrði nútíma samfélags sem hafa þjappast saman í aðstæðum þeirra sjálfra. Þeir ganga ekki í gegnum hinn harða skóla vinnunnar til einskis. Málið snýst ekki um hvað öreigarnir, jafnvel öll stéttin, telja í svipinn markmið sitt, heldur snýst það um hvað öreigarnir eru og hvað sjálf tilvera þeirra neyðir þá til að gera. Markmið og sögulegar athafnir öreigastéttarinnar ákvarðast augljóslega og óafturkallanlega af lífsskilyrðum þeirra sem og í allri uppbyggingu hins borgaralega samfélags. Það er óþarft að staldra hér við þá staðreynd að mikill hluti enskra og franskra öreiga er þegar meðvitaður um hið sögulega hlutverk sitt og vinnur í sífellu að því að skýra þessa meðvitund til fulls“. Marx/Engels, The Holy Family, Moskvu 1956, bls. 52-53.

Burtséð frá þeirri staðreynd að Marx og Engels voru vart færir um  að setja fram fullmótaða kenningu um stéttarvitund öreiganna og skipulagningu þeirra (til að komast að raun um þetta þarf aðeins að bera saman síðustu setninguna í tilvitnuninni hér að ofan við það sem Engels skrifaði 40 árum síðar um ensku verkalýðsstéttina), þá stendur allt annað í þessari klausu en það sem Plekhanov las úr henni. Hér er aðeins sagt að félagslegar aðstæður öreiganna búi þá undir róttækar og byltingarsinnaðar aðgerðir og að hið almenna sósíalíska markmið (afnám einkaeignarréttarins) „ákvarðist“ af lífsskilyrðum þeirra. Hér er ekkert um það sagt að þessi „ómennsku lífsskilyrði“ geri öreigana á einhvern dulrænan hátt færa um að tileinka sér samfélagsvísindin á „sjálfsprottinn“ hátt. Öðru nær. (Um grein Plekhanovs, sjá S.H. Baron, Plekhanov, Stanford 1963, bls. 248-253).

[18] Nú á dögum hefur það næstum gleymst að hreyfingu rússneskra sósíalista var að verulegu leyti komið á legg af stúdentum og menntamönnum og að þeir áttu fyrir u.þ.b. 75 árum við svipuð vandamál að stríða og byltingarsinnaðir menntamenn í dag. „Svipuð“ þýðir auðvitað ekki „sömu“. Í dag er við ýmsa erfiðleika að etja (umbótasinnaðar og endurskoðunarsinnaðarfjöldahreyfingar verkalýðsstéttarinnar) en styrkurinn hefur líka aukist, því síðan þá hefur söguleg reynsla, og þar með talin reynsla af miklum sigrum byltingarhreyfingarinnar, aukist gífurlega.

Í Hvað ber að gera? talar Lenín tæpitungulaust um getu menntamanna til að tileinka sér „pólitíska þekkingu“, þ.e. hinn vísindalega marxisma.

[19] Sbr. Karl Marx, The Poverty of Philosophy. Grípandi lýsingu á ýmsum eldri formum verkalýðsfélaga og andspyrnusjóða verkalýðsins er að finna hjá E.P. Thompson, The Making of the English Working Class, London 1968.

[20] Hið óhjákvæmilega sveiflukennda eðli fjöldabaráttunnar má rekja til stéttaraðstæðna öreiganna sjálfra. Svo lengi sem ekki tekst að umbylta framleiðsluhætti auðvaldsins, takmarkast varanleiki sérhverrar aðgerðar af fjárhagslegu, líkamlegu og andlegu bolmagni verkafólksins til að komast af án launa. Það er augljóst að verkafólki eru takmörk sett að þessu leyti. Að neita þessu væri eins og að afneita þeim efnislegu tilveruskilyrðum öreigastéttarinnar sem valda því að hún neyðist til að selja vinnuafl sitt.

[21] Sbr. nokkur dæmi frá fyrstu árum samtaka þýskra málmiðnaðarmanna: Fünfundsiebzig Jahre Industriegewerkschaft Metall, Frankfúrt 1966, bls. 72-78.

[22] Hér er ekki unnt að lýsa því í smáatriðum hvernig forbyltingarástand greinist frá byltingarástandi. Með verulegri einföldun mætti þó reifa þetta svona: Forbyltingarástand einkennist af svo víðtækri fjöldabaráttu að áframhaldandi tilveru ríkjandi skipulags stafar hlutlæg ógn af, en í byltingarástandi birtist þessi ógn skipulagslega í því að öreigarnir koma á fót tvíveldisstofnunum (þ.e.a.s. valdastofnunum sem geta orðið skipulagstæki verkalýðsstéttarinnar). Hin huglæga ógn birtist í því að fjöldinn gerir beinar byltingarkröfur sem ríkjandi stétt getur hvorki hafnað né gengið að.

