V.I. Lenín (1899) Um verkföll

Á síðustu árum hafa verkföll orðið afskaplega tíð í Rússlandi. Nú orðið fyrirfinnst ekki eitt einasta iðnaðarhérað þar sem ekki hafa átt sér stað mörg verkföll. Og í stærri borgum eru stöðug verkföll. Það er því skiljanlegt að stéttvísir verkamenn og sósíalistar velti æ oftar fyrir sér þýðingu verkfalla, aðferðum við að heyja þau, og hlutverki sósíalista sem taka þátt í þeim.

Við viljum reyna að skýra hér frá nokkrum hugmyndum okkar um þessi mál. Í fyrstu greininni munum við ræða þýðingu verkfalla almennt fyrir hreyfingu verkalýðsstéttarinnar; í annarri grein munum við fjalla um andverkfallslögin í Rússlandi; og í þeirri þriðju um það á hvernig verkfallsbaráttu er og hefur verið hagað í Rússlandi og hvaða afstöðu stéttvísir verkamenn ættu að taka til þeirra.

I.

Fyrst í stað verðum við að leita skýringa á verkföllum og útbreiðslu þeirra. Allir þeir sem minnast verkfalla af eigin reynslu, af frásögnum annarra eða í dagblöðum, sjá þegar í hendi sér að verkföll skella á og breiðast út hvarvetna þar sem verksmiðjur rísa og fjölgar. Í hópi stærri verksmiðja með hundruð (og stundum jafnvel þúsundir) verkamanna í vinnu, er  varla hægt að benda á eina einustu þar sem ekki hefur komið til verkfalla. Meðan einungis fáar stórar verksmiðjur voru til í Rússlandi, var lítið um verkföll; en síðan verksmiðjum tók að fjölga ört, bæði í gömlu iðnaðarhéruðunum og í nýjum iðnaðarborgum og bæjum, hafa verkföll orðið æ tíðari.

Hvers vegna leiðir stóriðja alltaf til verkfalla? Vegna þess að kapítalisminn nauðbeygir verkafólk óhjákvæmilega til baráttu gegn atvinnurekendum, og þar sem stóriðja er til staðar tekur sú barátta óhjákvæmilega á sig form verkfalla.

Við skulum skýra þetta nánar.

Kapítalismi nefnist samfélagskerfi þar sem jarðnæði, verksmiðjur, vinnutæki, o.s.frv. tilheyra örfáum jarðeigendum og kapítalistum, en meginþorri fólks er eignalaus eða á lítið sem ekkert og neyðist til að leigja út vinnuafl sitt. Jarðeigendur og verksmiðjueigendur ráða til sín verkafólk og lætur það framleiða alls konar vörur sem þeir selja síðan á markaði. Verksmiðjueigendur greiða verkafólki aukheldur laun sem rétt nægja því og fjölskyldum þeirra til framfærslu; allt það sem verkamaðurinn framleiðir umfram þetta mark rennur í vasa verksmiðjueigandans, sem ágóði hans. Við skilyrði kapítalismans er meginþorri fólks þess vegna launafólk og vinnur ekki fyrir sjálft sig heldur atvinnurekendur, gegn launagreiðslum. Það er skiljanlegt að atvinnurekendur reyni stöðugt að lækka launin; því minna sem þeir borga verkafólkinu, þeim mun meira hagnast þeir. Verkamennirnir reyna að fá hæstu mögulegu laun til að sjá fjölskyldu sinni fyrir nægum og hollum mat, til að geta búið í sæmilegu húsnæði, og til að geta klætt sig eins og annað fólk, en ekki umrenningar. Stöðug barátta á sér því stað milli atvinnurekenda og verkamanna um launin; atvinnurekandanum er frjálst að ráða til sín hvaða verkamann sem er, og ræður því til sín þann sem ódýrastur er. Verkamanninum er frjálst að velja sjálfur fyrir hvaða atvinnurekanda hann vinnur og leitar því hæstbjóðandans, þess sem greiðir honum hæstu launin. Hvort sem verkamaðurinn vinnur í sveit eða borg, hvort sem hann selur vinnu sína jarðeiganda, ríkum bónda, verktaka eða verksmiðjueiganda, semur hann jafnan við atvinnurekandann og stendur svo í stappi við hann um launin.

En er verkamanninum mögulegt að heyja baráttuna einn og sér? Fjöldi vinnandi fólks eykst; bændur flosna upp frá búum sínum og flýja úr sveitunum í borgirnar og verksmiðjurnar. Jarðeigendur og verksmiðjueigendur koma sér upp vélakosti sem sviptir verkafólkið vinnu sinni. Í borgunum eykst fjöldi atvinnulausra og í þorpunum æ fleiri betlarar; sveltandi fólk þrýstir launum neðar og neðar. Ógerlegt verður verkamanninum að kljást einsamall við atvinnurekandann. Ef verkamaður krefðist viðunandi launa eða reyndi að samþykkja ekki launalækkun, vísar atvinnurekandinn honum á dyr, með þeim orðum að fjöldi sveltandi fólks bíði úti fyrir og tæki því fegins hendi að vinna fyrir lágt kaup.

Þegar fólk missir allt sitt í þeim mæli að stöðugt er fyrir hendi mikill fjöldi atvinnulausra í borgum og þorpum, þegar verksmiðjueigendur raka saman gífurlegum auði og smáiðnrekendur eru svo slegnir út af auðkýfingunum, þá verður hver einstakur verkamaður alveg vanmáttugur gagnvart kapítalistanum. Þetta gerir kapítalistanum kleift að yfirbuga alveg verkamanninn, ganga af honum dauðum með þrælkunarvinnu, og raunar ekki honum einum, heldur konu hans og börnum líka. Ef við tökum dæmi af störfum þar sem verkafólki hefur ekki tekist að fá lagalega vernd og ekki er hægt að bjóða kapítalistanum birginn, þá verður vinnudagurinn óeðlilega langur, stundum allt að því 17-19 klukkustundir; við rekumst þar á 5-6 ára gömul börn að fara með sig á erfiði; við rekumst á heila kynslóð sísoltinna verkamanna að deyja smám saman úr hungri. Til dæmis að taka verkafólk sem vinnur heima að framleiðslu fyrir kapítalistann; en svo kann allt verkafólk að greina frá ótal mörgum dæmum öðrum! Jafnvel á tímum þrælahalds eða bændaánauðar var kúgun vinnufólks aldrei jafn hræðileg og gerist við skilyrði kapítalismans þegar verkamennirnir geta ekki veitt neina mótspyrnu og ekki fengið lagalega vernd til að setja geðþótta atvinnurekandans mörk.

Og til að komast hjá slíkum ósköpum hefja því verkamennirnir örvæntingarfulla baráttu. Þeir sjá að sem einstaklingar eru þeir einskis megnugir og að kúgun auðmagnsins boðar tortímingu þeirra, og því hefja verkamennirnir sameiginlega uppreisn gegn atvinnurekendunum. Verkföll hefjast. Í upphafi eru verkamennirnir oft ómeðvitaðir um hverju þeir vilja fá framgengt, þar sem þeir gera sér ekki grein fyrir hvert þeir eigi að beina aðgerðum sínum; þeir rífa því einfaldlega niður vélarnar og eyðileggja verksmiðjurnar. Þeir vilja einungis láta eigendum verksmiðjanna í ljós reiði sína; þeir láta reyna á sameiginlegt afl sitt til að losna úr óbærilegri aðstöðu, en brestur eftir sem áður skilning á því hvers vegna staða þeirra er svo vonlaus og hverju þeir ættu að bera sig eftir.

Um allan heim hefur reiði verkafólks í fyrstu brotist út í einstökum uppreisnum – lögregla og verksmiðjueigendur í Rússlandi kalla þær „uppþot“. Um allan heim hafa þessi uppreisnartilvik annars vegar leitt til meira eða minna friðsamlegra verkfalla, hins vegar til alhliða frelsisbaráttu verkalýðsstéttarinnar.