[23] Sjá síðar um upphaf þessarar lenínísku stjórnlistar.

[24] Rosa Luxemburg, „Organisationsfragen der russischen Sozialdemokratie“, í Schriften zur Theorie der Spontanität, Hamborg 1970, bls. 71-72. Einnig til á ensku, m.a. í Rosa Luxemburg Speaks, New York 1970.

[25] Lenín, Hvað ber að gera?, bls. 94-95.

[26] Um tengsl þessarar áætlunar við byltinguna sjá Hvað ber að gera?, bls. 232-233. Skipulagslegar reglur sem varða miðstýringu er vissulega að finna í Hvað ber að gera?, en þær eru alfarið komnar undir þeirri staðreynd að flokkurinn var bannaður.  „Löglegum“ byltingarflokkum ráðleggur Lenín að viðhafa sem víðtækast „lýðræði“. „Þetta almenningseftirlit (í bókstaflegri merkingu orðsins) sem haft er með störfum flokksmanna á pólitískum vettvangi verður til þess að skapa sjálfvirkt kerfi, er leiðir til þess sem í líffræðinni er kallað: „Það heldur velli sem hæfast er“. „Náttúruúrval“ með allt starf fyrir opnum tjöldum, kosningum og almenningseftirliti, gefur tryggingu fyrir því, þegar öllu er á botninn hvolft, að sérhver stjórnmálamaður sé á „réttri hillu“, vinni þau störf sem hann er hæfastur til, finni á sjálfum sér afleiðingar mistaka sinna og sanni frammi fyrir öllum hæfni sína til að viðurkenna mistök sín og að komast hjá þeim.“ (Hvað ber að gera?, bls. 181-182). Í pólska flokknum, en starfsemi hans markaðist einnig af því að hann var bannaður, beitti Lúxembúrg sér fyrir (eða sætti sig við) miðstýringu sem var engu linari en Bolsévíkanna (sbr. deilurnar við Radek-hópinn í Varsjá, og þær alvarlegu sakir sem bornar voru á hann).

[27] Rosa Luxemburg Speaks, bls. 118.

[28] Sjá um þetta bók Davids Lane, The Roots of Russian Communism, Assen 1969. Lane reyndi að greina félagslega samsetningu rússneska sósíaldemókrataflokksins og bolsévísku og mensévísku flokksbrotanna milli 1897 og 1907 á grundvelli talnagagna, og hann komst að þeirri niðurstöðu að meðal Bolsévíka hafi verið fleiri verkamenn og baráttusinnar úr verkalýðsstétt en meðal Mensévíka (bls. 50-51).

[29] „Því verður vart neitað að í hreyfingu sósíaldemókrata gæti sterkar miðstjórnartilhneigingar. Þessar tilhneigingar spretta úr efnahagskerfi kapítalismans, sem hefur mikla tilhneigingu til miðstýringar. Hin sósíaldemókratíska hreyfing starfar í stórborgum auðvaldsins. Hlutverk hennar er að standa vörð um stéttarhagsmuni öreiganna innan ramma þjóðríkisins, og að setja þessa sameiginlegu hagsmuni ofar öllum staðbundnum og einstökum hagsmunum. Þess vegna eru sósíaldemókratar yfirleitt andvígir hvers konar hreppapólitík og sjálfsstjórn einstakra héraða. Þeir leitast við að sameina alla verkamenn og öll verkalýðsfélög í einum flokki, óháð hvers konar mannamun í þjóðernislegu, trúarlegu og atvinnulegu tilliti“. Rosa Luxemburg Speaks, bls. 116.

[30] Sbr. þá staðhæfingu André Gorz að þegar kerfi vinnustaða- og grunnhópa er farið að „spanna allt landsvæði þjóðarinnar“ verði flokkur einungis myndaður „neðan frá og upp“. („Ni Trade-Unionists, ni Bolchéviks“, Les Temps modernes [október 1969]). Gorz hefur ekki látið sér skiljast að kreppa hins borgaralega ríkis og framleiðsluháttar auðvaldsskipulagsins þróast ekki stig af stigi „frá jaðarsvæðum til miðstöðvarinnar“ heldur er hún ójafnt ferli sem hefur tilhneigingu til að kalla fram úrslitaátök þegar það hefur þróast að vissu marki. Ef ekki tekst að koma á miðstýringu byltingarhópa og baráttumanna í tæka tíð, auðveldar það aðeins hinu umbótasinnaða skrifræði að sveigja hreyfinguna inn á braut sem því hugnast. Þetta gerðist fljótt á Ítalíu, raunar á meðan Gorz ritaði grein sína. Það leiddi síðan óðara til áfalla hjá grunnhópunum. Það leiddi engan veginn til útbreiðslu þeirra um landið allt.

[31] Sbr. grein Lúxembúrg um stofnun Kommúnistaflokks Þýskalands, „Fyrsta þingið“: „Byltingarsinnaðar framvarðarsveitir þýsku öreiganna hafa sameinast í sjálfstæðum stjórnmálaflokki.“ (Stofnþing Þýska kommúnistaflokksins [Der Gründungsparteitag der KPD. Protokoll und Materialien, ritstj. Hermann Weber, Europäische Verlagsanstalt, Frankfúrt 1969], bls. 301). „Það sem nú skiptir máli er að setja ósveigjanlega byltingarsannfæringu í stað byltingarstemmningar, hið kerfisbundna í stað þess sjálfsprottna.“ (Bls. 303). Sjá einnig (bls. 301) klausu úr bæklingi Rósu Lúxembúrg, Hvað vill Spartakushópurinn? [upphafleg útg., Was Will der Spartakusbund?, Verlag Rothe Fahne/Kommunistischen Partei Deutschlands (Spartakusbund), Berlín 1919]: „Spartakushópurinn er ekki flokkur sem reynir að komast til valda með hjálp verkalýðsfjöldans. Spartakushópurinn er aðeins sá hluti öreiganna sem er meðvitaður um markmið sitt og minnir verkalýðsstéttina í hverju skrefi á sögulegt hlutverk sitt, sá hluti öreiganna sem á hverju stigi byltingarinnar er fulltrúi hins sósíalíska lokamarkmiðs og hagsmuna heimsbyltingar öreiganna í öllum málefnum þjóða.“ (Skáletur E.M. [Sbr. enska útg. í Rosa Luxemburg, Selected Political Writings (ritstj. Dick Howard), bls. 375-376])

Árið 1904 skildi Lúxembúrg ekki enn það megininntak bolsévismans að „sá hluti öreiganna sem er meðvitaður um markmið sitt“ verður að greina sig skipulagslega frá „fjöldanum“. Það staðfestir tilgátu okkar algjörlega að um leið og Lúxembúrg hafði tileinkað sér kenninguna um framvarðarflokkinn var hún einnig ásökuð af sósíaldemókrötum (meira að segja „vinstrikrötum“)  um að vilja „alræði yfir öreigunum“. (Max Adler, „Karl Liebknecht und Rosa Luxemburg“, Der Kampf, 12. árg., 2. tbl., febrúar 1919, bls. 75).

[32] Léon Trotsky, Nos tâches politiques, París 1970, bls. 123-129.

[33] Sama rit, bls. 125.

[34] Sama rit, bls. 186.

[35] Leon Trotsky, „The Class, the Party and the Leadership“, Fourth International, 1. árg., nr. 7, desember 1940 bls. 193 [birtist síðar í bók: Leon Trotsky, The Spanish Revolution, New York 1973, sjá bls. 359-360]

[36] Við gætum bent á ótal dæmi. Sjá m.a. Lenín, Collected Works, Moskva 1963, 10. bindi, bls. 277-278; 18. bindi, bls. 471-477; 23. bindi, bls. 236-253.

[37] Í franska allsherjarverkfallinu í maí 1968 kom rækilega á daginn að það er útilokað að byltingarsinnaðar framvarðarsveitir í einu landi geti sameinast á „sjálfsprottna“ vísu.

[38] Án skipulagðs byltingarframvarðar, sem hefði unnið nauðsynlegt undirbúningsstarf, voru þessir angar sjálfstæðrar skipulagningar ófærir um að lama, hvað þá brjóta niður, íhaldssama miðstýringu verkalýðsfélaganna, atvinnurekenda og ríkisvaldsins.

[39] Leon Trotsky, The History of the Russian Revolution, Ann Arbor 1957, bls. xix.

[40] Sjá m.a. Georg Lukács, History and Class Consciousness, London 1971.

[41] Viðleitni skrifræðisins til að vernda sérstaka pólitíska og efnahagslega hagsmuni sína er vitaskuld sá félagslegi grunnur sem yfirbyggingin, sjálfræði hennar og hugmyndafræði, hvíla á.

[42] Rosa Luxemburg Speaks, bls. 121.

[43] Leon Trotsky, „Results and Prospects“, The Permanent Revolution, bls. 114.

[44] Sbr. t.d. hið nístandi háð Klöru Zetkin um forystu þýskra sósíaldemókrata (og staðfestuleysi Kautskys) vegna ritskoðunar flokksforystunnar á bók Kautskys, Vegurinn til valda (Kautsky, Le Chemin de pouvoir, París 1969, bls. 177-212). Berið þetta saman við þá virðingu sem Lenín sýndi Kautsky þetta sama ár.