Hvaða þýðingu hafa verkföll (eða vinnustöðvanir) í baráttu verkalýðsstéttarinnar? Til þess að svara þessari spurningu verðum við fyrst að öðlast fyllri mynd af því hvað verkföll eru. Laun verkafólks ákvarðast, eins og við sáum, af samkomulagi atvinnurekanda og verkamanns, og ef hver einstakur verkamaður er gjörsamlega magnlaus liggur í augum uppi að verkamenn verða að berjast sameiginlega fyrir kröfum sínum, og skipuleggja verkföll, ýmist til þess að hindra atvinnurekandann í að lækka launin eða til að berjast fyrir hærri launum. Það er staðreynd að í öllum löndum þar sem kapítalisminn ríkir eiga sér stað verkföll verkamanna. Alls staðar, í öllum löndum Evrópu og í Ameríku finnur verkafólk fyrir vanmætti sínum þegar það er sundrað; aðeins sameinað getur það veitt atvinnurekendum mótstöðu, með því að fara í verkfall eða hóta verkfalli. Eftir því sem kapítalisminn þróast, eftir því sem verksmiðjur rísa hraðar og smákapítalistum er rutt úr vegi af þeim stóru, því meira aðkallandi verður þörfin á sameinaðri mótstöðu verkamanna, því atvinnuleysi eykst, samkeppnin milli kapítalistanna harðnar og þeir reyna að framleiða vörur sínar eins ódýrt og mögulegt er (og til þess verða þeir að greiða verkafólki sem lægst laun), og sveiflurnar í iðnaðinum verða æ sterkari og kreppurnar magnast.[1] Þegar iðnaðurinn dafnar vel ná verksmiðjueigendur miklum hagnaði, án þess það hvarfli að þeim að deila honum með verkafólkinu; en þegar kreppa skellur á reyna verksmiðjueigendurnir að velta hallanum yfir á verkafólkið. Nauðsyn verkfalla í kapítalísku samfélagi er almennt viðurkennd í löndum Evrópu að því marki að lög í þessum löndum banna ekki framkvæmd verkfalla; einungis í Rússlandi eru enn í gildi villimannsleg lög gegn verkföllum (við munum ræða þessi lög og beitingu þeirra við annað tækifæri).