[45] Lenin, „Der Zusammenbruch der II. Internationale“, í Lenín & Sínovév, Gegen den Strom, útg. Forlag III. Alþjóðasambandsins [dreifing Carl Hoym, Hamborg] 1921, bls. 164.

[46] Sama rit, bls. 165.

[47] Lenin, „„Left-Wing“ Communism: An Infantile Disorder“, Collected Works, bindi 31, (Foreign Languages Publishing House, Moskvu, 1968), bls. 14-118. [ísl. þýð. Lenín, Vinstri-róttækni, barnasjúkdómar kommúnismans, Heimskringla, Reykjavík 1970] Sjá einnig áðurnefnda klausu úr bæklingi Rósu Lúxembúrg, Hvað vill Spartakushópurinn? [upphafleg útg., Was Will der Spartakusbund?, Verlag Rothe Fahne/Kommunistischen Partei Deutschlands (Spartakusbund), Berlín 1919]. Þessi niðurstaða var fremri niðurstöðum Trotskís 1906 og Lúxembúrg 1904. Andspænis aukinni íhaldssemi flokksbákns sósíaldemókrata gerðu þau sér gyllivonir um að fjöldinn gæti leyst valdatökuvandann með byltingareldmóðinum einum. Í „The Mass Strike, the Political Party and the Trade Unions“ (Rosa Luxemburg Speaks, bls. 152-219) „leysir“ Lúxembúrg vandamálið með skírskotun til hinna óskipulögðu, þ.e. fátækasta hluta öreiganna sem öðlast fyrst einhverja stéttarvitund í fjöldaverkföllum. Í ritum sínum eftir 1914 stillir Lenín þessum fjölda upp á móti verkalýðsaðlinum á nokkuð einfaldaðan hátt að ég tel. Um þetta leyti tilheyrðu m.a. verkamenn í stóru stál- og málmbræðsluverunum þessum óskipulagða hluta þýskra öreiga og þegar þeir snerust sem fjöldi til aukinnar róttækni eftir 1918 voru þeir alls ekki lengur meðal hinna „fátækustu“.

[48] Hinni svokölluðu almennu kreppu auðvaldsins, upphafi hnignunarskeiðs auðvaldsskipulagsins, má ekki rugla saman við hagsveiflukreppur, þ.e. reglulegar efnahagslegar kreppur sem komið hafa jafnt á uppgangs- sem hnignunarskeiði auðvaldsskipulagsins. Að áliti Leníns er það tímabil sem hófst með heimsstyrjöldinni fyrri „upphaf söguskeiðs félagslegra byltinga“. Sbr. Gegen den Strom, bls. 393.

[49] Í þessu liggur vafalaust stærsti veikleiki þessarar forlagakenningar. Af tilhneigingunni til vaxandi sjálfstæðis er umsvifalaust dregin ályktun um félagslegu hættu sem hún hafi í för með sér, og í greiningunni er ekki tekið tillit til þess hvernig félagslegt vald hefur sitt fram eða tiltekinna félagslegra hagsmuna. Tilhneiging dyravarða og gjaldkera til að ala með sér sjálfstæða hagsmuni veitir þeim engin völd yfir bönkum og stórfyrirtækjum, ef undan er skilið „valdið“ til að fremja rán, en það er raunar bundið alveg sérstökum kringumstæðum. Ef greining á þessari tilhneigingu til sjálfstæðis ætti að hafa nokkurt félagslegt inntak yrði að fylgja henni skilgreining á þessum kringumstæðum.

[50] Formlegar leikreglur lýðræðislegs miðstjórnarvalds eru auðvitað hluti af þessum forsendum, s.s. réttur allra félaga til að fá upplýsingar um ágreining í röðum forystunnar; réttur til að mynda skoðanahópa og koma á framfæri við félagana andstæðum sjónarmiðum fyrir kosningar til stjórnar og þinga; reglulegt þinghald; réttur til að endurskoða með vissu millibili meirihlutaákvarðanir í ljósi nýrrar reynslu; réttur minnihluta félaga til að reyna að hnekkja ákvörðunum meirihlutans og að taka pólitískt frumkvæði á þingum, o.s.frv.

Þessi lenínísku grundvallaratriði lýðræðislegs miðstjórnarvalds voru sett fram á sláandi hátt í nýjum lögum sem unnin voru fyrir 14. þing Kommúnistaflokks Tékkóslóvakíu í ágúst 1968. Forsvarsmenn skrifræðislega miðstjórnarvaldsins í Moskvu svöruðu með innrásinni. Í rauninni var þessi tillaga um afturhvarf til hinnar lenínísku hugmyndar um lýðræðislegt miðstjórnarvald einn helsti þyrnirinn í augum sovéska skrifræðisins varðandi þróun mála í Tékkóslóvakíu.

[51] Leon Trotsky, The History of the Russian Revolution.

[52] Milli 1905 og 1917 var félögum Bolsévíkaflokksins innrætt vígorðið „lýðræðislegt alræði verkamanna og bænda“, þ.e. vígorð sem miðast við möguleikann á bandalagi verkalýðsflokks og bændaflokks innan ramma kapítalismans og gekk með öðrum orðum út frá kapítalískri þróun rússnesks landbúnaðar og iðnaðar. Lenín hélt fast í þennan möguleika til loka árs 1916. Það var ekki fyrr en 1917 að honum skildist að Trotskí hefði haft rétt fyrir sér þegar hann, þegar árið 1905, sá fyrir að að vandamál landbúnaðarins yrðu einungis leyst í tengslum við alræði öreiganna og félagsnýtingu rússneska hagkerfisins.

Hartmut Mehringer („Introduction historique“ í riti Trotskís, Nos tâches politiques, bls. 17-18, 34 og víðar) fer alveg villur vegar þegar hann ruglar skipulagskenningu Leníns saman við staðbundna stjórnlist hans í rússnesku byltingunni og skýrir hana út frá hugtökum á borð við „óæðra“ hlutverk verkalýðsstéttarinnar (?) í þeirri baráttu. Það sama á við þegar hann tengir kenningu Trotskís um stigvaxandi útbreiðslu stéttarvitundar til allrar verkalýðsstéttarinnar við kenninguna um samfellda byltingu. Mehringer setur byltingarstjórnlist Leníns ranglega og fáránlega fram (Lenín studdi fullkomið sjálfstæði verkalýðsstéttarinnar gagnvart borgarastéttinni, og var alveg sammála því að verkalýðsstéttin hefði forystuhlutverki að gegna í byltingunni). Luxemburg hafnaði, eins og Lenín, öllum tilraunum til að koma á alræði öreiganna í Rússlandi og taldi þær ótímabærar. Hún ætlaði byltingarbaráttu rússnesku öreigastéttarinnar einungis það markmið að leysa af hendi söguleg verkefni borgaralegrar byltingar. (Jafnframt barðist hún gegn skipulagskenningu Leníns). En þar að auki virðist okkur augljóst að sjálf kenningin um samfellda byltingu (þ.e. verkefnið að stofna til alræðis öreiganna í vanþróuðum löndum) verður því aðeins framkvæmd á raunsæjan hátt að fyllstu athygli sé beint að hinum almennu verkefnum byltingarinnar.

Hún stangast þannig ekki á við skipulagskenningu Leníns, heldur styður hana beinlínis. Sjá einnig um þetta frábæran bækling eftir Denise Avenas, Économie et politique dans la pensée de Trotsky, Maspéro, París 1970 [Dönsk útg. Trotskijs økonomisk-politiske teori, Røde hæfter nr. 3, Revolutionære socialisters forbund, Kaupmannahöfn 1972; ensk útg. „Trotsky‘s Marxism“, International, 3.árg. 1976, nr. 2, bls. 25-38 og niðurlagið í næsta hefti (nr. 3), bls. 33-48].

[53] Lenín, Œuvres complètes, 12. bindi, París 1969, bls. 74. „Í bæklingnum Hvað ber að gera? er ítrekað lögð áhersla á að sú skipulagning atvinnubyltingarmanna sem þar er lögð til hafi einungis merkingu að því marki sem hún tengist hinni „raunverulegu byltingarsinnuðu stétt sem óstöðvandi rís upp til baráttu““. Lenín leggur áherslu á að vandamálin sem fylgja starfi smáhópa verði einungis kveðin í kútinn þegar flokkurinn sýnir að hann „getur náð til öreiga í opnu fjöldastarfi“. (Sama rit, bls. 75).

[54] Hjá Maspéro í París birtist bráðlega ritgerðasafn okkar, „Verkalýðseftirlit, verkalýðsráð og sjálfsstjórnun verkafólks“ [Contrôle ouvrier, conseils ouvriers, autogestion], en þar er reynt að færa sönnur á þessa staðhæfingu. Europäischer Verlagsanstalt hefur lýst áformum um þýska útgáfu þess árið 1971. [Einnig er til sænsk útg., Ernest Mandel (ritst.), Arbetarkontroll, arbetarråd och arbetarnas självstyre, Mölndal 1971].

[55] Lenín taldi „hið leiðandi hlutverk flokksins“ í ráðstjórninni vera pólitískt. Það sem skipti máli væri að sannfæra meirihluta fólks í ráðunum um réttmæti hinnar kommúnísku stefnu, en ekki að setja sjálfan sig í stað meirihlutans. Í grundvallarriti sínu um verkalýðsráð, Ríki og byltingu, nefnir hann alls ekki „hið leiðandi hlutverk flokksins“. Og þó hann hafi iðulega kveðið fast að orði um baráttuaðferðir á erfiðustu árum borgarastríðsins og upplausnarinnar er hægt að finna í ritum hans rök gegn hugmyndum um „kommúnista án ráða“ en ekki gegn hugmyndum um „ráð án kommúnista“.