En verkföllin, sem spretta af eðli kapítalísks samfélags, marka upphaf baráttu verkalýðsstéttarinnar gegn þeirri samfélagsskipan. Þegar hinir ríku kapítalistar standa andspænis einum eignalausum verkamanni þýðir það algjöra kúgun verkamannsins. En þegar þessir eignalausu verkamenn sameinast breytist ástandið. Engin auðæfi skapa kapítalistunum hagnað ef þeir ná ekki í verkafólk sem vill vinna við tæki þeirra og hráefni og framleiða nýjan auð. Jafn lengi og verkamenn þurfa að eiga við kapítalistana einir á báti, verða þeir áfram algjörir þrælar, nauðbeygðir til að vinna án afláts fyrir aðra til að eignast brauðbita, áfram auðsveipir og þöglir launaþrælar. En þegar verkamenn leggja fram kröfur sínar í sameiningu og neita að lúta pyngjuvaldinu, hætta þeir að vera þrælar, þeir verða manneskjur og fara að krefjast þess að vinna þeirra auki ekki bara auð fáeinna iðjuleysingja heldur geri vinnandi fólki kleift að lifa mannsæmandi lífi. Þrælarnir fara að gera kröfu til þess að ráða sér sjálfir, fá að lifa eins og vinnandi fólk vill sjálft, en ekki eins og jarðeigendur og kapítalistar vilja að það geri. Þess vegna hafa kapítalistar jafnan beyg af verkföllum, þar sem þau grafa undan yfirráðum þeirra. „Ei bifast hjólin hætishót, ef höndin þín ramma er því mót“ segir í þýskum verkalýðssöng um verkalýðsstéttina.[2] Og þannig er það í raun: verksmiðjum, jörðum jarðeigenda, vélum, járnbrautum, o.s.frv. o.s.frv., mætti líkja við hjól í risastórri vél – vél sem skilar ýmsum varningi, vinnur hann og afhendir svo á áfangastað. Vélina gangsetur verkamaðurinn, sá er yrkir jörðina, vinnur málma úr jörðu, framleiðir vörur í verksmiðjum, byggir hús, verkstæði og járnbrautir. Þegar verkafólkið neitar að vinna er hætta á að allir hlutar vélarinnar stöðvist. Verkföll minna kapítalistana á að það eru ekki þeir sjálfir heldur verkafólkið sem eru hinir eiginlegu herrar, verkafólkið sem nú hefur æ hærra um rétt sinn. Verkföll minna verkamenn á að staða þeirra er ekki vonlaus, að þeir standa ekki einir. Takið eftir hve stórkostleg áhrif verkföll hafa bæði á þá sem eru í verkfalli og á starfsmenn í nálægum verksmiðjum eða í sama iðnaði. Á vinnufriðartímum innir verkafólk störf sín af hendi möglunarlaust, andmælir ekki atvinnurekanda sínum og lætur ekki í ljós óánægju yfir aðstöðu sinni. Á verkfallstímum leggur það fram kröfur sínar af fullum þunga, minnir atvinnurekendur á allar þeirra misgjörðir, krefst réttar síns, hugsar ekki aðeins um sjálfan sig og laun sín, heldur einnig samverkafólk sitt sem lagt hefur niður vinnu með því, staðið upp og barist óttalaust fyrir málstað verkalýðsins. Verkfall kostar verkafólk jafnan miklar þrengingar, hræðilegar þrengingar sem ekki verður líkt við annað en stríðshörmungar – sveltandi fjölskyldur, launamissi, tíðar handtökur, brottrekstur úr þeim bæjum þar sem þeir eiga heima og vinna. Þrátt fyrir allar þessar þjáningar fyrirlítur verkafólk þá sem bregðast samverkamönnum sínum og gera hrossakaup við atvinnurekandann. Þrátt fyrir allar þær þjáningar sem verkföll hafa í för með sér öðlast verkafólk í nálægum verksmiðjum aukinn kjark þegar það sér að félagar þeirra hafa tekið upp baráttu. „Fólk sem þolir slíkar raunir til að koma einum einasta borgara á kné mun takast að brjóta á bak aftur veldi allrar borgarastéttarinnar“, sagði einn af mestu leiðtogum sósíalismans, Engels, um verkföll verkamanna í Englandi.[3] Oft nægir að verkfall skelli á í einni verksmiðju til að verkföll hefjist þegar í fjölda annarra verksmiðja. Svo stórkostleg eru hin siðferðilegu áhrif verkfalla – áhrif þeirra á verkafólkið sem sér að félagar þess hætta að vera þrælar og verða jafnvel, aðeins um stundarsakir, að fólki jafnréttháu hinum ríku! Verkföll vekja verkamanninn kröftuglega til umhugsunar um sósíalisma og baráttu allrar verkalýðsstéttarinnar til að frelsa sig undan oki auðmagnsins. Iðulega hefur það gerst að verkamenn í tiltekinni verksmiðju, tiltekinni iðngrein eða bæ hafi harla lítið vitað um sósíalisma og naumast leitt hugann að honum áður en víðtækt verkfall hófst; en eftir verkfallið hafa námshópar og samtök orðið miklu algengari meðal þeirra og æ fleiri verkamenn orðið sósíalistar.

Verkfall sýnir verkafólki í hverju styrkur atvinnurekandans og styrkur þess sjálfs liggur; það kennir þeim að hugsa ekki einungis um eigin atvinnurekanda og ekki bara um sína nánustu samverkamenn, heldur um alla atvinnurekendur, borgarastéttina í heild, og verkalýðsstéttina í heild. Þegar verksmiðjueigandi sem hefur rakað saman milljónum á striti margra kynslóða verkafólks neitar að samþykkja lítils háttar launahækkun eða  reynir jafnvel að lækka launin enn meir, og ef verkafólk spyrnir á móti rekur hann þúsundir sveltandi fjölskyldna út á götu; þá verður verkafólkinu ljóst að öll borgarastéttin er fjandi verkalýðsstéttarinnar allrar, og að verkafólk getur einungis treyst á sjálft sig og sameiginlegar aðgerðir sínar. Það kemur oft fyrir að verksmiðjueigandi reynir sem best hann getur að hafa í blekkingum við verkafólk; leikur góðgerðamann og dylur arðrán sitt á verkamönnunum með lítilli ölmusu eða fölskum loforðum. Verkfall mélar jafnan blekkinguna í snatri, og leiðir verkamönnum í ljós að „góðgerðamaðurinn“ er úlfur í sauðargæru.

Auk þess opnar verkfall augu verkamannsins ekki bara fyrir eðli kapítalistanna heldur einnig eðli stjórnarinnar og laganna. Á sama hátt og verksmiðjueigendurnir leika góðgerðamenn verkamannanna, reyna einnig starfsmenn stjórnarinnar og handbendi þeirra að fullvissa verkafólk um að keisaranum og stjórn hans sé jafn annt um verksmiðjueigendurna sem verkamennina, eins og réttlætið krefst. Verkamaðurinn þekkir ekki lagabókstafinn, á engin samskipti við embættismenn stjórnarinnar, sérstaklega ekki þá háttsettu, og trúir þess vegna oft á allt þetta. Síðan skellur verkfall á. Saksóknari hins opinbera, umsjónarmaður verksmiðjunnar, lögregla og oft á tíðum herflokkar fara að birtast við verksmiðjuna. Verkamenn komast að raun um að þeir hafi brotið lög: lögin heimila atvinnurekendum að funda saman og ræða opinskátt leiðir til að lækka laun verkamanna, en verkamenn eru lýstir glæpamenn ef þeir gera með sér samkomulag! Verkafólk eru rekið út af heimilum sínum, lögregla lokar verslunum þar sem verkamennirnir gætu fengið að setja matvæli á reikning, og reynt að espa hermenn upp gegn verkafólki, eins þótt það gangi fram af rósemd og í friði. Hermönnum er jafnvel skipað að skjóta á verkamenn, og þegar þeir myrða óvopnaða verkamenn með því að skjóta þá aftan frá á flótta lætur keisarinn í ljós þakklæti sitt við herflokkana (þannig þakkaði keisarinn hermönnum sem myrtu verkfallsmenn í Jaroslavl 1895).[4] Þá rennur upp fyrir hverjum verkamanni að keisarastjórnin er argasti fjandi hans, þar sem hún ver kapítalistana en fjötrar verkamenn í bak og fyrir. Verkamönnum fer að skiljast að lögin eru samin til að þjóna hagsmunum hinna ríku eingöngu; að embættismenn stjórnarinnar gæta þeirra hagsmuna; að vinnandi fólk er keflað og ekki leyft að gera umkvörtunarefni sín heyrinkunn; að verkalýðsstéttin verður sjálf að berjast fyrir verkfallsréttinum, réttinum til að gefa út verkalýðsblöð, réttinum til að taka sæti á þjóðþingum sem setja lög og hafa umsjón með framfylgd þeirra. Stjórnin veit mætavel að verkföll opna augu verkamannsins, og er þess vegna lafhrædd við verkföll og reynir allt til að stöðva þau jafn skjótt og auðið er. Þýskur innanríkisráðherra sem kunnur var, og ekki að ástæðulausu, fyrir stöðugar ofsóknir á hendur sósíalistum og stéttvísum verkamönnum, mæltist svo frammi fyrir fulltrúum á þjóðþingi: „Á bak við sérhvert verkfall leynist byltingarskrímslið“. Sérhvert verkfall styrkir og útfærir skilning verkafólks á því að stjórnin er óvinur þess, og að verkalýðsstéttin verður að búast til baráttu gegn stjórninni fyrir réttindum alþýðu.

Verkföll kenna þannig verkafólki að sameinast, að einungis sameinað geti það barist gegn kapítalistunum; þau kenna verkafólki að hafa hugsun á baráttu allrar verkalýðsstéttarinnar gegn gervallri stétt verksmiðjueigendanna og gegn geðþótta lögregluvaldi stjórnarinnar. Þetta er ástæðan til þess að sósíalistar nefna verkföll „stríðsskóla“, skóla þar sem verkamenn læra að berjast gegn óvinum sínum, fyrir frelsi allrar alþýðu, frelsi alls vinnandi fólks undan oki embættismanna stjórnarinnar, undan oki auðmagnsins.