[56] Georg Lukács (Geschichte und Klassenbewusstsein, áður tilvitnað, bls. 306 og áfram) skjátlast þegar hann telur sig finna eina rót kenningar Luxemburg um „sjálfsprottna“ baráttu í „tálsýninni um hreina öreigabyltingu“. Jafnvel í löndum þar sem fjöldi og félagslegt mikilvægi verkalýðsins er orðið svo mikið að spurningin um „bandamenn“ skiptir litlu máli, þá er sjálfstætt skipulag framvarðarins í „hreinni öreigabyltingu“ algjör nauðsyn vegna mismunandi aðstæðna ólíkra hluta verkalýðsstéttarinnar.

[57] Sláandi dæmi um þetta eru kínversku maóistarnir sem segja að einn armur flokksins (þ.m.t. meirihluti miðstjórnarinnar sem leiddi kínversku byltinguna til sigurs) sé „fulltrúi hinnar kapítalísku stefnu“ og jafnvel að fylgismenn hans séu hreinir og beinir „kapítalistar“. Að mati ítölsku bordigistanna átti allsherjarverkfallið 14. júlí 1948 ekkert skylt við verkalýðsbaráttu, því að verkamennirnir fóru í verkfall til að verja hinn „endurskoðunarsinnaða“ foringja Kommúnistaflokksins, Togliatti.

Athugið einnig hin frábæru ummæli franska spontanistans Denis Anthiers: „Þegar verkalýðurinn er ekki byltingarsinnaður þá er hann ekki til og byltingarsinnar geta þar engu um breytt. Þeir geta ekki skipað sjálfa sig uppalendur fjöldans og þar með skapað þær sögulegu aðstæður þar sem verkalýðurinn verður það sem hann er; það getur aðeins þróun nútímasamfélags gert“. (Formáli að L. Trotsky, Rapport de la délégation sibirienne, Spartacus, París 1970, bls. 12). Þessi tilvitnun sýnir einnig í hve ríkum mæli öfgakennd huglægni helst í hendur við öfgakennda hlutlægni. Og hvernig á að útskýra að verkalýðurinn sigraði ekki, þrátt fyrir öfluga baráttu? „Það er aðstæðunum að kenna. Hinar hlutlægu aðstæður voru ekki nægilega þroskaðar“. Að baki grímu vinstriróttækninnar má sjá fyrir sér hina kunnu „spontanista“ Karl Kautsky og Otto Bauer kinka kolli til samþykkis. Til hve hlálegra niðurstaðna þessi öfgafulla forlagatrú og vélræna nauðhyggja leiða sést ljóslega þegar sjálf „þróun nútímasamfélags“ á að skýra hvers vegna meirihlutinn í fyrirtækinu X eða bænum Y snýst skyndilega til fylgis við alræði öreiganna og verður umbótastefnunni andvígur, en meirihlutinn í fyrirtækinu Z eða bænum V gerir það ekki. Hvort sem okkur líkar betur eða verr þá ráðast úrslit byltingarinnar af þessu atriði. Svo lengi sem sjálf „þróun nútímasamfélags“ verður ekki til þess að öll fyrirtæki og allir bæir falli sem þroskaðir ávextir í gin byltingarinnar ættu „uppalendur fjöldans“ skv. Anthier að forðast að beita „hlutlægar kringumstæður“ valdi með því að reyna að vinna verkamenn frá Z og V á sitt band.

[58] Þessar mótbárur gegn Lenín og lenínistum settu rússnesku ökónómistarnir fram. Spontanistar nútímans hafa nú uppgötvað þær að nýju.

[59] Sjá í þessu sambandi rit Nicos Poulantzas, Pouvoir politiques et classes sociales, sem áður var vísað til. [Ensk þýðing Political Power and Social Classes, NLB; sænsk þýðing Politisk makt och sociala klasser, 1970]

[60] Það er athyglisvert að eftir klofning rússneska sósíaldemókrataflokksins voru mun fleiri menntamenn í röðum Mensévíka en Bolsévíka. Sjá um þetta í riti Davids Lane, The Roots of Russian Communism, bls. 47 og 50.

[61] David Lane leggur einnig áherslu á yfirburði Bolsévíka í bæjum þar sem stórar verksmiðjur voru og gömul rótgróin verkalýðsstétt. (Sama rit, bls. 212-213).