En „stríðsskóli“ er samt sem áður ekki stríðið sjálft. Þegar verkföll verða algeng fara einhverjir úr hópi verkafólks (og nokkrir sósíalistar einnig) að trúa því að verkalýðsstéttin geti takmarkað sig við verkfallsbaráttu, verkfallssjóði og verkfallssamtök; að verkalýðsstéttin geti með verkföllum einum saman bætt verulega aðstæður sínar eða jafnvel öðlast frelsi. Þegar þeir sjá hvílíkur kraftur býr í sameinaðri verkalýðsstétt, og jafnvel í litlum verkföllum, fara ýmsir að halda að verkalýðsstéttin þurfi einungis að lýsa yfir allsherjarverkfalli um allt land til að fá fram allan vilja sinn frá hendi kapítalistanna og stjórnarinnar. Sömu skoðun létu verkamenn í öðrum löndum í ljós á bernskuárum verkalýðshreyfingarinnar, þegar verkamenn voru enn reynslulitlir. Þessi hugmynd er röng. Verkfall er eitt þeirra vopna sem verkalýðsstéttin beitir í baráttu sinni fyrir frelsi, en ekki eina vopnið; og ef verkamennirnir gefa öðrum baráttuaðferðum ekki gaum verður það til að draga úr framvexti hreyfingarinnar og árangri hennar. Það er rétt að ef verkfall á að bera árangur þarf sjóði til að verkamenn geti dregið fram lífið á meðan á því stendur. Verkafólk hefur stofnað slíka sjóði (sem venjulega eru bundnir einstökum iðngreinum, tiltekinni handiðn eða verkstæði) í öllum löndum; en hér í Rússlandi er það sérstökum erfiðleikum bundið vegna þess að lögregla njósnar um þá, leggur hald á féð og tekur verkafólkið höndum. Verkafólk getur vitaskuld falist fyrir lögreglu; auðvitað gerir stofnun slíkra sjóða gagn, og við viljum ekki ráða verkamönnum frá því að stofna þá. En þess er ekki að vænta að verkalýðssjóðir laði til sín marga styrktarmenn meðan þeir eru bannaðir með lögum, og meðan aðild að þeim er lítil koma þeir ekki að miklum notum. En jafnvel í löndum þar sem verkalýðsfélög eru viðurkennd og ráða yfir geysistórum sjóðum getur verkalýðsstéttin samt sem áður ekki einskorðað sig við verkföll sem baráttuvopn. Ekki þarf nema að lítil snurða hlaupi á þráðinn í iðnrekstrinum (kreppu á borð við þá sem ágerist nú í Rússlandi), og þá geta verksmiðjueigendur farið að ala á verkföllum af ráðnum hug, vegna þess að þeir sjá sér hag í því að vinna leggist niður um tíma og verkfallssjóðir tæmist. Verkamenn geta þess vegna ekki undir neinum kringumstæðum takmarkað sig við verkfallsaðgerðir og verkfallssamtök. Í öðru lagi skila verkföll einungis árangri þar sem verkamenn eru nógu stéttvísir, kunna að velja rétta andartakið til verkfalls, kunna að setja fram kröfur sínar og hafa sambönd við sósíalista, en með þeirra hjálp geta þeir svo gefið út flugrit og bæklinga. Í Rússlandi eru slíkir verkamenn enn afskaplega fáir og það verður að leggja allt kapp á að fjölga þeim og gera allan fjöldann meðvitaðan um málefni verkalýðsins, kynna þeim sósíalismann og baráttu verkalýðsstéttarinnar. Þetta er verkefni sem sósíalistar og stéttvísir verkamenn verða að leysa í sameiningu, og stofna í þessu augnamiði sósíalískan flokk verkalýðsstéttarinnar. Í þriðja lagi leiða verkfallsaðgerðir, eins og við sáum, verkalýðnum í ljós að stjórnin er óvinur þeirra og að heyja verður baráttu gegn stjórninni. Raunar er það staðreynd að verkföll hafa smám saman kennt verkalýðsstétt allra landa að berjast gegn stjórnvöldum fyrir réttindum verkamanna og allrar alþýðu. Eins og við höfum áður sagt getur einungis sósíalískur verkalýðsflokkur háð þessa baráttu með því að breiða út réttan skilning verkamanna á stjórninni og málstað verkalýðsins. Annars staðar munum við ræða sérstaklega hvernig verkföllum er hagað í Rússlandi og hvernig stéttvísir verkamenn ættu að nýta sér þau. Hér verður að leggja áherslu á það sem áður sagði að verkfall er „stríðsskóli“ en ekki stríðið sjálft, að verkföll eru aðeins eitt baráttutækið, aðeins ein hlið verkalýðshreyfingarinnar. Verkamenn geta og verða að komast af því stigi að einskorða starf sitt við einstök verkföll, og snúa sér að baráttu allrar verkalýðsstéttarinnar fyrir frelsun alls vinnandi fólks, eins og hefur raunar gerst í öllum löndum. Þegar allir stéttvísir verkamenn verða sósíalistar og taka að beita sér fyrir þessu frelsi, þegar þeir sameinast um allt land með það fyrir augum að breiða út sósíalisma meðal verkafólks, til að kenna verkamönnum allar aðferðir til baráttu gegn óvininum, þegar þeir byggja upp sósíalískan verkalýðsflokk sem berst fyrir frelsun allrar alþýðu undan kúgun stjórnvaldsins og fyrir frelsi alls vinnandi fólks – fyrst þá mun verkalýðsstéttin tengjast að fullu hinni miklu hreyfingu verkalýðs í öllum löndum, sem sameinar alla verkamenn og hefur upp rauða fánann sem á er letrað: „Öreigar allra landa, sameinist!“

[1] Annars staðar munum við fjalla nánar um kreppur í iðnaði og hvaða þýðingu þær hafa fyrir verkafólk. Hér skal aðeins getið þess að á síðari árum hefur vel árað fyrir iðnaði í Rússlandi og hann „blómstrað“, en að nú (í lok árs 1899) sjást þess greinileg merki þess að „blómaskeiðinu“ muni ljúka með kreppu: örðugleikum við markaðssetningu afurða, gjaldþrotum verksmiðjueigenda og smákapítalista, og hræðilegum áföllum fyrir verkafólk (atvinnuleysi, launalækkunum, o.s.frv.). [Athugasemd Leníns]

[2] Bundeslied für den allgemeinen Deutschen Arbeiterverein, ljóð eftir Georg Herwegh frá 1863; upphaflega lagið er eftir Hans von Bülow, en síðar samdi Peter Heinz annað einfaldara sem nú er almennt sungið. Það var bannað um árabil og breiddist út ólöglega. Þess má geta að Herwegh var góðvinur Marx-hjónanna þegar þau dvöldu um hríð í Parísarborg, 1843-1845. – OM

[3] Friedrich Engels, The Condition of the Working Class in England, Penguin, London 2005, bls. 233-234. – OM

[4] Verkfallið við stóru verksmiðjuna í Jaroslavl átti sér stað í apríl-maí 1895. Rúmlega 4000 verkamenn lögðu niður vinnu vegna þess að nýja akkorðið sem verksmiðjustjórnin tók upp varð til þess að laun þeirra lækkuðu. Verkfallið var miskunnarlaust barið niður af herflokkum sem voru kvaddir til Jaroslavl. Afleiðingarnar urðu þær að einn verkamaður var myrtur, 14 særðir og 11 manns sættu ákærum. – OM

Skrifað í lok árs 1899. Frumbirt í Proletarskaja revolutsía, nr. 8-9, árið 1924. Íslenska þýðingin birtist fyrst í bæklingi Kommúnistahreyfingarinnar, m-l: V.I. Lenín, Um verkföll, án ártals (1972). Þýðanda er ekki getið í bæklingnum. Hér endurbirt með lítils háttar breytingum.

Færðu inn athugasemd