[62] Í síðasta riti sínu („Zum allgemeinen Verhältnis von wissenschaftlicher Intelligenz und proletarischen Bewusstsein“, í SDS-Info, nr. 26-27, 22. desember 1969) birti Hans-Jürgen Krahl mikilvæga tilvitnun í Marx sem varðar þetta vandamál og birtum við hana hér. Tilvitnunin er úr uppkasti að 6. kafla 1. bókar í 1. bindi Auðmagnsins. Þessi kafli, „Sechstes Kapitel. Resultate des unmittelbaren Produktionsprozeẞes“, var ekki gefinn út í Auðmagninu og birtist fyrsta sinni í Arkhiv Marksa i Engelsa árið 1933 [bæði á þýsku og rússnesku, nánar tiltekið í II. bindi, ritstj. V. Adoratskí. Á ensku hefur hann birst sem hér segir: „Results of the immediate production process“, í Karl Marx, Capital, volume 1, Penguin, Harmondsworth 1976, bls. 948-1084, ásamt aðfararorðum Mandels, bls. 943-947]. Þessa grein viljum við tileinka minningu hins unga vinar sem féll frá með svo sviplegum hætti, enda var ætlunin sú að hún ýtti undir umræður og yki gagnkvæman skilning okkar á milli.

„Samfara framþróun raunverulegrar þátttöku vinnunnar á tímaskeiði auðmagnsins (eða á tímaskeiði hins sérstaka framleiðsluháttar auðmagnsins) verður hinn raunverulegi gerandi í framleiðsluferlinu í heild ekki hinn einstaki verkamaður, heldur í síauknum mæli samþætt félagslegt vinnuframlag. Ólíkar myndir vinnugetu etja kappi hver við aðra og mynda í sameiningu vél framleiðslunnar í heild, taka þátt í sköpunarferli varanna með afar ólíkum hætti – eða, sem hér væri réttara: sköpunarferli afurðanna. (Einn vinnur þannig að hann notar mest hendurnar, annar notar aðallega hugann. Einn er ráðsmaður, verkfræðingur, tæknimaður, o.s.frv., annar er eftirlitsmaður en sá þriðji almennur verkamaður eða jafnvel handlangari). Vegna þessarar þróunar munu æ fleiri verksvið vinnunnar falla í flokk framleiðinnar vinnu, og þeir sem inna hana af hendi flokkast sem framleiðnir verkamenn sem auðmagnið arðrænir milliliðalaust. Þeir verða þannig undirokaðir af neyslu- og framleiðsluferli auðmagnsins“. (Karl Marx, Resultate des unmittelbaren Produktionsprozeẞes, Frankfúrt 1969, bls. 66). [Á ensku: Capital, vol. 1, bls. 1039-1040].

[63] Leon Trotsky, The Intelligentsia and Socialism, London 1966.

[64] Lev Trotskí, „Die Entwicklungstendenzen der russischen Sozialdemokratie“, Die Neue Zeit, árg. XXVIII, nr. 2 (1910), bls. 862.

[65] Strax í sinni fyrstu bók gegn Lenín (Nos tâches politiques, t.d. bls. 68-71) reyndi Trotskí að setja fram öll rökin gegn „ökónómismanum“ og „skripulagshugmyndum handverksmanna“ í Hvað ber að gera? eins og aðeins væri á ferðinni umræða milli menntamanna, eða í besta falli tilraun til að vinna besta hluta smáborgaralegra menntamanna yfir á band byltingarsinnaðra sósíaldemókrata. Hann skildi ekki að málið snerist um það að eyða smáborgaralegum, endurskoðunarsinnuðum áhrifum á verkalýðsstéttina. Rök hans gegn Lenín frá 1903-1914 einkenndust af vanmati á hinum hörmulegu afleiðingum hentistefnunnar fyrir verkalýðsstéttina og verkalýðshreyfinguna. Það var ekki fyrr en 1917 sem hann yfirvann þetta vanmat í eitt skipti fyrir öll.

[66] August Bebel, Briefwechsel mit Friedrich Engels, Haag 1965, bls. 465.

[67] Þeim virtist eina vandamálið í vegi byltingarinnar vera það að nauðsynlegt væri að bregðast við hugsanlegu afnámi almenns kosningaréttar, t.d. í styrjöld. Í umfjöllun sinni fjöldaverkföll hafði Rósa Lúxembúrg hins vegar leitast við að útfæra baráttuform verkalýðsins handan endimarka kosninga- og launabaráttu, og fylgdi þar vandlega fordæmi rússnesku byltingarinnar 1905.

Enn í dag reynir svo Lelio Basso, í athyglisverðri greiningu á Rosa Luxemburgs Dialektik der Revolution (Frankfúrt 1969, bls. 82-83) að setja kjarna stjórnlistar Lúxembúrg fram þannig að hún sé sentrískur bræðingur dægurbaráttu og lokamarkmiðsins sem takmarkast við að „skerpa æ frekar andstæður“ hlutlægrar þróunar. Vegna þessara mistaka fer dýpri merking fjöldaverkfallakenningarinnar fram hjá honum, en hér þarf ekki að fara nánar í þá sálma.

[68] Sjá stefnuskrárumræðuna á 4. þingi Alþjóðasambands kommúnista (Protokoll der vierten Kongreẞ der kommunistischen Internationale, útg. af Alþjóðasambandi kommúnista 1923, bls. 404-448).

Henni lauk með eftirfarandi yfirlýsingu rússnesku þingfulltrúanna, undirritaðri af Lenín, Trotskí, Sínovév, Radek og Búkharín: „Deilan um það hvernig eigi að orða umskiptakröfurnar og í hvaða hluta stefnuskrárinnar þær eigi að vera hefur gefið þá kolröngu mynd að um grundvallarágreining sé að ræða. Í ljósi þessa álykta rússnesku fulltrúarnir einum rómi að röðun umskiptakrafna í stefnuskrám einstakra landsdeilda og orðalag og fræðilegur rökstuðningur fyrir þeim í almennum hluta stefnuskrárinnar geti ekki skilist sem hentistefna.“ (Sama rit, bls. 542).

Trotskí virðist hafa séð slíka stjórnlist fyrir strax árið 1904, en þá skrifaði hann: „Flokkurinn gengur út frá ríkjandi vitundarskorti verkalýðsins … og leitast við að festa rætur meðal verkalýðsins með því að hækka þetta vitundarstig …“ (Nos tâches politiques, bls. 126).

[69] Georg Lukács, Lenin, London 1970, bls. 31. Lukács hefur fullkomlega rétt fyrir sér þegar hann ályktar af svipuðum forsendum að hinn byltingarsinnaði leníníski flokkur geti ekki „skapað“ neina byltingu, en þó vissulega ýtt undir þær tilhneigingar sem leiða til hennar. Slíkur flokkur er bæði framleiðandi byltingarinnar og afurð hennar, en þar er fólgin lausn á andstæðunum milli kennisetninga Kautskys og Rósu Lúxembúrg, þ.e. að „hinn nýi flokkur verður að undirbúa jarðveginn fyrir byltinguna“ og að “hinn nýi flokkur myndast í byltingarsinnuðum aðgerðum fjöldans“.

[70] Hans-Jürgen Krahl (bls. 13) hefur alveg á réttu að standa þegar hann ber Lukács það á brýn að hugmynd hans um stéttarvitund öreiganna í heild sé „hugsjónarkennd“, og sömuleiðis þegar hann brigslar Lukács um vangetu til að sameina staðreyndaþekkingu og fræðilega þekkingu – sem hann rekur svo aftur til vangetu til að flytja byltingarsinnaða fræðikenningu út til hins vinnandi fjölda. Á grundvelli þessarar ritgerðar okkar hefði hann getað dregið þá ályktun að lenínísk skipulagskenning geri slíkan flutning til fulls, að kenningin snýst raunar um þetta atriði. En þar eð hann dregur skörp skil á milli „firrtra lífsskilyrða“ og hins firrta framleiðsluferils, þá hefur hann í samræmi við kenningar Marcuse tilhneigingu til að gefa sér þá forsendu að „firring neytandans“ sé höfuðvandinn. Afleiðingin verður sú að hann lítur á „fullnægingu þarfanna“ sem síðkapítalisminn virðist bjóða verkalýðsstéttinni sem hindrun á leið hennar til stéttarvitundar. Engu að síður er það ljósara nú en nokkru sinni fyrr að helstu veikleika kapítalísks framleiðsluháttar er að finna í firringu framleiðsluferlisins. Það er einungis þar sem upphaf raunverulega byltingarsinnaðrar uppreisnar getur orðið. Atburðirnir í Frakklandi og á Ítalíu sýna það ljóslega. Þar með erum við aftur komin að því verkefni að skapa og miðla stéttarvitund. Þegar við lýstum því hvarflaði ekki að okkur frekar en Krahl (og að því er við teljum víst, Lenín og Trotskí) að skipta hinu barnalega hugtaki um hinn „alvitra flokk“ og hugtakinu um þróun byltingarsinnaðrar kenningar sem ákveðnu og samfelldu framleiðsluferli.

[71] Karl Marx, „Greinar um Feuerbach“, 3. grein: „Sú efnishyggjukenning að mennirnir séu afurð aðstæðna og uppeldis, að breyttar aðstæður og uppeldi hafi í för með sér breytta menn, gleymir því að það eru einmitt mennirnir sem breyta aðstæðunum og að uppalandinn verður líka að fá sitt uppeldi“. [Marx og Engels, Úrvalsrit I. bindi, Reykjavík 1968, bls. 326].

[72] [Sama rit, bls. 326].

Færðu inn athugasemd